Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hringdi í Freyju Haraldsdóttur síðdegis í dag og kvað hana misskilja að hæðst hefði verið að henni á fundi hans með fimm öðrum þingmönnum Miðflokksins og Flokks fólksins. Þetta kemur fram í frásögn Freyju á Kjarnanum í kvöld.
Í samtalinu, sem tekið var upp, heyrist að Sigmundur Davíð segir tvo menn við borðið hafa sérstakan áhuga á tveimur konum. Önnur þeirra sé Freyja Haraldsdóttir. Þegar nafn hennar kemur fram heyrist skært hljóð sem líkist hljóði í sel, og segir Anna Kolbrún Árnadóttir, ítrekað orðið „eyja“, þegar nafn Freyju kemur fram.
„Díses kræst maður,“ segir Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, eftir að konurnar tvær eru nefndar. „Þetta eru konur sem sameina þessa tvo menn,“ segir Sigmundur þá.
En í símtalinu við Freyju sagði Sigmundur þetta allt misskilning. Hann segir að „eyja“ sé tilvísun í vegg í húsnæði Miðflokksins, sem hafi verið fjarlægður til að bæta aðgengi fatlaðra. Því hafi verið um að ræða jákvætt samhengi, þar sem það tengdist aðgengisumbótum.
„Hann útskýrði að selahljóðin hefðu líklega verið stóll að hreyfast og að uppnefnið Freyja Eyja hefði orðið til þegar fjarlægja þurfti vegg (sem hann kallaði eyju) af skrifstofu Miðflokksins vegna aðgengis. Veggurinn hefði þá fengið þetta viðurnefni.“
Þá sagði Sigmundur í símtalinu við Freyju, að skoðanir hennar færu einfaldlega mjög í taugarnar á Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni, „og fleirum“.
„Að líkja mér við dýr og uppnefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjölfar aðgengisbreytinga er augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggja á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna,“ skrifar Freyja á Kjarnanum.
Freyja segir að hún vildi að hún hefði sagt meira við Sigmund en hún gerði í símtalinu. „Ég get varla lýst vanmætti mínum og vanlíðan meðan á símtalinu stóð.“ Hún biðst undan frekari útskýringum hans.
„Ég frábið mér frekari símtöl þar sem ófatlaður karlmaður í valdastöðu talar niður til mín og reynir að útskýra fyrir mér hvað eru fötlunarfordómar og hvað ekki. Eina eðlilega símtalið í stöðunni væri að biðjast einlæglega afsökunar, án nokkurra útskýringa eða málalenginga, og segjast í ljósi gjörða sinna ætla að axla ábyrgð á ofbeldinu sem við vorum beittar og segja af sér,“ skrifar Freyja í pistli sínum á Kjarnanum.
Athugasemdir