Konur sem fara í fæðingarorlof vegna fyrsta barns eru tíu ár að ná aftur sömu launum og kynsystur þeirra. Sama ferli tekur karlmenn 20 mánuði. Þetta kemur fram í efnahagsyfirliti VR sem birt var í dag.
Í yfirlitinu segir að dönsk rannsókn hafi sýnt að fórnarkostnaður kvenna vegna barneigna jafngildi tekjulækkun til frambúðar. Laun kynjanna þróist á sambærilegan hátt fimm ár fyrir fæðingu fyrsta barns en svo dragi sundur með þeim.
VR þekkir ekki til þess að samsvarandi rannsókn hafi verið gerð á Íslandi, en þegar launaþróun karla og kvenna innan VR sé skoðuð með dönsku rannsóknina í huga bendi niðurstöðurnar til samsvarandi breytinga á launaþróun kynjanna innan VR fljótlega eftir fæðingu fyrsta barns.
„Hins vegar eru vísbendingar um að konur í félaginu nái aftur sömu launum í hlutfalli við aðrar konur í félaginu. Slíkt tekur þó tíu ár. Karlar ná aftur sömu stöðu á um 20 mánuðum,“ segir í yfirlitinu.
Skoðun VR á launaþróuninni er þó ekki gerð á sama hátt og í dönsku rannsókninni. Um lauslega skoðun á þróun launa kynjanna yfir tíu ára tímabil er að ræða, að teknu tilliti til fjarveru frá vinnu vegna barneigna.
Athugasemdir