Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, verður formaður verkefnisstjórnar um mótun matvælastefnu fyrir Íslands. Vala er viðskiptafræðingur að mennt og hefur meðal annars starfað hjá RÚV og sem forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Íslandsbanka.
Tilkynnt var um skipun verkefnisstjórnarinnar á vef atvinnuvega- nýsköpunarráðuneytisins í dag. Í stjórninni verða auk Völu þau Ingi Björn Sigurðsson, fulltrúi ráðherra, Ragnheiður Héðinsdóttir tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Anna Guðmundsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands.
Fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stefnt sé að því að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og tryggð verði áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum. Þá beri að nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa skuli lífhagkerfið enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu.
Verkefnisstjórninni er falið að hafa eftirfarandi atriði að leiðarljósi við mótun matvælastefnunnar:
Stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu í gegnum virðiskeðjuna
Bætt aðgengi að hollum matvælum með áherslu á lýðheilsu
Nýsköpun, vöruþróun og virðissköpun í virðiskeðjunni
Uppruna matvæla, merkingar og matvæla öryggi
Aðgengi að upplýsingum og gegnsæi
Mikilvægi þess að draga úr matarsóun
Samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði
Athugasemdir