„É
g var að hugsa hvort ég ætti að sleppa þessu, en það er best að taka sénsinn, þó að mamma hafi ráðlagt mér að fara ekki,“ segir Högni Egilsson tónlistarmaður. Hann var staddur á flugvellinum í Varsjá að bíða eftir að ákvörðun verði tekin um flug hans til Kíev þegar blaðamaður Stundarinnar náði tali af honum í dag.
Úkraínsk stjórnvöld skoða í dag hvort setja eigi á herlög í landinu eftir að Rússar hertóku þrjú úkraínsk skip skammt frá Krímskaga. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagið NATO hafa boðað til neyðarfunda vegna málsins. Mikil spenna hefur verið í samskiptum Rússa og Úkraínumanna undanfarin ár eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.
Högni á að spila á tónleikum í Kíev á föstudagskvöld. Hann segir að fluginu sínu hafi þegar verið seinkað án skýringa, auk þess sem hætt hafi verið við flug til Úkraínu síðar um kvöldið. „Ég hef bæði verið í Kíev og Donetsk áður, en þetta er í fyrsta sinn sem ég fer einn,“ segir Högni.
Hann segir allt utanumhald vegna tónleikana vera afar vandað og að samskipti við tónleikahaldarann séu góð. „Ég hringdi í hann og hann sagðist ekki hafa áhyggjur af þessu, en ef það yrðu herlög sett á þá yrði útgöngubann. Þannig að hann þyrfti að hafa tónleikana fyrr um kvöldið.“
Á sunnudag beittu Rússar vopnum sínum gegn skipunum þremur sem sigldu undan strönd Krímskaga. Segja Rússar að skipin hafi farið inn á sitt hafsvæði, en úkraínsk stjórnvöld segja rússneskt skip hafa siglt á eitt þeirra í því skyni að ógna þeim.
Í Kíev mun Högni flytja nýlega tónlist eftir sig, Strengjakvartett no.1. „Hún er svo friðsæl að vonandi á hún erindi,“ segir Högni.
Athugasemdir