Robert Z. Aliber, prófessor í alþjóðahagfræði og fjármálum við Háskólann í Chicago, hélt fyrirlestur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í dag undir yfirskriftinni Evra eða króna: Hvað hefur fjármálakreppan kennt okkur um gengisfyrirkomulag? Ræddi hann um peningamál í stóru samhengi, flæði fjármagns milli landa og tengsl þess við bólumyndun í hagkerfum.
Aliber hefur sýnt efnahagsmálum á Íslandi talsverðan áhuga undanfarin ár og raunar leikur hann áhugaverða rullu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Sagan af því þegar hann kom hingað til lands árið 2008 er ágætis vitnisburður um meðvirkni og andvaraleysi í aðdraganda hrunsins.
Gylfi Zoëga, hagfræðingur við Háskóla Íslands, stóð fyrir því að Aliber kom hingað til lands aðeins örfáum mánuðum fyrir bankahrun og flutti erindi í háskólanum þar sem hann gagnrýndi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og spáði fyrir um hrun íslenska efnahagskerfisins. Aliber hafði áður hitt Gylfa í júní 2007 og dregið upp dökka mynd af framtíð fjármálakerfisins.
Athugasemdir