A
nna Kolbrún Árnadóttir, ritari þingflokks Miðflokksins, sat fund forseta Alþingis og þingflokksformanna í morgun í fjarveru þeirra Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, formanns og varaformanns þingflokksins.
Þeir Gunnar Bragi og Bergþór hafa sem kunnugt er báðir vikið af þingi tímabundið eftir að hafa orðið uppvísir að því að tala með mikilli óvirðingu um samstarfsfólk sitt og aðra á Klaustri Bar 20. nóvember síðastliðinn. Anna Kolbrún var einnig þátttakandi í barferðinni umræddu. Fundarmenn á fundi þingflokksformanna lýsa veru Önnu Kolbrúnar á fundinum í morgun sem erfiðri, „erfitt fyrir alla, hana líka.“
Þingflokksformenn hittu forseta Alþingis til að ræða næstu skref og starfið framundan í þinginu eftir að upptökurnar af Klaustri bar voru opinberaðar. Samkvæmt heimildum Stundarinnar tókst ekki að klára að ræða þær breytingar sem óhjákæmilega verða á störfum Alþingis og munu þingflokksformenn hitta forseta aftur á morgun til að ræða hvernig staða mála mun hafa áhrif á störf þingsins, til að mynda á nefndarskipan.
Breytingar munu sem fyrr segir vera óhjákvæmilegar bæði vegna þess að Gunnar Bragi og Bergþór hafa tekið sér leyfi frá þingstörfum en ekki síður vegna þess að þeim Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni hefur verið vikið úr þingflokki Flokks fólksins. Bergþór er þannig formaður umhverfis og samgöngunefndar Alþingis og allt bendir til að finna verði nýjan formann. Gunnar Bragi er formaður Íslandsdeildar ÖSE en óljóst er hvort nýr formaður verði skipaður. Þá sitja þeir Karl Gauti og Ólafur í nefndum í krafti veru sinnar í Flokki fólksins og ljóst að breytingar verða gerðar þar á. Einnig stendur til að ræða hvort fleiri breytingar verði á störfum þingsins vegna leyniupptökunnar.
Forsætisnefnd Alþingis situr nú á fundi um Klausturupptökurnar og mun nefndin meðal annars ákveða hvort málinu verður vísað til siðanefndar Alþingis.
Athugasemdir