B
jarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og flokksfélaga sinn, um mannkosti Gunnars Braga Sveinssonar á fundi sem þeir sátu með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins og þingmanni í stjórnarandstöðu, fyrir fáeinum vikum.
Þetta staðfesti Sigmundur Davíð í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld. Haft var eftir honum að Bjarni hefði setið fundinn til að bera vitni um kosti Gunnars Braga.
„Hann var ekki að sjá um greiðslu á einhverju loforði. Hann einfaldlega gaf þau skilaboð að Gunnar Bragi væri með mikilvæga reynslu og hann þekkti hann úr ríkisstjórninni og það ætti að virða það við hann, en ekki neitt annað,“ sagði Sigmundur.
Eins og Stundin, DV og Kvennablaðið greindu frá í síðustu viku liggur fyrir hljóðupptaka þar sem Gunnar Bragi og Sigmundur tala opinskátt um að Gunnar Bragi hafi skipað Geir H. Haarde sem sendiherra í von um að fá sjálfur bitling í utanríkisþjónustunni einhvern tímann seinna.
Fullyrðir Sigmundur Davíð á upptökunni að Bjarni Benediktsson hafi fallist á að ef Geir yrði sendiherra ætti Gunnar Bragi „inni hjá Sjálfstæðisflokknum“ og þeir hafi fundað með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, núverandi utanríkisráðherra, um hvernig mætti fylgja málinu eftir.
Af upptökunni má ráða að Bjarni hafi gefið Guðlaugi skilaboð um að vilji hans væri sá að Gunnar Bragi yrði skipaður sendiherra. Stundin hefur árangurslaust óskað eftir svörum frá Guðlaugi um þetta efni en hann ekki séð ástæðu til að svara þrátt fyrir að ráðuneytið hafi boðað svör í gærkvöldi.
Nú í kvöld staðfesti hins vegar Sigmundur Davíð að Bjarni hefði borið Gunnari Braga gott orð á fundinum, og að Bjarni hefði beinlínis setið fundinn til þess að „bera vitni um kosti Gunnars Braga“.
Eftir að fluttar voru fréttir byggðar á upptökunum hafa allir hlutaðeigandi neitað því að um gagnkvæma greiðasemi hafi verið að ræða, þ.e. að Gunnar Bragi hafi átt inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir það að hafa skipað Geir Haarde sem sendiherra.
Hins vegar bendir ekkert í frásögn þeirra Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs af sendiherrakapalnum á Klaustri til þess að þeir séu að fara með gamanmál eða báðir að skrökva.
Í 128. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi sem hann á ekki tilkall til í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skuli viðkomandi sæta sektum eða fangelsi allt að 6 árum. Samkvæmt 139. gr. sömu laga varðar það sektum eða fangelsi alltað 2 árum ef opinber starfsmaður misnotar stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings.
Í lögum um ráðherraábyrgð kemur fram að ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taki til ráðherra eftir því sem við getur átt. Ráðherraábyrgðarlögin leggja blátt bann við því að ráðherrar misbeiti stórlega valdi sínu, líka þótt ráðherra „hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín“.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, vakti máls á því í gær hvort Alþingi þyrfti ekki að skoða nýjar upplýsingar um skipun sendiherra með tilliti til ráðherraábyrgðarlaga og laga um landsdóm.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum í morgun að kalla þá Bjarna Benediktsson, Guðlaug Þór Þórðarson, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Braga Sveinsson á fund nefndarinnar vegna málsins.
Athugasemdir