Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, var kosinn formaður félagsins á þingi félagsins í dag. Vésteinn Valgarðsson, stuðningsfulltrúi á Kleppi, var einnig í framboði, en fráfarandi formaður, Elín Björg Jónsdóttir, tilkynnti í byrjun sumars að hún gæfi ekki kost á sér.
Sonja hlaut 86,3 prósent atkvæða þingfulltrúa en Vésteinn 13,7 prósent. „Ég hlakka til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru,“ sagði Sonja í ávarpi til þingsins. „Hér á þingi BSRB höfum við mótað í sameiningu skýra sýn í stefnu og ályktunum sem við munum fylgja kröftuglega eftir. Ég er sannfærð um að saman munum við stuðla að breytingum og betra samfélagi fyrir okkar félagsmenn, í vinnu sem einkalífi.“
BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Aðildarfélög eru 25 talsins og fjöldi félagsmanna rúmlega 21 þúsund. Samkvæmt drögum að stefnu félagsins sem rædd verða á þinginu verður lögð áhersla á styttingu vinnuvikunnar, bætta stöðu tekjulágra fjölskyldna og nýtingu skattkerfisins sem jöfnunartækis, meðal annars.
„Það verður aldrei sátt í okkar samfélagi á meðan bætt kjör og betri lífsgæði eiga bara við um suma en ekki alla,“ sagði Elín Björg, fráfarandi formaður, í opnunarávarpi þingsins á miðvikudag. „Þar skiptir máli að við getum staðið saman til að þrýsta á um þær breytingar sem við teljum að muni bæta samfélagið og vinna að sameiginlegum skilningi allra aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við þurfum að bera gæfu til þess að nýta þann mikla samtakamátt sem býr í íslensku launafólki til að bæta samfélagið allt.“
Athugasemdir