Báru Halldórsdóttur, uppljóstrara í Klaustursmálinu, barst í dag bréf frá héraðsdómara þar sem sagt er að dómsmál kunni að vera höfðað gegn henni.
Undir bréfið ritar Lárentsínus Kristjánsson, dómari í héraðsdómi Reykjavíkur. Í bréfinu segir að beiðni hafi komið frá Reimari Péturssyni lögmanni, fyrir hönd fjögurra einstaklinga, um vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna.
Er Bára boðuð til þinghalds vegna beiðninnar í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi mánudag. „Meðfylgjandi beiðni verður ekki skilin öðruvísi en svo að dómsmál kunni að verða höfðað á hendur þér í kjölfar umbeðinnar gagnaöflunar,“ segir í bréfinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, voru á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn og ræddu við Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, um að ganga í Miðflokkinn. Orðaskiptin voru mjög hávær, áttu sér stað í vitna viðurvist og náðust að hluta á upptöku, sem Stundin hefur undir höndum.
Síðastliðinn föstudag, 7. desember, steig Bára fram í forsíðuviðtali í Stundinni og afhjúpaði sig sem manneskjuna sem tók upp samtöl stjórnmálamannanna. Þangað til hafði hún verið þekkt undir dulnefni sem hún notaði þegar hún sendi fjölmiðlum upptökurnar, nafninu Marvin sem er tilvísun í Hitchhiker's Guide to the Galaxy, eina af hennar uppáhaldsbókum.
Athugasemdir