Þingmenn fóru hörðum orðum um málshöfðun fjögurra þingmanna Miðflokksins gegn Báru Halldórsdóttur, uppljóstrara í Klaustursmálinu, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
„Mér blöskrar þetta framferði,“ sagði Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður Pírata. „Mér blöskrar að fólk sem er með margfaldar tekjur á við þennan einstakling hópist saman gegn þessari einu manneskju og krefjist refsingar. Þessir menn hafa sýnt að þeir hafi hvorki manndóm né kjark til að biðjast afsökunar á hegðun sinni eða segja af sér.“
Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, vilja að Bára, 42 ára öryrki, sæti refsingu og greiði þeim miskabætur vegna „njósnaaðgerðar“ á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
Snæbjörn sagði það ótrúlegt að hugsa til þess að þeim hafi dottið málsókn í hug. „Þeir ættu frekar að þakka henni fyrir að hafa kennt sér mikilvæga lífslexíu.“ Heyrðust þá þingmenn hrópa „heyr, heyr“.
Segir þingmennina beina athyglinni annað
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók í sama streng. „Við erum að tala um atvik þar sem forseti Alþingis þurfti að biðja bæði þing og þjóð afsökunar,“ sagði hún. „Í mínum huga lýsir þetta algjöru skilningsleysi á alvarleika málsins og á þeirri stöðu sem þessir fjórmenningar hafa komið sér í.“
Lýsti hún skömm og furðu á málinu. „Að mínu mati er þetta enn og aftur tilraun til þess að drepa málinu á dreif, beina athyglinni annað og reyna um leið að komast hjá því að axla ábyrgð á eigin orðum og gjörðum og það er þessum þingmönnum hreint ekki til sóma,“ sagði Bjarkey.
Athugasemdir