Anna Kolbrún Árnadóttir var titluð þroskaþjálfi þegar hún sat í 9. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar árið 2007. Anna Kolbrún er hins vegar ekki þroskaþjálfi, líkt og komið hefur fram, meðal annars í umfjöllun Stundarinnar. Óheimilt er að starfa sem þroskaþjálfi hafi fólk ekki menntun til þess og heimild frá heilbrigðisyfirvöldum.
Anna Kolbrún er einn þeirra þingmanna sem hittust á Klaustri bar þann 20. nóvember síðastliðinn og létu gamminn geysa. Stundin, DV og Kvennablaðið hafa fjallað ítarlega um samskiptin sem náðust á hljóðupptöku.
Í dag hófst þingfundur á Alþingi með því að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, lýsti því að eftir skoðun á ævi- og starfsferilsskráningu Önnu Kolbrúnar á vef Alþingis að hún hefði gefið réttar upplýsingar um menntun sína og störf. Röksemdirnar sem Steingrímur lagði fram því til stuðnings voru þær að í æviágripi Önnu Kolbrúnar kæmi bara fram að hún hefði starfað sem þroskaþjálfi, ekki að hún hefði sagst vera það. Með öllu er óheimilt að sinna störfum þroskaþjálfa hafi fólk ekki til þess menntun. Þá má ekki titla sig þroskaþjálfa nema hafa hlotið til þess menntun, háskólanám í fjögur ár og starfsleyfi frá Landlæknisembættinu, enda er starfsheitið þroskaþjálfi lögverndað.
Athugasemdir