Útlendingastofnun hafnaði 332 af 467 umsóknum um alþjóðlega vernd sem teknar voru til efnismeðferðar í fyrra. Það er um 71% þeirra umsókna. Þorri umsókna var ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.
Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á Útlendingastofnun. Í fyrra bárust 1.303 umsóknir um alþjóðlega vernd, en 836 fengu ekki efnismeðferð þar sem þær voru dregnar til baka, umsækjandi fékk vernd í þriðja ríki eða Útlendingastofnun beitti Dyflinnarreglugerðinni svokölluðu. Í henni felst að umsækjanda er vísað til annars Schengen-ríkis þar sem mál hans er tekið fyrir.
Þannig var aðeins rúmur þriðjungur umsókna tekinn til efnismeðferðar í fyrra. Af þeim umsóknum var 84 aðilum veitt vernd. Alls 37 fengu svokallaða viðbótarvernd og 14 mannúðarleyfi. 332 umsóknum var synjað.
Þorri þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd undanfarin ár kemur frá Georgíu, Albaníu og Makedóníu. Í fyrra voru 10% umsækjenda frá Írak og 3% frá Sýrlandi.
Athugasemdir