Aldrei hafa fleiri byggingakranar verið uppi á 2. ársfjórðungi en nú í ár. Hundrað kranar voru skoðaðir á fjórðungnum, en þar að auki 71 á fyrsta ársfjórðungi. Ef þróunin heldur áfram verður líklega mesti fjöldi byggingakrana skoðaður síðan árið 2007. Í fyrra voru skoðaðir samtals 303 kranar miðað við 310 krana árið 2008.
Bragi Fannar Sigurðarson heldur úti vefnum Vísitala.is þar sem gögnum frá Vinnueftirlitinu um fjölda byggingakrana er safnað saman og þau sett myndrænt fram. Vísar Bragi í orð hagfræðingsins Robert Z. Aliber, sem kom til Íslands fyrir hrun og sá að hagkerfið stefndi í niðursveiflu. „Það þarf aðeins að telja byggingakranana,“ var haft eftir Aliber, en hann telur fjölda krana vera til merkis um þenslu í efnahagslífinu.
Í maíbyrjun 2008 kom Aliber til Íslands og flutti fyrirlestur um stöðu efnahagsmála. Hann hitti einnig Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í þeim tilgangi að kynna honum sýn sína á þróun efnahagsmála og mikilvægi þess að grípa til aðgerða gagnvart bankakerfinu. Athygli vekur að samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sýndi Geir málflutningnum og ráðleggingum prófessorsins lítinn áhuga. „Hann var ekkert að tala þetta allt niður eins og hann gerði svo í ræðu sinni, hann var bara huggulegur, gamall kall sem var að koma þarna,“ var haft eftir Geir í skýrslunni.
Athugasemdir