Borið hefur á því undanfarin ár að konum í húsnæðisvanda sé boðið húsaskjól í skiptum fyrir kynlíf. Fjallað hefur verið um slík dæmi í fjölmiðlum og haft var eftir verkefnastjóra Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, í fyrra að þrengingar á húsnæðismarkaði og bág staða leigjenda sköpuðu kjöraðstæður fyrir vændiskaupendur sem vildu nýta sér neyð annarra.
Vandinn á sér fleiri birtingarmyndir. Í nótt birti maður á miðjum aldri auglýsingu á Bland.is sem beint var sérstaklega til kvenna, þar sem þeim er boðið að búa í húsnæði hans án þess að greiða leigu. Sagðist hann ekki vera á höttunum eftir peningagreiðslum heldur einvörðungu félagsskap. Hugsanlega kynlífi en ekkert endilega, enda hefði hann óbeit á vændi.
„Ég er ekki að þessu til að græða, ég er eingöngu að óska eftir traustum félagsskap“
„Ég rukka ekki um neina leigu enda er slíkt bannað í þessari félagslegri íbúð sem að ég bý í, en ég tel eða veit að það er ekki hægt að neita mér um að hafa félagsskap í íbúðinni minni. Ég er ekki að þessu til að græða, ég er eingöngu að óska eftir traustum félagsskap þar sem að ég er orðinn töluvert einmana,“ skrifaði hann. „Ég er ekki að leita eftir neinu vændi eða kynlífsgreiðum enda þoli ég ekki svoleiðis, en þú verður þó að vera mjög myndarleg og áreiðanlegur einstaklingur.“
Sagðist maðurinn sjálfur vera „mjög persónulegur, hreinskilinn, vinalegur, hress, traustur og jákvæður“ og óska eftir konu sem hefði sömu kosti að bera. „Þar sem að reglur félagsbústaða heimila ekki að ég leigi íbúðina mína, þá óska ég bara eftir konu til að búa með, hvort sem að um kynlíf er að ræða eða ekki. En ég tek það mjög skýrt fram vegna þess hve mikla sjálfsvirðingu ég hef, þá kem ég aldrei til með að kaupa mér kynlífsgreiða.“
Auglýsandinn vildi ekki ræða málið nánar þegar Stundin hafði samband við hann. Auglýsing hans hefur nú verið fjarlægð af Bland.is. Hún hafði hins vegar vakið mikla athygli og verið opnuð fimmtán þúsund sinnum áður en hún hvarf.
Athugasemdir