Sögulega lág upphæð verður áætluð í vaxtabætur samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019 sem ríkisstjórnin kynnti í dag. Vaxtabætur verða 3,4 milljarðar króna, en upphæðin var 4 milljarðar króna á síðustu fjárlögum.
Í frumvarpinu kemur fram að þótt miðað hafi verið við 4 milljarða á árinu stefni í að aðeins 3 milljarðar verði greiddir í vaxtabætur. Ástæðan séu hærri tekjur og nettóeignir þeirra sem eiga húsnæði. Reiknireglur vaxtabóta haldast óbreyttar áfram, en til að mæta þróuninni munu stjórnvöld hækka viðmiðunarstærðir vaxtagjalda og hámarksvaxtabóta um 5% og nettóeigna um 10% frá yfirstandandi ári. „Miðað við þær forsendur er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta verði samtals 3,4 ma.kr. á árinu 2019 sem er rúmlega 13% hækkun milli ára,“ segir í frumvarpinu.
Endurskoðun stefnu um bótakerfi, tekjuskatt og húsnæðisstuðning hefur tafist og því óljóst hvaða upphæðir verða settar í málaflokkinn til lengri tíma. Þær tillögur munu líta dagsins ljós fyrir lok árs, en væntanlega ekki koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 2020, að því segir í frumvarpinu.
Húsnæðisstuðningur og barnabætur hækka
Húsnæðisstuðningur almennt eykst um rúmar 100 milljónir króna á gjaldahlið frá fjárlögum í fyrra og er nú 13,5 milljarðar. Tæpir 6,4 milljarðar króna fara í húsnæðisbætur og 3,7 milljarðar króna í stofnframlög vegna félagslegra leiguíbúða. Á tekjuhlið er frekari stuðningur í formi skattastyrkja vegna almenns séreignarsparnaðarúrræðis og stuðnings til fyrstu kaupa, auk undanþágu leigutekna frá skatti, afsláttar á stimpilgjöldum vegna fyrstu kaupa og endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda vegna sölu og leigu íbúðarhúsnæðis og til fasteignaeigenda vegna viðhaldsvinnu. „Samantekið var veittur húsnæðisstuðningur ríkisins með þessum úrræðum ríflega 24,5 ma.kr. í fjárlögum 2018, en alls er gert ráð fyrir að stuðningur vegna húsnæðis aukist um ríflega 900 m. kr. í fjárlögum ársins 2019 og verði um 25,4 ma.kr,“ segir í frumvarpinu.
„Samanlagt munu áætluð heildarútgjöld vegna barnabóta og vaxtabóta fara úr 13,3 ma.kr. á þessu ári í 15,5 ma.kr. árið 2019, eða hækka um 16,5% milli ára, sem er talsvert umfram almenna verðlags- og launaþróun,“ segir ennfremur í frumvarpinu. „Með útgjaldaaukningu í þessum bótakerfum er stigið fyrsta skref í aðgerðum stjórnvalda til aðstoðar tekjulægri fjölskyldum.“
Athugasemdir