Síðasta fimmtudag birti DV á vefsvæði sínu pistil eftir Hafdísi Björg Kristjánsdóttur þar sem hún veltir vöngum um hvort jafnréttisbarátta kvenna hafi orsakartengsl við sjálfsvíg karla. Hann er með þeim óábyrgustu og smekklaustustu skrifum sem ég hef lesið, þar sem ljót og órökstudd ásökun er sett fram sem spurning byggð á umhyggju.
Það að Hafdís viðurkenni í hálfkæringi að þetta séu bara vangaveltur dugar skammt þar sem fólk flykkist að megininntakinu af því að þar er femínismi presenteraður sem heppilegur blóraböggull. Ef hugmyndirnar hennar er ennþá á vangaveltustiginu eins og hún sjálf segir, af hverju er hún þá að blasta þeim hálfkláruðum inn á internetið fyrir alla að lesa, vitandi að fjölmargir áhangendur sínir munu taka gagnrýnislaust undir? Ekki svara, mér er skítsama af hverju. Hún á að vita betur.
Þeir sem þekkja mig vita að ég hef glímt við andleg veikindi frá barnæsku. Hver sem sæi mig sem barn í leikskóla hefði getað giskað á í hvað stefndi. Ég var skrítinn. Ég er ennþá skrítinn en ég hef sætt mig við það. Það er kúl og gott að vera skrítinn. Ég á góða daga og slæma. Líka vikur og mánuði og ár. Fyrir þrítugsafmælið mitt fór ég að hugsa hvort ég gæti náð heilum góðum áratug (ef ég hrasa nokkrum sinnum er það allt í lagi). Gef skýrslu árið 2028.
Mér finnst erfitt að viðurkenna það, meira að segja í nafnlausum könnunum, en á mínum erfiðustu stundum hef ég pælt í hvort það væri ekki auðveldara fyrir fólkið mitt ef ég dæi. Stundum samt bara ef ég hyrfi. Það er jú helvítis vesen að þurfa að umgangast daglega dauðyfli sem vill ekki þetta og nennir ekki hinu, tuðar um fréttir, forðast fjölskyldu og vini, sefur bara einhvern tíma dags og horfir þess utan á sjónvarpsþætti og hrollvekjur. Áhyggjur eru þung byrði og ég öfunda fjölskyldu mína og vini ekki af þeim. Sjálfsvíg eru erfið en eftir það þarf bara að grafa mig og svo þarf ekkert að pæla í mér meira. Nema svona er það ekki. Sorg er mikið þyngri byrði en áhyggjur og jafnvel erfiðasta barn lyftir ástvinum sínum upp hærra en áhyggjur af því vega þá niður.
M.ö.o. er ég einn af ungu karlmönnunum sem Útmeða! átaki Rauða krossins er ætlað að ná til. Í því sem ég ritaði þessa setningu rann upp fyrir mér að þeir áttu m.a. við mig. Það er frekar furðuleg tilfinning að átta mig á að hjálp stendur til boða, beint fyrir framan nefið á mér, og mér datt lengi vel ekki í hug að það væri ég sem verið var að tala um. Aðrir ungir karlmenn kannast kannski við sömu tilfinningu. Það er allt í lagi hjá þeim og hjálp er fyrir fólk sem er „í alvörunni“ veikt. Þetta er ein birtingarmynd feðraveldis, að karlar séu almennt ekki andlega veikir, sem veldur miklum skaða og sorg. Ég ítreka: Strákar og karlar DEYJA af því að hugmyndin um karlmennsku sem bælingu tilfinninga og veikleika er viðtekin. Það voru ekki femínistar sem gerðu þetta.
„Það sýður hins vegar á mér að ég og
aðrir í svipaðri stöðu séum notaðir sem
skotfæri í þessari árás á fólkið í kringum
mig sem hefur reynst mér hvað best“
Allar lexíur sem ég hef lært, um að taka sjálfan mig í sátt, vera eins og ég er, tjá það sem býr í mér og að ég sé mikils virði, lærði ég af femínistum sem ég hef kynnst. Konurnar og stelpurnar í lífi mínu hafa sýnt mér ótrúlega hlýju, skilning og þolinmæði. Karlar svosem líka en einstaka durtur sem skilur ekki af hverju ég þegi ekki bara og vinn meira skemmir tölfræðina þeim megin. Sorrí boys.
Það skýtur því skökku við fyrir mér að sjá (lítt úthugsaða) ásökun um að femínistar séu að reyna að stjórna sálarlífi karla, enda engan veginn í samræmi við reynslu mína. Þvert á móti áttaði ég mig á með hjálp femínista að ég væri bara merkilega vel heppnað gallað eintak, ófullkominn og samt þess virði að þykja vænt um. Það sýður hins vegar á mér að ég og aðrir í svipaðri stöðu séum notaðir sem skotfæri í þessari árás á fólkið í kringum mig sem hefur reynst mér hvað best, sumt án þess þó að þekkja mig nokkuð. Að setja jafnréttisbaráttu kvenna upp gegnt sjálfsvígum karla er óvinveitt aðgerð gegn báðum hópum. Ég get aðeins talað fyrir sjálfan mig, en sem andlega veikur ungur karlmaður þarf ég ekki á slíkri hjálp að halda og afþakka hana pent.
Athugasemdir