Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Pyntaður með lútuleik

Í til­efni af morð­inu á Jamal Khashoggi seg­ir Ill­ugi Jök­uls­son frá upp­hafi Sádi-Ar­ab­íu og hvernig trú­in og ver­ald­legt vald héld­ust þar í hend­ur frá upp­hafi.

Pyntaður með lútuleik
Abdulaziz bin Sád lést 1953, 78 ára gamall Þá var orðið ljóst að gífurlegar olíulindir leyndust í ríki hans, flestar upp af ströndum Persaflóans. Vestræn ríki, ekki síst Bandaríkin, vildu tryggja sér aðgang að olíunni og studdu því af alefli ríkið sem kóngur hafði af mikilli hógværð nefnt eftir sjálfum sér. Þau létu sig því einu gilda þótt ríkið væri í viðjum afturhaldssamrar trúar Wahhabíta. Abdulaziz eignaðist 100 börn, þar af 45 syni, og komust 36 þeirra til fullorðinsára. Mynd: Wikipedia

Arabíuskaginn er í rauninni nærri samfelld eyðimörk, nema strandlengjan og sums staðar töluverð svæði upp af henni. Vinjar þar sem vatn sprettur upp eru á stöku stað, nógu víða til að viðhalda byggð á skaganum, ekki bara á strandsvæðunum, heldur líka inni í eyðimörkinni – þar óx úr sandöldunum varla stingandi strá svo séð yrði, en hins vegar harðgert fólk sem þurfti að þola mikinn hita á daginn, mikinn kulda á nóttunni, sandstorma þar sem smágerður sandurinn smaug alls staðar þótt fólk reyndi að hafa slæður fyrir andliti, og fólk þoldi hungur og vatnsleysi, þegar svo bar undir – fólk þolir ýmislegt, eins og við vitum – svo eru alltaf einhverjir töfrar við lífið alls staðar, en enginn lifði í vellystingum praktuglega í sandöldunum, fólk hafði í sig og á þegar best lét, eyðimerkurlubbar sögðu þeir sem bjuggu betur annars staðar, frumstætt sveitafólk týnt í öllum þessum sandi. 

Ófrjósamar sandöldur

Skaginn var alltaf afskekktur og úr leið, þegar menningarríki tóku að spretta upp fyrir norðan, í Mið-Austurlöndum, Persíu, Mesópótamíu eða Írak, Sýrlandi og Egiftalandi, svo fóru Rómverjar líka að gera sig gildandi þar um slóðir, fyrst hið eiginlega Rómaveldi og síðan framhald þess sem við köllum nú Býsans-ríkið.

Þarna var grillað og grætt, glímt og grafið, í langan tíma en suður á Arabíuskaga gerðist harla fátt sem komst í frásögur utan skagans: Ófrjósamar sandöldurnar kveiktu ekki girnd í augum innrásarherja og svæðið var látið í friði. Í byrjun sjöundu aldar breyttist það, verslunarleiðum hafði nýlega verið komið yfir eyðimörkina til að sneiða hjá stríðssvæðum Rómarmanna og Persa sem einlægt voru að berjast um Sýrland hið gamla; með kaupmönnum kom aukinn þróttur í mannlífið á skaganum, soldill peningur, dálítið af nýjum hugmyndum og stríðsmönnum eyðimerkurinnar svall móður þegar þeir uppgötvuðu að þeir höfðu í fullu tré við hvern sem var, þar sem þeir gættu kaupmannalestanna á sínum arabísku fákum, nú, eða rændu þær sömu lestir. 

Þeir uppgötvuðu að þeir höfðu í fullu tré við hvern sem var

Kaupmaður gerist spámaður

Á skaganum höfðu alltaf verið þó nokkrir ættbálkar sem elduðu yfirleitt grátt silfur um þau stopulu gæði sem þarna var að finna, en nú gerðist það að þeir sameinuðust og einhvern veginn kviknaði sú hugmynd að fara í herferð norður, reyna sig gegn Býsans og Persíu sem eina ferðina enn voru í blóði drifnu stríði og hér um bil að ganga hvort af öðru dauðu.

Hin klassíska söguskoðun hermir að það hafi verið kaupmaður á vesturhluta Arabíuskagans sem kom fram á sjónarsviðið sem spámaður guðs, eða Allah, og eftir að hafa komið fótum undir nýja trú í borgunum Mekka og Medína, hafi spámaðurinn Múhameð að vísu dáið en arftakar hans, kalífarnir svonefndu, hafi innblásnir af honum og trúnni hafið herferðina í norður, út af skaganum. 

Komið að Aröbum?

Það má líka vera að það hafi einfaldlega loksins verið kominn tími að Aröbunum á skaganum, nú þegar Býsans og Persía voru í bili komin nærri að fótum fram, en hvað sem olli: arabísku gæðingarnir báru hina harðlyndu stríðsmenn norður og enginn fékk þá staðist, öll ríkin í norðri hrundu, herjum þeirra var sópað burt undan hinum óstöðvandi eyðimerkurvindi kalífanna úr suðri, Býsans-ríkið hélt að vísu velli en varð að hörfa út á Anatólíu, missti bæði Egiftaland og Sýrland, ekki svipur hjá sjón hið gamla austur-rómverska ríki.

Og Arabar, þessir sveitalubbar, eins og íbúar sjálfskipaðra menningarríkja í norðri höfðu kallað þá, höfðu á skömmum tíma og alveg óvænt lagt undir sig nærri allan hinn kunna heim.   

Stórríkið klofnar

Arabísku þjóðflokkarnir náðu sem sagt völdum um öll Mið-Austurlönd, á hinum fornu valdasvæðum bæði Persaveldis og Rómar eða Býsans. Hinar gömlu gamlastéttir Egiftalands, Sýrlands, Mesópótamíu og Persíu sáu fljótt hag sínum best borgið með því að ganga til liðs við hina nýju valdhafa, játuðust undir trú þeirra og tóku upp menningu þeirra og samþættuðu sinni eigin. Þótt vestræn söguskoðun líti gjarnan svo á að í þúsund ár hafi staðið í Mið-Austurlöndum massíft og einsleitt ríki múslima sem hataðist við hina kristnu Evrópu, þá var raunin svo að ótrúlega fljótt klofnaði hið mikla stórríki kalífanna upp í meira og minna sömu gömlu valdakjarnana og áður höfðu keppt um völdin í Mið-Austurlöndum í þúsundir ára. 

Arabía verður aftur útkjálki

Þungamiðjan í múslimaveldinu færðist nánast strax frá Arabíuskaga og til hinna nýju svæða í norðri og brátt varð skaginn sjálfur nákvæmlega sami útkjálkinn og verið hafði fyrir daga Múhameðs og arftaka hans. Bitist var um auð og völd milli Persíu og Mesópótamíu og Egiftalands nákvæmlega eins og fyrr á tíð, þar sem heimamenn töluðu nú allir reiprennandi arabísku og kölluðu sig Araba, hin nýja menning blómstraði, kvæði voru samansett og stjörnur skoðaðar, reikningsdæmi reiknuð og lagt út af Kóraninum á ýmsa vegu, en á sandöldum Arabíuskagans hljóðnuðu heróp stríðsmannanna sem fyrrum höfðu lagt undir sig heiminn, verslunarleiðirnar færðust burt af skaganum, ennþá óx ekki stingandi strá úti á öldunum. 

Fátt fært í annála

Mekka var vissulega helgasti staður íslams og Medínu þekktu allir múslimar en þessar borgir höfðu nú fyrst og fremst trúarlegt og táknrænt gildi, veraldlegt vald þeirra var ekkert, eftir að hersveitir Abú Bakr og Ómars og Ósmans hurfu í rykmekki út við sjóndeildarhring þeirra á sjöundu öld. Tíðindaleysi lagðist yfir Arabíuskaga, samheldnin rofnaði, fólk fór aftur að skiptast upp í ættbálka sem elduðu grátt silfur en voru þó hver öðrum líkir. Að nafninu til voru Arabar á skaganum oftast undirsátar soldána hinna svonefndu Mamlúka í Egiftalandi þegar leið að lokum miðalda en í reynd létu Egiftar þó svæðið mestanpart afskiptalaust. Sjeikar og emírar voru yfir hverjum ættbálki og tóku sumir þátt í siglingum og verslun á Rauðahafi, Indlandshafi og Persaflóa, aðrir sinntu um pílagrímana sem streymdu til Mekku, annars var fátt í annála fært öldum saman. 

Tyrkir koma úr norðri

Í byrjun 16. aldar varð breyting á og kom úr norðri. Í tæpar tvær aldir hafði tyrkneskt ríki á jarðri Býsans-veldisins verið að naga af því sífellt stærri sneiðar, uns Býsans-ríkið hvarf með öllu en Tyrkirnir, Ottómanar svokallaðir, hirtu lönd þess á Balkanskaga og í Litlu-Asíu sem þaðan í frá heitir Tyrkland.

Fyrstu átök Ottómana og Mamlúka um yfirráð yfir bæði hinum helgu borgum Mekku og Medínu og svo kryddversluninni til Austur-Indía höfðu endað með pattstöðu en 1516 birtist öflugur her Tyrkjasoldánsins Selíms I á landamærum Egiftalands. Selím hafði þegar hrakið Persa frá Mesópótamíu og náði nú á tveimur árum að gersigra Mamlúka svo þeir voru úr sögunni. Þar með höfðu Ottómanar náð yfirráðum yfir Mekku og Medínu og strönd Rauða hafsins og töldust því vera herrar Arabíuskagans. 

Sama tóbakið?

Af því Ottómanar voru múslimar hneigjumst við á Vesturlöndum til að líta á þá sem nánast sama tóbakið og Mamlúka og Araba og aðra sem ráðið höfðu og hafst við á skaganum, en sannleikurinn er þó auðvitað sá að íbúar skagans litu á Ottómana sem útlenska innrásarmenn og ekkert annað. Inni í eyðimörkinni vildu menn sem minnst með Tyrki hafa og strandhéraðinu Jemen réðu hin makráðu soldánar Ottómana í Istanbúl ekki nema stundum og Óman alls ekki.

Leið nú enn og beið og hver kynslóð tók við af annarri.

Um miðja 18. öld gerðist næsti stórviðburður í þeirri sögu sem ég er að rekja. Múhameð bin Sád hét emír nokkur sem braust til valda í kastalaborginni Ad-Díríaj sem stóð nálægt vin inni á miðjum Arabíuskaga. Þar var býsna blómlegt um að litast miðað við gróðurvana eyðimörkina allt í kring. Múhameð bin Sád gerðist stöndugur og var líka flinkur stríðsmaður svo fyrr en varði var hann orðinn allsráðandi á allri hásléttunni á miðjum skaganum, landsvæði sem yfirleitt var og er enn kallað Najd. 

Hönd í hönd með trúnni

Stóran þátt í velgengni Múhameðs bin Sád átti bandamaður hans og nafni, Múhameð ibn Abd al-Wahhab. Sá var af heldur lítils megandi ættbálki sem hvorki var kunnur fyrir menntir né trúarhita, en því breytti al-Wahhab. Honum rann til rifja hve slöpp og menguð íslamstrú væri orðið og vildi hefja orð og lögmál spámannsins til vegs og virðingar að nýju.

Eldmóður, ströng siðaboð og trúboð al-Wahhabs urðu undirstaða bæði nýrrar trúarvakningar meðal súnnímúslima og veldis Múhameðs bin Sád í Najd. Bandalag þeirra var innsiglað með hjónabandi sonar Bin Sáds og dóttur al-Wahhabs. Með því að tengja veraldlegt vald sitt við þá siðbót sem al-Wahhab boðaði tókst Bin Sád að sýna sig sem sérlegan verndara trúarinnar og í því skjóli hefur Sád-fjölskyldan skákað æ síðan. 

Ruðst út af hásléttunni

Abdulaziz, sonur Bin Sáds og tengdasonur al-Wahhabs, varð arftaki föður síns 1765. Hann kallaðist ímam en ekki emír til að leggja áherslu á trúarlega stöðu leiðtoga hins upprennandi Sád-veldis. Abdulaziz treysti undirstöður veldisins og fór meðal annars í ránsferðir norður til Íraks þar sem hann lét myrða þúsundir sjíamúslima sem féllu í hendur manna hans.

Vildu menn ekki undirgangast hinn stranga boðskap al-Wahhabs með góðu var óhikað gripið til sverðsins

Sonur þessa Abdulaziz tók við 1803, hann er yfirleitt kallaður einfaldlega Sád og útþensla ættarinnar tók nú nýja stefnu þegar her Sáds ruddist út af hásléttunni í vesturátt og hrifsaði Medínu og Mekku af Ottómönum en veldi þeirra fór þá óðum hnignandi. Að ráða hinum helgu borgum var að sjálfsögðu mikill álitsauki fyrir Sád-ættina og var nú enn ýtt um siðaboðskap að hætti al-Wahhabs hvar sem Sádar komu. Og vildu menn ekki undirgangast hinn stranga boðskap al-Wahhabs með góðu var óhikað gripið til sverðsins. 

Tyrkjum nóg boðið

En nú var Ottómönum nóg boðið. Landstjóri þeirra í Egiftalandi hét Múhameð Alí og réði því sem hann vildi ráða. Her Ottómana var nær allur bundinn í Evrópu svo nú fólu þeir Múhameð Alí að kveða í kútinn þessa uppivöðslusömu eyðimerkur-Araba og það tókst syni Múhameðs Alís satt að segja fremur auðveldlega. Seinast féll Ad-Díríaj í hendur Egifta.

Þá var Abdúllah, sonur Sáds, orðinn ímam og var hann handsamaður og fluttur til Istanbúl þar sem hann var dreginn fyrir dóm 1818 fyrir að hafa vanhelgað heilagar borgir og moskur og svívirt hina trúuðu, ekki síst sjíamúslima. Abdúllah var svo heittrúaður Wahhabisti að hann hafði til dæmis lagt blátt bann við tónlist í ríki sínu svo Ottómanar dæmdu hann til að hlusta á fagran lútuleik langa hríð, en svo var hann hálshöggvinn. 

Nýr ættarlaukur

Virtist nú fokið í flest skjól fyrir Sád-fólkinu en þá reis upp nýr ættarlaukur gegn tyrkneskri stjórn. Sá var sonarsonur hins upphaflega emírs Múhameðs bin Sáds og bar nafnið Turki sem óneitanlega hlýtur að teljast kaldhæðnislegt. Árið 1824 náði Turki Ad-Díriaj (sem nú heitir Ríad) frá Tyrkjum og egifskum bandamönnum þeirra. Fremur en að efna til allsherjar stríðs kaus hann svo að vera í orði kveðnu lénsmaður Tyrkjasoldáns. Turki var myrtur áratug síðar af frænda sínum en Fajsal, sonur hans, náði þá völdum.

Það gekk á ýmsu næstu áratugina, hið nýja sádíska ríki hafði ekki bolmagn til að teygja sig aftur til Hejaz, en svo kallast Rauðahafsströnd Arabíuskagans og uppsveitirnar þar sem Medínu og Mekku er meðal annars að finna. Þróaðist þar á endanum sérstakt konungsríki. 

Uppreisnir og mótþrói

Veldi Sád-ættarinnar var því bundið við hásléttuna Najd og svo strönd Persaflóans, þar sem þó skrimtu líka ýmis furstadæmi á útkjálkum. Erjur innan Sád-ættarinnar voru líka tíðar og valdaættin Rasída hjá Haíl veitti henni æ meiri keppni er á 19. öldina leið. Fajsal dó 1865 og synir hans bitust um völdin og geisaði sannkallað borgarastríð um tíma. Að lokum náði Abdul Rahman völdum en mátti enn kljást við uppreisnir og mótþróa og að lokum notaði Rasíd-ættin tækifærið og sópaði Sádum frá völdum árið 1891. Abdul Rahman leitaði hælis fyrst frá furstanum í Katar, svo í Bahrein og síðan Kúveit.

Abdul átti marga syni og þeirra var Abdulaziz elstur, fæddur árið 1875. Hann var gramur mjög yfir því að ættin væri nú frá völdum fallin og setti saman ránsflokka sem fóru með gripdeildum um landsvæði Rasída í nokkur ár. 

Enn stuðst við trúna

Abdulaziz bin Sád reyndist bæði kænn foringi og lagið að hrífa menn með sér. Hann var afar hávaxinn, hraustur og atorkusamur alla tíð á öllum sviðum. Árið 1902 var hann aðeins 27 ára gamall en náði þá að brjótast yfir borgarmúra Ríad með 40 manna lið og tók borgina af Rasída. Margir íbúar Najd flykktust þá til liðs við hann og þótt Rasídar kölluðu á aðstoð Ottómana kom það fyrir lítið. Árið 1906 sigraði her Sáda hersveitir Rasída í úrslitaorrustu um yfirráðin í Najd og Abdulaziz gat farið að treysta sig í sessi sem valdsherra. Hann studdist enn við hina ströngu trú Wahhabíta líkt og forfeður hans og íslömsk lög voru í heiðri höfð.

Á árum fyrri heimsstyrjaldar komu Bretar mjög til sögu á svæðinu því þeim var umhugað um að kveða Tyrki endanlega í kútinn, því trénað Tyrkjaveldið hafði bundið trúss sitt við Þjóðverja, fjendur Breta. Gegn Tyrkjum studdu Bretar við konunginn í Hejaz og þó einkum hinn svonefnda sjaríf í Mekku og í lok heimsstyrjaldarinnar virtist Hussein bin Alí sharíf og kóngur standa uppi með pálmann í höndunum í mestöllum hinum arabíska heimi. Synir hans urðu vissulega kóngar í Jórdaníu og Írak en sjálfur varð hann að hrökklast frá völdum 1824.

Konungsríkið Sádi-Arabía stofnað

Þá hafði Abdulaziz bin Sád treyst sig svo í sessi í Najd að hann var kominn í útrás um mestallan Arabíuskaga og náði Hejaz undir sig og með þar með Medínu og Mekku. Abdulaziz naut þess að hafa stuðning Breta og fékk hjá þeim mikið magn vopna sem þeir skildu eftir í Mið-Austurlöndum þegar heimsstyrjöldinni lauk.

Abdulaziz var nokkuð ótraustur í sessi fyrstu árin, hluti herafla hans gerði uppreisn og vildi fá að halda áfram útþenslu og leggja til dæmis undir sig litlu furstadæmin sem enn lifðu við Persaflóa og auk þess eyða Jórdaníu sem fáir skildu hvaða tilverurétt átti, en Abdulaziz taldi rétt að láta staðar numið í bili. Hann bældi niður uppreisnina með hjálp Breta og 1932 stofnaði hann konungsríkið Sádi-Arabíu.

Heilagt bandalag?

Það voru enn sex ár þangað til olían fannst, svo þetta var fátækt ríki, þjóðin var illa menntuð og atvinnuvegir fábreyttir. Trúin var allsráðandi og alltumlykjandi. Sá sem furðar sig á því að Sádi-Arabía skuli halda svo fast í hina wahhabísku trú, sem leyfir enga upplýsingu, engar nútímatúlkanir á orðum spámannsins, sá hinn sami áttar sig ekki á því að ríkið og trúin hafa verið óaðskiljanleg frá því þeir Múhameð bin Sád og Múhameð al-Wahhab hittust og gerðu með sér bandalag um miðja 18. öld.

Heilagt bandag, segja hinir óteljandi prinsar Sád-ættarinnar. Vanheilagt bandalag, myndu aðrir segja.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
1
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Baráttan fyrir því „dýrmætasta og fallegasta“
3
Viðtal

Bar­átt­an fyr­ir því „dýr­mæt­asta og fal­leg­asta“

Bar­átta fyr­ir vernd­un út­sýn­is­ins úr Laug­ar­nesi yf­ir í Við­ey hef­ur leitt sam­an þær Þuríði Sig­urð­ar­dótt­ur og Stein­unni Jó­hann­es­dótt­ur sem telja okk­ur sem nú lif­um ekki hafa leyfi til þess að eyði­leggja þá fögru sjónása sem Reyk­vík­ing­ar hafa getað not­ið um ald­ir. „Þetta er lít­ill blett­ur sem við þurf­um að slást um al­gjör­lega upp á líf og dauða,“ seg­ir Stein­unn.
Ekki hægt að friðlýsa útsýnið
4
Úttekt

Ekki hægt að frið­lýsa út­sýn­ið

All­víða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu stend­ur venju­legt fólk í slag um út­sýni til hafs, fjalla og eyja. Einn slík­ur slag­ur varð­ar Laug­ar­nes­ið, sem Minja­stofn­un hef­ur vilj­að frið­lýsa, reynd­ar í óþökk Reykja­vík­ur­borg­ar. Jarð­efni sem fært var úr grunni nýs Land­spít­ala mynd­ar nú land­fyll­ingu sem senn verð­ur enn stærri. Út­sýni til Við­eyj­ar gæti tap­ast, óháð öll­um frið­lýs­ingaráform­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
1
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
2
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.
Læknamistök og handleggsbrot hafa markað ævi Ingu
6
Nærmynd

Læknamis­tök og hand­leggs­brot hafa mark­að ævi Ingu

Ingu Sæ­land fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra var ekki hug­að líf vegna skæðr­ar heila­himnu­bólgu þeg­ar hún var smá­barn. Hún lifði en sjón henn­ar tap­að­ist að miklu leyti. Inga þekk­ir bæði fá­tækt og sár­an missi, gift­ist sama mann­in­um tvisvar með 44 ára milli­bili og komst í úr­slit í X-Factor í milli­tíð­inni. Hand­leggs­brot eig­in­manns­ins og ít­rek­uð læknamis­tök á tí­unda ára­tugn­um steyptu fjöl­skyld­unni í vand­ræði.

Mest lesið í mánuðinum

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
3
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
4
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár