Kærunefnd útlendingamála taldi ákvæði í reglugerð Sigríðar Andersen um sérstaka málsmeðferð hælisleitenda frá öruggum ríkjum og beitingu Útlendingastofnunar á þeim skorta lagastoð og felldi því fjölmargar ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi í fyrra.
Alls gerði kærunefndin Útlendingastofnun afturreka með 57 prósent slíkra mála árið 2017, ýmist að hluta eða fullu. Í flestum tilvikum höfðu hælisleitendurnir þegar verið fluttir úr landi þegar kærunefndin komst að niðurstöðu um að Útlendingastofnun hefði brotið á þeim.
Óafturkræfar afleiðingar
Í 49. gr. breytingarreglugerðar um útlendinga sem Sigríður Andersen setti þann 30. ágúst 2017 er fjallað um réttaráhrif þess þegar „bersýnilega tilhæfulausri“ hælisumsókn er synjað. „Hafi umsókn verið synjað á þeim grundvelli að hún sé bersýnilega tilhæfulaus skal útlendingi almennt brottvísað og ákvarðað endurkomubann án þess að veittur sé frestur til sjálfviljugrar heimfarar,“ segir í ákvæðinu.
Að mati kærunefndar útlendingamála hefur löggjafinn aldrei falið ráðherra vald til að setja reglur sem þessar, reglur sem takmarka „það skyldubundna mat sem löggjafinn hefur falið kærunefnd og Útlendingastofnun við beitingu heimildar til að fella niður frest til umsækjenda um alþjóðlega vernd og brottvísa þeim samhliða ákvörðun um synjun umsóknar“. Fyrir vikið hefur kærunefndin ekki beygt sig undir ákvæðið við mat á því hvort vísa beri útlendingum á brott. Beiting Útlendingastofnunar á ákvæðinu kann hins vegar að hafa haft óafturkræfar afleiðingar fyrir fólk sem var þannig vísað úr landi á ólögmætum grundvelli.
Ráðuneytið reyndi að kippa andmælaréttinum úr sambandi
Kærunefndin felldi úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar þar sem brotið var gegn andmælarétti hælisleitenda og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Í einu málinu hafði maður frá öruggu upprunaríki beðið um frest til að skila viðbótarupplýsingum frá heimaríki sínu en fengið þau svör frá Útlendingastofnun, í anda 47. gr. hinnar nýju reglugerðar, að slíkt yrði hann að gera strax á staðnum. Bendir kærunefnd útlendingamála á að í íslenskum rétti sé heimild til að óska eftir frestun órjúfanlegur þáttur í andmælarétti aðila, enda ekki hægt að líta svo á að rétturinn sé raunhæfur og virkur nema fólk fái ráðrúm til að undirbúa mál sitt.
„Kærunefnd telur því að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í andstöðu við 18. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi telur kærunefnd rétt að árétta að ákvæði 47. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 geta ekki vikið til hliðar ákvæðum stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila máls,“ segir í úrskurði kærunefndarinnar. Fram kemur að „verulegir og alvarlegir annmarkar“ hafi verið á meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem kunni að hafa „leitt til óafturkræfra réttarspjalla fyrir kæranda sem er ekki lengur hér á landi“.
Stórum hluta ákvarðana snúið við
Samkvæmt upplýsingum sem Stundin fékk hjá kærunefnd útlendingamála felldi nefndin úr gildi, að hluta eða fullu, alls 39 prósent allra ákvarðana Útlendingastofnunar sem rötuðu á hennar borð árið 2017. Það sem af er 2018 hefur svo Útlendingastofnun verið gerð afturreka með 36 prósent þeirra mála sem kærð hafa verið.
Niðurstaða efnismeðferðar Útlendingastofnunar í málum fólks sem ekki kemur frá öruggum upprunaríkjum var að fullu staðfest í 46 prósentum tilvika það sem af er þessu ári. Í fyrra var staðfestingarhlutfallið hins vegar 73 prósent. Í Dyflinnarmálum er staðfestingarhlutfallið 72 prósent það sem af er ári en var 79 prósent í fyrra. Staðfestingarhlutfall í málum fólks frá öruggum upprunaríkjum hefur hins vegar hækkað úr 43 prósentum í 60 prósent. Þar var hlutfallið jafn lágt og raun ber vitni í fyrra vegna tregðu Útlendingastofnunar til að beygja sig undir túlkun kærunefndarinnar á útlendingalögum.
Athugasemdir