Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Finnlandi, segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, hyggðist skipa Geir H. Haarde í sendiherraembætti á sama tíma og sig. Að Gunnar Bragi hafi gert það sé Árna Þór með öllu óviðkomandi. Þá hafi ákvörðun sín um að sækjast eftir störfum í utanríkisþjónustunni byggst á menntun Árna Þórs og reynslu. „Það er sannfæring mín að sanngjarnast sé að meta fólk út frá störfum sínum, árangri og umsögnum samstarfsfólks. Því mati kvíði ég ekki.“
Gunnar Bragi kallaði Árna Þór „fávita“
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Árna Þórs, sem er viðbragð við yfirlýsingum Gunnars Braga sem heyra má á Klaustursupptökunum svokölluðu. Þar lýsir Gunnar Bragi því að hann hafi í utanríkisráðherratíð sinni árið 2014 gert Árna Þór að sendiherra til að draga athyglina frá umdeildri skipan Geirs í sendiherrastól á sama tíma. Gunnar Bragi fór mikinn í lýsingum sínum á þessu háttalagi og kallaði meðal annars Árna Þór „fávita“ og „senditík Steingríms [J. Sigfússonar]“. Sömuleiðis lýsti Gunnar Bragi því að hann hefði talið sig eiga inni hjá Sjálfstæðisflokknum vegna þessarar skipunar Geirs.
Árni Þór rekur í færslu sinni að forsagan að því hann hafi verið skipaður í embætti sendiherra megi rekja til þess að hann hafi í byrjun árs sýnt áhuga á að verða skipaður í stöðu eins af framkvæmdastjórum ÖSE sem þá var laus. „Athygli mín var vakin á þessari stöðu enda samræmdist menntun mín og reynsla hæfiskröfum, m.a. um þekkingu á utanríkis- og alþjóðamálum, reynslu af stjórnmálum og sérþekkingu um málefni Rússlands og austur-Evrópu, vel. Ég kannaði hjá utanríkisráðuneytinu hvort ég kæmi til álita og varð niðurstaðan sú að ég var tilnefndur í starfið fyrir atbeina ráðuneytisins.“
Það fór þó svo að Árni Þór var ekki valinn til starfans. Í framhaldinu segir Árni Þór að hann hafi lýst því við Gunnar Braga að hann hefði áhuga á að starfa að utanríkis- og alþjóðamálum. Hann hafi aldrei óskað eftir stuðningi síns flokks, Vinstri grænna, í ferlinu enda hafi hann talið að meta ætti einstaklinga út frá hæfni, þekkingu, reynslu og menntun. „Skipan mín sem sendiherra var ákvörðun ráðherra og í samræmi við lög um utanríkisþjónustuna. Þeirri skipun fylgdu engin skilyrði um einhvern greiða í framtíðinni.“
Segir skipan Geirs sér með öllu óviðkomandi
Árni segir að Gunnar Bragi hafi ekki nefnt við sig að hann hyggðist skipa Geir sem sendiherra. „Skömmu áður en frá skipuninni var gengið nefndi hann þó að tveir yrðu skipaðir úr röðum stjórnmála og væri ég annar þeirra. Nafn Geirs hafði komið fram í fjölmiðlum í þessu sambandi. Afstaða mín til þess að hverfa úr stjórnmálum og hefja störf að utanríkismálum byggðist hins vegar sem fyrr segir á þeim áhuga að nýta sem best menntun mína og reynslu. Af því leiðir að hvaða aðrir einstaklingar kynnu að fara til starfa í utanríkisráðuneytinu á svipuðum tíma hafði ekki áhrif á mig. Sá þáttur málsins er mér með öllu óviðkomandi.
Þegar ákvörðun um skipan mína lá fyrir greindi ég formanni VG frá því að ég myndi láta af þingmennsku og hefja störf í utanríkisráðuneytinu. Í framhaldinu greindi ég einnig þingflokki VG frá því. Ýmsir í mínum flokki gagnrýndu mig fyrir þá ákvörðun, það var gagnrýni sem ég hafði skilning á og tók nærri mér, en ég var engu að síður ósammála. Það er sannfæring mín að sanngjarnast sé að meta fólk út frá störfum sínum, árangri og umsögnum samstarfsfólks. Því mati kvíði ég ekki.“
Athugasemdir