Margir kristnir Íslendingar álíta kristni og kirkju sjálfsagða hluti. Þeir líta á trú sína sem einkamál og ræða hana ekki opinberlega, ekki frekar en fjölskyldumál. En reyndar er kristnin ekki lengur sjálfgefin á Íslandi. Ósérgreind eingyðistrú mótuð af kristni og svonefnd siðkristni eru líklega almennustu trúarstraumar Íslendinga um þessar mundir. Og margra annarra strauma gætir í samtímanum.
Nú er kristni og kirkju kennt um mistök og misgerðir einstakra manna. Og það er sótt að kristninni. Þá má svo sem minnast þess að lærisveinar Krists töldu það fyrst markleysu og hégómaþvaður þegar konurnar sögðu þeim frá upprisunni. Og kristnin var í byrjun álitin heimska og hneyksli. Frá þessu er skýrt í Nýja testamentinu.
Kristnin er arfleifð. Kristnin er akkeri og áttaviti í lífinu. Kristin trú er trúnaðartraust en ekki fullyrðing. Kristinn siður er undirstaða samfélags. Það er lífsnauðsyn að trúa á Guð. En það er ekki síður mikilvægt að við lifum þannig að Guð hafi trú á okkur.
Ævin kennir að maðurinn er ekki vaxinn upp úr trúarþörf
Á ungum aldri hættir okkur til að álíta að veruleikinn liggi allur í augum uppi við nákvæma könnun. Okkur finnst þá að maðurinn með skynsemi sinni geti skilið allt og ráðið öllum málum vel til lykta. Þá þykjumst við vita að vitsmunir, skynsemi og rökhyggja mannsins séu óbrigðul og maðurinn hafi full tök á lífi sínu til góðs þegar allt kemur til alls. Í samræmi við þetta finnst mörgum eiginlega að maðurinn sé vaxinn upp úr trúarþörf, og sumum finnst kirkjan þaggandi valdastofnun og kristnin nöldur, vesen og væmni.
„Það er margt sem við hvorki skiljum né ráðum við eða ráðum yfir.“
Ævin kennir að þetta stenst ekki. Það er margt sem við hvorki skiljum né ráðum við eða ráðum yfir. Þetta á bæði við um veruleikann umhverfis, um annað fólk og um okkur sjálf hvert um sig. Margvísleg og misgóð öfl verka í okkur og verka á okkur og við gerum okkur aðeins óljósa grein fyrir sumum þeirra. Tilveran er miklu flóknari en forðum virtist. Við skýlum okkur við ýmis áhugamál og hávaða, en samt finna mörg okkar ugg innra með sér. Sem dæmi fylgjum við látnum til grafar og spyrjum hvað verður eftir jarðlífsdauðann.
Meðal þessara áhrifa sem við mætum er sterkasta aflið elskuríkur sköpunarmáttur og jafnvægisafl, máttarvald sem er kærleikur og fyrirgefning, líkn og samúð, huggun og hjálp. Hann birtist ekki frammi í stofu, úti á götu eða í sjónvarpinu, heldur innra með hverju okkar ef við opnum hugskotið fyrir Honum. Það er skynjun en ekki skilningur. Þessi máttur er ekki heimspekileg formúla heldur lifandi Guð sem svarar okkur þegar við leitum til hans í einlægni. En ævinlega þurfum við þó að bíða og hlusta grannt eftir svarinu.
Við mætum ýmsum leyndardómum. Sjálf meðvitund mannsins er leyndardómur, og hver skilur hjartað í sjálfri eða sjálfum sér? Og það er líka leyndardómur hvernig við getum nálgast Drottin allsherjar. Lífshætta eða sálarháski hafa vísað mörgum veg, en sérhver þarf sína leið. Og menn fylgja ýmsum vísbendingum. Páll postuli talaði um „óþekktan“ Guð sem hefur opinberað sig og vill að þjóðirnar „þreifuðu sig til Hans og fyndu Hann“.
Trúin er leit og þrá
Í Biblíunni finnum við að Jesús Kristur er þessi máttur sem birtist sem maður á sögulegum vettvangi. Ummæli hans og athafnir eru opinberun. Sjálfsfórn hans er úrlausn og frelsun. Upprisa hans er óskiljanlegur atburður meðal lærisveinanna og vinahópsins sem voru alveg óundirbúin, - óútskýrð lifuð staðreynd sem umbylti strax lífi þeirra og annarra æ síðan.
Trúin er leit og þrá. Páll postuli talaði um ráðgátu lífsins og að þekking okkar „er í molum“. Tilveran virðist mótsagnakennd, þverstæðukennd og óskiljanleg. Margir skynja tóm og óttast dauðann. En náð Guðs getur fyllt hugskotið hlýjum geisla og von. Það verður ekki einsemd, rótleysi eða upplausn heldur opinn faðmur. Það getur orðið lífsfylling og markvissa úr óreiðu og tómi. Einsemd, vonleysi og sinnuleysi víkja en lífið fær hlýja nánd, merkingu og tilgang. Kristnin er fyrirheit um líf óháð jörð, rúmi og tíma, og kristnin er vongleði.
Guð hefur ekki gefið loforð um þjáningalaust eða fyrirhafnarlaust líf. En hann hefur heitið að ganga með okkur í öllum vanda og þrautum og vera með okkur allt til enda veraldarinnar. Himnaríki, eilíft líf, er tilveruvídd í nánd Guðs óháð jörð, rúmi og tíma.
Kristnin kallar á dygð en fordæmir synd. Kristnin krefur okkur um viljaákvörðun, að við leitumst við að lifa samkvæmt boði Drottins. Allar aðrar ákvarðanir og athafnir reynast brigðular og geðþóttakenndar, eins og sagan staðfestir um allar mannverur.
Siðaboð kristninnar eru sannfærandi og fögur, en erfið hverju og einu okkar. Við föllum öll oft á reynsluprófum lífsins. Við þurfum kærleiksboðið, gullnu regluna, sæluboðin, önnur ummæli og dæmisögur Krists, boðorðin, Biblíuna, bænir og kirkjusamfélag.
Kristnin ein grunnfrosenda íslenskrar þjóðmenningar
Kristnin er ekki einvörðungu trú heldur líka siður. Hún mótar samfélög. Hún boðar réttlæti og frið, líkn og kærleika meðal manna. Hún boðar jöfnuð og vernd lítilmagna og jaðarsettra, - og við erum öll margsek um vanrækslu. Hún er baráttuafl í margþættum heimi grimmdar, óréttlætis og átaka. Margir eru siðkristnir, fást lítið um trú en viðurkenna kristinn sið. Jesús verður þeim lausnari þegar annað þrýtur.
Kristnin er ein grunnforsenda íslenskrar þjóðmenningar, bókmennta og þjóðlífs, laga og samfélagsskipunar. Íslensk kristni hefur lengi að mestu verið hófsemi og siðað hversdagslíf en ekki umturnun eða öfgar. Kristnin segir að andi Guðs búi í manninum og er þannig róttæk mannúðar- og manngildishyggja. Kristnin er lífsstefna mannsins og líknarstefna mennskunnar.
Athugasemdir