Þingmenn fjölmenntu í þingveislu á Bessastöðum, sem haldin er árlega í tilefni af fullveldisdeginum, í gær. Andrúmsloftið mun hafa verið litað af uppljóstrunum síðustu daga en tveir þingmenn Miðflokksins, þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, létu ekki sjá sig í veislunni. Vísir og Eyjan hafa greint frá því í morgun að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hafi komið þeim skilaboðum á framfæri að beiðni Guðna Th. Jóhannssonar, forseta, að nærveru þeirra væri ekki óskað
Forseti hóf veisluhöld á því að ræða fílinn í herberginu, þ.e. mál málanna og hin ógeðfelldu ummæli sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla á Klaustur bar þann 20. nóvember, og Stundin hefur fjallað um með ítarlegum hætti. Þingmenn sem Stundin hefur rætt við segja að þetta hafi hjálpað til við að að gera erfiða samkomu bærilegri, en stemningin var eins og gefur að skilja ekki sú besta.
Sigmundur Davíð Guðmundsson, þingmaður Miðflokksins, og einn þeirra sem lét óviðurkvæmileg orð falla á Klaustri bar, lét sig ekki vanta þó að félagar hans hafi ekki mætt, en hann ku hafa verið „hress og sprækur líkt og hann væri hrókur alls fagnaðar,“ eins og einn viðmælandi komst að orði. „En það var hann ekki,“ segir sá hinn sami.
Þingheimur lék á reiðiskjálfi í gær og fundað var á öllum hæðum Alþingis vegna málsins. Hegðun og tungutak þingmannanna þykir ekki til þess fallið að auka veg og virðingu Alþingis sem hefur átt við töluverðan ímyndarvanda að stríða síðustu ár. Þingveislan, sem haldin var í skugga uppljóstrananna, fór fram í vindasömu veðri eins og meðfylgjandi myndir sína.
Athugasemdir