Hvernig getum við borið virðingu fyrir sjálfum okkur ef við setjum ekki mörk?
Ef við sem einstaklingar og þjóð samþykkjum og sættum okkur við að framganga kjörinna fulltrúa samræmist ekki siðferðislegum gildum okkar, að ítrekað sé farið yfir mörk þess siðlega án þess að það hafi nokkrar afleiðingar, þar til okkur verður ljóst að það er engin leið að vita hversu langt þeir munu ganga án þess að axla ábyrgð, stöndum við frammi fyrir þeirri sömu spurningu og var varpað fram í ömurlegu samtali þingmanna á hótelbarnum á Klaustri: Viljum við vera föst í þessu ofbeldisfulla hjónabandi?
Við sjáum virðinguna sem þeir bera sjálfir fyrir Alþingi, samstarfsfólki sínu þar og þjóðinni, þegar þeir stingu af úr þingsal á vinnutíma til að setjast inn á barinn mitt á milli Alþingis og Dómkirkjunnar, þar sem þeir réðust til atlögu gegn fötluðum, samkynhneigðum og beittu sorakjafti sem hríðskotabyssu til að taka niður hverja samstarfskonuna á fætur annarri. Vitnandi í Schwarzenegger á meðan þeir uppnefndu konur og smættuðu niður í útlit þeirra og kynþokka, með meiningar um að konur ættu að gjalda þess á framboðslistum ef fallið hefði á þær. Svo hlógu þeir, skáluðu, mærðu hver annan og aðallega leiðtogann, skiptust á hetjusögum af sjálfum sér og því hvernig þeir hefðu nú misfarið með vald í ríkisstjórn, í eiginhagsmunaskyni. Skál!
Skyldi einhvern undra að fatlaðri, samkynhneigðri konu sem þarna sat, hafi misboðið svo illilega að hún ákvað að gefa almenningi færi á að kynnast þeim?
Auðvitað ekki
Enginn þeirra sem var þarna afhjúpaður hefur séð ástæðu til að segja af sér heldur þvert á móti. „Auðvitað segi ég ekki af mér,“ sagði Gunnar Bragi. „Af því að ég hef ekkert brotið af mér. Ég hagaði mér asnalega og ég er ekki fyrsti maðurinn í sögunni sem gerir það.“ Og þó, líklega er hann fyrsti ráðherrann sem leiðir alþjóðlega vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi sem, með vinum sínum, þeirra á meðal fyrrverandi forsætisráðherra, er síðan staðinn að því að leggja á ráðin um hefndaraðgerðir gegn samstarfskonu sinni á Alþingi, sem áttu meðal annars að felast í því að ríða henni.
„Þarna sátu þeir saman, „alvöru menn“ að eigin sögn, að niðurlægja ómarktækar, óhæfar konur“
Að ríða konu í hefndarskyni gegn vilja hennar kallast nauðgun, er refsivert athæfi og ekkert sem hafa ber í flimtingum. En þarna sátu þeir saman, „alvöru menn“ að eigin sögn, að niðurlægja ómarktækar, óhæfar konur, að mati þeirra, upphefja sjálfa sig á kostnað kvenna, hlæjandi að nauðgunarbröndurum og heimilisofbeldi. Voruð þið að lemja hana? Hahaha!
Alvöru menn, að eigin mati. Litlir karlar, að mati annarra og ómerkilegir.
Nauðgunarmenningin
Hafi einhver velkst í vafa um hvað nauðgunarmenning er, þá birtist hún okkur þarna. Í efstu lögum samfélagsins.
Við sáum þessi viðhorf líka endurspeglast í viðbrögðum kirkjunnar við Biskupsmálinu, þar sem í áraraðir var reynt að þagga niður í konum sem brotið var á.
Við sáum þau í skýringum ríkissaksóknara á háu hlutfalli frávísana í kynferðisbrotamálum: „Þarna játaði hann verknaðinn, en játaði ekki að hafa ætlað að nauðga manneskjunni. Það er heljarinnar munur þar á. Ég er hræddur um að það þyrfti þá að byggja ansi stór fangelsi ef menn ætluðu sér að telja öll svona atvik sem nauðganir og dæma alla. Það væri ekki bara alvarlegt heldur skelfilegt að senda menn á Litla-Hraun án þess að þeir viti nokkurn tímann af hverju, hvað þeir gerðu. Þú getur rétt ímyndað þér að eftir svona djamm væri lífi þeirra lokið. Ég þarf ekki að setja mig í spor þessara manna til þess að skilja það. Menn geta bara hugsað það sjálfir, hver fyrir sig. Maður vill ekki búa í þannig ríki.“
Við sáum því miður glitta í þessi viðhorf hjá yfirmanni kynferðisbrotadeildar lögreglunnar þegar gengið var á hann af hverju fjórar nauðganir hefðu verið framdar á sama skemmtistaðnum án þess að brugðist væri við því, þegar maður sem hafði helgað sig því að bæta málsmeðferð kynferðisbrota innan lögreglunnar og gert vel, brást við gagnrýni með því að segja að þolendur þyrftu að líta í eigin barm, lögreglan væri ekki frelsandi engill.
Enn á ný sáum við þessi viðhorf kristallast í viðbrögðum ráðherra, þingmanna og annarra við uppreist æru-málinu. Þannig höfum við séð að þessi viðhorf leynast víða, oft ómeðvitað, jafnvel á meðal þeirra sem fara með löggjafar- og framkvæmdarvald.
En sjaldan, eða aldrei hafa þessi viðhorf birst okkur jafn grímulaust og í samtali þingmannanna á Klaustri.
Refsað fyrir áhugaleysi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, bauð Ingu Sæland upp á bandalag og far á Bessastaði, en eftir að hún hafnaði honum opinberlega kölluðu þeir hana kuntu sem gæti grenjað en ekki stjórnað. Lilja Alfreðsdóttir fékk sömu meðferð, reyndar verri. Fyrst reyndu þeir að eigna sér hana opinberlega, stilla henni upp sem Miðflokkskonu í Framsóknarflokknum, en þegar hún sýndi þeim ekki áhuga, átti að refsa henni, „hjóla í helvítis tíkina“. Alvarleikinn í orðum þeirra liggur meðal annars í því að alltof margar konur þekkja þetta mynstur, að ef þær hafa ekki áhuga þá er þeim refsað.
„Hvers virði afsökunarbeiðni er þegar menn hafa sýnt að þeim er ekkert heilagt?“
Við höfum séð alltof mörg dæmi þess að konum sé refsað á opinberum vettvangi fyrir að taka þátt í umræðunni. „Ég get ekki talið upp öll þau skipti sem mér hefur beint og óbeint verið hótað nauðgun vegna skoðana minna,“ sagði íslensk kona sem tók þátt í metoo-byltingu stjórnmálakvenna.
Á faglegum vettvangi eru þær hunsaðar, virtar að vettugi, sniðgengnar. Hæðst er að þeim, lítið er gert úr þekkingu þeirra og færni, og þeim talin trú um að þær eigi ekki erindi. Dæmisaga úr íslenskum veruleika, ein af metoo-sögum kvenna úr réttarvörslukerfinu: „Ung kona, hæfileikarík og metnaðarfull, nýútskrifuð úr laganámi, ræður sig til starfa hjá stórri lögmannsstofu í Reykjavík. Starfsmaður á stofunni áreitir hana ítrekað kynferðislega og gengur mjög langt í þeim efnum. Hún reyndi að höndla, vera töff og vera ein af strákunum fyrst um sinn, en alltaf gekk þetta lengra og lengra. Ég fékk sjálf sjokk þegar þessi maður stakk tungunni upp í eyrað á henni og greip í brjóstin á henni fyrir framan mig, allt samt svona „djók“. Hún fékk loksins nóg þegar hann skellti henni á skrifborðið hjá sér og ætlaðist til þess að hún svæfi hjá sér. Hennar viðbrögð, fyrir utan sjokkið, var að tala við sinn yfirmann sem var kona og greina frá áreitninni. Nokkru seinna var hún kölluð inn á fund nokkurra eigenda þar sem henni var sagt upp störfum. En ekki leið á löngu þar til svipaðar sögur heyrðust af sama manni og öðrum starfsmönnum af stofunni. Það sem var hvað sárast í þessu öllu var að karlmenn úr stéttinni, menn sem við höfðum talið vini okkar, gerðu lítið úr henni, sögðu hana athyglissjúka og ljúga og því miður voru það ekki bara menn því þó nokkrar konur sögðu það sama þrátt fyrir að þessi maður væri þekktur fyrir svona háttsemi.“
Og þeim er refsað í einkalífinu, jafnvel með kúgun, áreitni eða ofbeldi. Flest morð sem framin eru á konum hér á landi eru framin af körlum sem töldu sig eiga tilkall til þeirra.
Viðhorf ofbeldis
Við búum í samfélagi þar sem hátt í þúsund einstaklingar leituðu sér aðstoðar á Stígamótum í fyrra vegna kynferðisbrota af völdum 730 kynferðisglæpamanna. Sama ár leituðu 22 á Neyðarmóttöku vegna hópnauðgana. Nauðganirnar verða sífellt grófari og brotaþolar lýsa niðurlægingu af hálfu gerenda í orðum og athöfnum. Þessi brot eru ekki framin í tómarúmi, þau eru framin á grundvelli gildismats þar sem konur þykja óæðri körlum. Þar sem þær eru smættaðar niður í útlit sitt og kynþokka. Þar sem þeir hafa valdið, réttinn til þess að gera það sem þeim sýnist.
Þetta er veruleikinn sem þingmennirnir á Klaustri höfðu í flimtingum, samhengið sem þeir töluðu inn í. Þetta er veruleikinn sem menntamálaráðherra vísar til þegar hún kallar þá ofbeldismenn. „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í mínum huga. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi,“ sagði Lilja í Kastljósi. „Ég hafði orðið fyrir stórkostlegri árás. Ég sætti mig ekki við það.“
Aðrir alþingismenn ættu ekki heldur að gera það. Ekki við heldur.
Skylda Sigmundar
Tvö ár eru liðin frá fjölmennustu mótmælum þjóðarinnar, í kjölfar Panamaskjalanna þar sem Sigmundur Davíð var afhjúpaður fyrir að hafa leynt eiginhagsmunum sínum. Hann sem hafði stillt kröfuhöfum upp sem hrægömmum átti sjálfur aflandsfélag sem átti kröfu á föllnu bankana. Hann hrökklaðist úr forsætisráðuneytinu en stofnaði nýjan flokk, með fólki sem var tilbúið til að fylgja honum í gegnum hvað sem er. Viðbrögðin hans þá voru sambærileg því sem við sjáum núna. Að svara aðeins völdum fjölmiðlum, reyna að rugla umræðuna, ljúga til um staðreyndir, stilla sér upp sem fórnarlambi, ráðast á sendiboðann, setja fram samsæriskenningar og bregðast við með hótunum. Eftir umfjöllun um Panamaskjölin hótaði hann Stundinni, Kjarnanum og RÚV málsókn, nú voru fyrstu viðbrögð hans að saka fjölmiðla um að stunda hleranir og krefjast aðgerða gegn þeim, ári eftir að yfirvöld settu ólögmætt lögbann á Stundina. Sneri síðan óbeinum hótunum upp á aðra þingmenn: „Er það núna orðin skylda mín að rekja það hvað tilteknir þingmenn hafa sagt um aðra þingmenn sem sumt hvert er, því miður er jafnvel ennþá og töluvert grófara heldur en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum?“
„Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til upphefja sjálfan sig.“
Aftakan á Klaustri var nefnilega ekkert einsdæmi, sagði hann. Sjálfur hefði hann margoft átt slík samtöl við þingmenn, sem hafa verið svo yfirgengileg að konan hans hefur ítrekað séð ástæðu til að yfirgefa aðstæðurnar. Þessu slengir hann framan í þjóðina, í tilraun til að varpa ábyrgðinni yfir á alla aðra en sjálfan sig, gera aðra samseka, normalísera framgöngu þeirra, án þess að átta sig á áfellisdómnum sem í því felst yfir honum sjálfum. „Ég bara skil ekkert hvert íslenskt samfélag er komið,“ segir eiginkona hans. „Hatrið og þörfin fyrir að smána aðra til upphefja sjálfan sig.“
Ætli flestum hafi ekki liðið þannig þegar þeir hlustuðu á samtalið á Klaustri.
Sameiginleg niðurstaða
Inntur eftir því hvort hann hefði í hyggju að segja af sér, spurði hann hortugur á móti hvort einhver sérstök ummæli gæfu tilefni til þess. Samtalið í heild sinni er tilefni afsagnar, grófustu ummælin þurfa ekki að hafa hrokkið úr munni hans heldur er nóg að hann hafi samþykkt þau og tekið þátt. Hann var nefnilega virkur þátttakandi í þessu samtali, þótt hann reyni nú að snúa þessu öllu saman upp á samflokksmenn sína og víkja sér undan ábyrgðinni með því að senda þá í frí. En ef hann vill einstök dæmi, ætti að vera nóg að vísa í samræðurnar um Lilju, þar sem hann tók undir þegar hún var sögð áhugalaus, sagðist skilja það mjög vel að einn vildi hjóla í tíkina, lagði jafnvel upp með aðgerðir. „Ég er búinn að láta þessa konu yrða á mig aftur og aftur. Það sem ég ætla að gera …,“ sagði Sigmundur Davíð, sem ætlaði að kalla hana á fund, líkt og hann kallaði stjórnendur fjölmiðla ítrekað á fund þegar honum mislíkaði fréttaflutningur af sér í forsætisráðuneytinu, sagðist geta sjálfum sér um kennt, væntanlega vegna þess að hann stakk upp á skipun hennar í ráðherraembætti, eins og hann hefði þá skapað hana og ætti eitthvað inni hjá henni.
Í umræðum um kynþokka hennar sagði Sigmundur Davíð:
„Bergþór Ólason, ég skal alveg viðurkenna, ég skil algjörlega hvaðan þú ert að koma.“ ...
„Er að nota kynþokkann og allt þetta“ ...
„Ég ætla að vona að konan mín … ég hefði alveg verið til í þetta dæmi. En það er alveg rétt hjá þér. Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“ ...
Annar sagði: „Þú getur riðið henni, skilurðu,“ og Sigmundur Davíð svaraði:
„Ég er mjög ánægður að heyra að þið séuð komnir að sameiginlegri niðurstöðu með þetta.“
Virði afsökunarbeiðni
Allir báðust þeir afsökunar, en aðeins þá sem þegar höfðu verið til umfjöllunar vegna ummæla þeirra. Einn þeirra baðst meira að segja afsökunar konu sem var ekki til umræðu þetta kvöld, með þeim fyrirvara að hann væri ekki viss hvort hún hefði komið til tals eða ekki. Enda skiptir engu máli hvort þeir voru að tala um Áslaugu eða Írisi, Ingu eða Lilju. Þeir voru að tala um konur. Allar konur.
Í stað þess að sýna auðmýkt og axla ábyrgð var afsökunarbeiðni Sigmundar Davíðs svo ómerkileg að eftir standa aðeins lygar og tilraun til réttlætingar. Það má líka velta því fyrir sér hvers virði afsökunarbeiðni er þegar menn hafa sýnt að þeim er ekkert heilagt, að þeir eru tilbúnir til að segja hvað sem er opinberlega til að styrkja stöðu sína, stilla sér upp í framvarðasveit jafnréttisbaráttunnar á opinberum vettvangi þegar þeir hafa undir niðri þessar meiningar, tala svona sín á milli þegar þeir halda að enginn heyri til?
Nú vitum við meira um hvaða mann þeir hafa að geyma.
Eyðileggingarstarfið á Alþingi
Við skiljum betur af hverju Sigmundur Davíð stofnaði mesta karlaflokk landsins, þar sem hlutfall karla í þingflokknum er 86%. Þegar svaraði gagnrýni á kynjahlutfallið sagði hann umræðuuna svo óvægna að konur treystu sér ekki til þátttöku í stjórnmálum, varpaði ábyrgðinni á fjölmiðla þegar hann hefði betur átt að líta inn á við.
Við áttum okkur líka betur á óþoli hans gagnvart ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hann sagði verri en sjálft efnahagshrunið. Af því að hún var kona og að mati þeirra sem þarna sátu virðast allar konur vera óhæfar og ómarktækar. „Þetta var mjög heiftúðug stjórnarandstaða, mjög óbilgjörn. Bæði Bjarni og svo Sigmundur Davíð,“ sagði Jóhanna í viðtali við Stundina. „Þeir voru að stoppa öll mál og stunduðu algjört eyðileggingarstarf á Alþingi. Ég hef aldrei séð annað eins, hvorki fyrr né seinna, hvernig þeir létu.“
„Þeir voru að stoppa öll mál og stunduðu algjört eyðileggingarstarf á Alþingi“
Af auðsýndu gildismati þeirra og viðhorfum virðist henni hafa verið refsað fyrir að vera kona við völd, því við vitum núna hvaða virðingu þeir bera fyrir konum. Vald hennar var stöðugt véfengt, hún átti að skila þeim lyklunum. Á meðan hún var við völd fékk hún að finna fyrir því, innan þings sem utan, fékk ítrekaðar hótanir, eggjum og slori var kastað að heimili hennar og sprengju komið fyrir við stjórnarráðið. Hún var sögð „réttdræp“, neyðarhnappi var komið fyrir á heimili hennar á tímabili og lögregluvakt var þar á tímabili. „Þetta var meira og minna sem þetta gekk á, alltaf annað slagið, þegar ég var forsætisráðherra.“
Mörkin færð til
Á endanum er þetta spurning um ábyrgð. Hversu langt er hægt að ganga án þess að þurfa að axla ábyrgð á gjörðum sínum?
Sigmundur Davíð segir nú að við getum ekki gert kröfu um að hann víki, vegna þess að hann hefði þá átt að gera það mörgum sinnum áður. Kannski var ástæða til að hann færi fyrr. Kannski er tímabært að þingmenn hlýði vilja þjóðarinnar, sem vill þetta fólk ekki áfram á Alþingi. Það má síðan heimfæra það yfir á aðra þingmenn sem hafa verið staðnir að óheiðarleika, leyndarhyggju og misbeitingu valds.
Þau voru sex sem sátu þarna saman á Klaustri, fimm karlar og ein kona. Þessir þingmenn tóku sjálfir ákvörðun um hvort og hvernig þeir öxluðu ábyrgð og völdu að gera það ekki. Það voru þeir sem ákváðu að reyna að færa mörkin til og rýmka svigrúm þess samþykkta í stað þess að viðurkenna alvarleika málsins. Það voru þeir sem tóku ákvörðun um að bregðast við með því að halda því fram að ranglætið felist ekki í orðum þeirra heldur að þau hafi verið opinberuð, reyna að sannfæra okkur um að það sé réttlætanlegt að uppnefna fatlað fólk og ljúga til um atvik, láta eins og allir tali svona, geti lent í þessu, þeir hafi ekkert brotið af sér. Jafnvel þótt flestir upplifi það sem brot gegn konu að smætta hana niður í kynferðislegt viðfang karla við völd, hlæja að ofbeldinu sem hún var beitt og saka hana að ósekju um nauðgun.
Konur sem saka menn að ósekju um nauðgun eru hiklaust sóttar til saka og fordæmdar af samfélaginu.
Konur sem saka menn réttilega um nauðgun eiga á hættu að vera sóttar til saka og fordæmdar.
Þeir láta sem það sé rangt að fordæma framferði þeirra. „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum,“ segja þeir. Það sé hræsni að láta sem þér hafi misboðið margra klukkutíma samtal sem einkenndist fyrst og fremst af kvenfyrirlitningu og mannhatri, hafir þú einhvern tímann talað óvarlega um annað fólk. En við getum ekki samþykkt þessi viðbrögð. Við getum ekki látið sem ekkert sé. Það að fella siðferðislega gildisdóma um einstök mál er nauðsynlegur liður í því að setja félagsleg mörk. Við verðum að setja mörk. Annars getum við ekki borið virðingu fyrir okkur sjálfum.
Niðurstaðan
En nú vitum við.
Við vitum, þegar þingmenn sem státa sig af jafnréttisbaráttunni afhjúpa slík viðhorf, af hverju jafnrétti hefur ekki verið náð í raun. Af hverju það hefur ekki tekist, þrátt fyrir áralanga baráttu, að leiðrétta kynbundinn launamun, útrýma misrétti og kynbundnu ofbeldi.
Athugasemdir