Skuldabréfaeigendur WOW air, sem tóku þátt í útboði félagsins í september fyrir jafnvirði 8,5 milljarða króna, gætu tapað stórfé verði kaup Icelandair á félaginu að veruleika. Krafa er uppi um að þeir taki á sig tugprósenta afskriftir.
Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag. Til stóð að Icelandair mundi standa undir 90% af heildarupphæð bréfanna og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air og eini hluthafi félagsins, mundi greiða afganginn með því hlutfé sem hann kynni að eignast í Icelandair við sameininguna. Nú hefur Icelandair krafist þess að greiðslan verði lægri en 90% og óvíst hvort Skúli geti bætt upp mismuninn. Skúli mun eignast 1,8 til 6,6 prósent hlut í Icelandair þegar kaupin ganga í gegn.
37% þeirra sem tóku þátt í útboðinu eru íslenskir fjárfestar sem keyptu fyrir rúma þrjá milljarða króna. Skúli fjárfesti sjálfur fyrir jafnvirði 770 milljóna króna.
Tillögur um hlutafjáraukningu Icelandair liggja fyrir hluthafafundi Icelandair á föstudag og hefur Markaðurinn eftir Sveini Þórarinssyni hjá hagfræðideild Landsbankans að honum verði mögulega frestað þar sem hluthafar hafi litlar upplýsingar um stöðu WOW air.
Athugasemdir