Breytingatillaga meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, sem kvað á um að ríkissjóði yrði heimilað að lána Íslandspósti 1,5 milljarða króna, var dregin til baka við aðra umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs á þingi í gærkvöldi. Fyrirtækið hafði þegar fengið vilyrði fyrir láni upp á hálfan millljarð króna og átti að auka við þá upphæð, til að mæta lausafjárvanda þess.
Stundin hefur greint ítarlega frá rekstrarvanda Íslandspósts síðustu vikur. Í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins sem birt var í lok sumars kom fram að Íslandspóstur hefði tapað 161,2 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs. Þá væri áætlað að tekjur fyrirtækisins myndu dragast saman um allt að 400 milljónir króna á árinu vegna fækkunnar bréfasendinga.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Pál Magnússon nefndarmann í fjárlaganefnd sem lýsir því að meirihluti nefndarinnar hafi tekið þá ákvörðun að draga breytingartillögu til baka og skoða málið betur. „Það er til skoðunar hvort einhver frekari skilyrði verði sett fyrir þessari heimild til lánveitingar. Þá kæmi breytt breytingartillaga inn á milli annarrar og þriðju umræðu. Nefndin vildi skoða málið betur og kalla eftir frekari skýringum áður en þessi heimild yrði veitt.“
Athugasemdir