Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir ummæli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um starfsfólk Alþingis vera ósmekklega, ómakleg og henni ekki til sóma.
Anna Kolbrún var ein þeirra þingmanna sem náðust á upptökur á Klaustri bar 20. nóvember að fara hörðum orðum um stjórnmálamenn, sér í lagi þá sem kvenkyns eru.
Í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í gær sagði Anna Kolbrún að sú menning sem umræðurnar á Klaustri bar hafi verið sprottnar upp úr hafi ekki aðeins orðið til vegna stjórnmálamanna, heldur líka starfsfólks Alþingis.
„Ég er að tala um stofnunina Alþingi vegna þess að starfsmennirnir, það eru allir mannlegir, þeir fara líka inn í þennan kúltúr þegar þeir fara þarna. Það er samt eitthvað þarna sem er óáþreifanlegt,“ sagði Anna Kolbrún.
Í gærkvöldi skrifaði Jón Steindór færslu á Facebook þar sem hann sagði ummæli Önnu Kolbrúnar um starfsfólk Alþingis ómakleg og henni ekki til sóma. „Ég held að varla finnist betri hópur af samviskusömu, kláru og hjálpsömu fólki sem gætir þess í hvívetna að vega hvorki að virðingu þings né þingmanna,“ skrifar hann.
Þingmenn taka undir gagnrýnina
Fleiri núverandi og fyrrverandi þingmenn taka undir orð Jóns Steindórs. „Ég hef ekkert nema gott um starfsfólk þingsins að segja,“ skrifar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. „Ég veit að þau eru öll að gera sitt besta og gera það svo sannarlega vel. Það eru örfá atriði sem mega betur fara en það er þá stjórnmálunum að kenna, ekki starfsfólki þingsins“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, tekur í sama streng. „Ég einmitt dáist daglega að því hvað starfsfólkið á endalausa þolinmæði til að umbera stressið og vitleysuna sem er stundum í kringum okkur,“ skrifar hann.
„Aðdróttanirnar að starfsfólki Alþingis eru forkastanlegar,“ skrifar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. „Starfsfólk Alþingis er einstaklega faglegt og þjónustar þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, af miklum metnaði og virðingu.“
Athugasemdir