Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, útilokar ekki að ræða við erlend stjórnvöld um framgöngu þeirra í bankahruninu á grundvelli skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem birt var í vikunni. Í skýrslunni, sem Hannes vann fyrir Félagsvísindastofnun að ósk Bjarna, er því haldið fram að gjörðir erlendra aðila hafi valdið þeirri keðjuverkun sem orsakaði bankahrunið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, vakti máls á skýrslunni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. „Nokkrir af vinstri kanti stjórnmálanna hafa að vísu sett út á að í skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins sé of mikið fjalla um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, of lítið um skoðanir þeirra sjálfra á innanlandspólitíkinni,“ sagði Sigmundur.
„Í leiðinni hafa menn hnýtt í aðalhöfund skýrslunnar og persónu hans og jafnan sama fólk og heldur því fram að það sé algjörlega óforsvaranlegt að gagnrýna fræðimenn. En þá væntanlega bara nógu vinstrisinnaða fræðimenn.“
Sigmundur spurði Bjarna hvernig hann ætlaði að fylgja skýrslunni eftir. „Verða þessi mál tekin upp við fulltrúa erlendra ríkja og alþjóðastofnana og verður til að mynda farið fram á afsökunarbeiðni frá breskum stjórnvöldum?“
Bjarni sagði að skýrslan væri mikilvæg samantekt á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins. Hann sagðist persónulega margsinnis hafa haft uppi athugasemdir við breska ráðamenn vegna framgöngu Breta á tíma hrunsins.
„En ég ætla alls ekki að útiloka að skýrslan gefi upp tilefni til að taka upp þráðinn, sérstaklega í einhverjum tilvikum, án þess að ég sé tilbúinn til að úttala mig um það hvaða mál það yrðu þá nákvæmlega sem þar ættu í hlut.“
Athugasemdir