Arðgreiðslur fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu jukust um 26% á milli áranna 2016 og 2017. Fyrirtækin sem um ræðir greiddu eigendum sínum 143 milljarða króna í arð árið 2017. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag.
Viðskiptahagkerfið er hugtak sem nær yfir allan fyrirtækjarekstur á Íslandi fyrir utan lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingastarfsemi og opinbera starfsemi. 39.000 fyrirtæki eru í þessum hópi og starfa 124 þúsund launþegar hjá þeim samkvæmt flokkun Hagstofunnar.
Mest aukning arðgreiðslna var í heildverslun, þar sem þær hækkuðu um 66% á milli ára, og í byggingariðnaði, þar sem hækkunin var 58%. Fyrirtæki í viðskiptahagkerfinu greiddu eigendum sínum 113 milljarða króna í arð árið 2016, en 143 milljarða árið 2017.
Þá kemur fram að eigið fé fyrirtækjanna hafi hækkað um 6% á milli ára, úr 2.812 milljörðum króna árið 2016 í 2.993 milljarða árið 2017. Mesta hækkun eigin fjár var 30% í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, en eigið fé hækkaði um 10% í greinum ferðaþjónustu.
Athugasemdir