Ég er með sorg í hjarta yfir því að það skuli vera hægt að, í fyrsta lagi hugsa svona og í öðru lagi að tala svona,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, varaformaður Flokks fólksins, í samtali við Stundina. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, kallar Ingu Sæland, formann Flokks fólksins „húrrandi klikkaða kuntu“ á hljóðupptöku sem Stundin hefur undir höndum.
„Hún er fokking tryllt,“ sagði Bergþór við Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson, þingmenn Flokks fólksins, í viðurvist flokksfélaga sinna, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar á Klaustur bar 20. nóvember síðastliðinn.
Guðmundur Ingi segir að þarna hafi greinilega eitthvað verið „í gangi sem er mjög undarlegt og þarfnast skoðunar við.“ Hann segir ummælin hreint „skelfileg“ og er ekki síður brugðið yfir því að samflokksmenn Ingu Sæland í Flokki fólksins, þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, hafi ekki tekið til varna fyrir Ingu þegar þingmaður Miðflokksins talaði með þessum hætti um hana.
„Það er líka bara skelfilegt að aðrir skuli ekki hafa bent honum á að þetta eru ekki viðeigandi ummæli hvar sem er. Þetta eru bara óviðeigandi ummæli algjörlega.“ Á þessum sama fundi sagði annar þingmanna Flokks fólksins, að Inga Sæland gæti ekki stjórnað.
„Hún getur þetta ekki“
„Ólafur er örugglega sammála mér að Inga Sæland getur þetta ekki,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, á sama fundi með Ólafi Ísleifssyni flokksfélaga sínum og fjórum þingmönnum Miðflokksins. „Hún getur þetta ekki. Hún getur talað um þetta, hún getur grenjað um þetta, en hún getur ekki stjórnað,“ sagði Karl.
„Þetta er auðvitað eitthvað sem þeir þurfa að svara fyrir, þeir eru á staðnum, þeir eru með þeim, og þetta eru hlutir sem þeir verða bara að svara fyrir á næsta þingflokksfundi eða stjórnarfundi eða hvernig sem það verður gert,“ segir Guðmundur Ingi sem ítrekar að hann beri sjálfur fullt traust til formanns flokksins.
Aðspurður hvort hann hafi orðið var við klofning innan flokksins á síðustu misserum eða hvort þingmennirnir tveir hafi verið í einhverju samkurli við þingmenn Miðflokksins segir hann: „Veistu, ég ætla ekki að tjá mig um þetta núna. Nú þarf ég að fara og velta fyrir mér hvernig hlutirnir hafa verið undanfarið en síðan mun ég svara fljótlega, eða um leið og ég er búinn að kynna mér málið til hlýtar.“
Athugasemdir