Útlit er fyrir að ríkið veiti Íslandspósti allt að 500 milljóna króna lán vegna lausafjárvanda og ófjármagnaðs kostnaðar við alþjónustu. Málið hefur verið rætt í ríkisstjórn samkvæmt heimildum Stundarinnar og kynnt fjárlaganefnd Alþingis. Má ætla að heimild til lánveitingarinnar rati inn í fjáraukalög yfirstandandi árs.
Nýlega birti Íslandspóstur hálfsársuppgjör þar sem fram kom að fyrirtækið hefði tapað 161,2 milljónum á fyrri helmingi ársins. Er áætlað að tekjur fyrirtækisins dragist saman um hátt í 400 milljónir á þessu ári vegna fækkunar bréfsendinga. Ófjármagnaður kostnaður vegna svokallaðrar alþjónustu Íslandspósts var um 600 milljónir króna í fyrra og er reiknað með að hann nemi um 700 milljónum árið 2018.
Ráðgjafarfyrirtækið Copenhagen Economics vann skýrslu fyrir Íslandspóst í apríl síðastliðnum um þær fjárhagslegu byrðar sem fylgja alþjónustuskyldunni. Slík skylda er lögð á póstfyrirtæki um allan heim til að tryggja að öllum borgurum sé veitt grunnpóstþjónusta á jafnréttisgrundvelli. Felur alþjónustuskyldan í sér ýmsar kröfur, t.d. skyldu til að safna saman og flytja ákveðnar tegundir af pósti, flytja póst ákveðið marga daga í viku, tryggja að verð sé viðráðanlegt og samræmt og að póstur berist innan tiltekins tímafrests frá póstlagningu.
Fram kom í tilkynningu frá Íslandspósti vegna afkomu fyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins að stjórnendur fyrirtækisins ynnu nú að því „í samvinnu við stjórnvöld að leita leiða til að tryggja fjármögnun alþjónustunnar og laga hana að breyttum forsendum“. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er áformað að mæta lausafjárþörfinni með því að ríkissjóður veiti allt að 500 milljóna króna lán til allt að 12 mánaða.
Íslandspóstur er í eigu ríkisins og er Ísland eina landið á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem einkaréttur á póstþjónustu hefur ekki verið felldur niður. Í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er lagt til að einkaréttur ríkisins verði afnuminn og alpóstþjónusta veitt á markaðslegum forsendum í samræmi við þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins.
Stundin hefur óskað eftir ítarlegri upplýsingum um málið frá fjármálaráðuneytinu og mun uppfæra fréttina eftir að þær berast.
Athugasemdir