Þótt Donald Trump hafi hingað til hrist af sér hneykslismál sem hefðu orðið öllum öðrum stjórnmálamönnum að pólitísku fjörtjóni virðist með ólíkindum ef hann nær að klóra sig í gegnum þann málarekstur sem sérstaki saksóknarinn Robert Swan Mueller III stýrir nú og Trump blandast sífellt meira í. Það á auðvitað eftir að koma í ljós en full ástæða er til að skoða hver sé maðurinn sem gæti orðið Bandaríkjaforseta að falli.
Hin gamla yfirstétt gegn uppskafningi
Robert Mueller er yfirstéttarstrákur. Fólkið hans var ekki í hópi þess allra ríkasta en þó mjög vel stætt. Faðir hans var einn af framkvæmdastjórum risafyrirtækisins DuPont sem haslaði sér völl í efnaiðnaði og plastframleiðslu, móðir hans var barnabarn járnbrautakóngs sem gerði tilraunir með rafmagnslestir í samvinnu við Thomas Edison. Bæði faðir hans og þó einkum móðir eru af gamalgrónum ættum sem oft eru kenndar við Nýja England og það fólk leit og lítur kannski enn á sig sem hina einu sönnu valdastétt í landinu. Í augum þessa fólks er Donald Trump groddalegur menntasnauður uppskafningur og má vel leiða að því rök að það hafi þar rétt fyrir sér. Ólíkt sumu öðru ríku fólki leit fjölskylda Muellers svo á að hún hefði skyldum að gegna við samfélagið. Mueller hefur greint frá því að í foreldrahúsum hafi hann lært mikilvægi trúmennsku, heiðarleika og sannsögli. Hann lærði líka að trana sér ekki fram og stæra sig ekki en axla þó ævinlega og möglunarlaust þá ábyrgð sem honum væri falin. Og allt þetta tók hann greinilega til sín.

Mueller gekk í alla fínustu skólana, hann var leiðtogi í hópi skólabræðra sinna (já, þetta voru strákaskólar) þótt hann væri hvorki hávær né áleitinn, og hann var íþróttamaður góður. Þá fékk hann á sig orð fyrir að vera réttsýnn og taka málstað þeirra sem áttu undir högg að sækja. Þótt hann sé á sama aldri og ýmsir af hinum uppvaxandi rokktónlistarmönnum Bandaríkjanna virðist hann aldrei hafa farið út í þá sálma. Hann var alltaf stuttklipptur, íhaldssamur, pottþéttur. Í fyrstu hugðist hann læra læknisfræði en þótt hann væri mjög góður námsmaður vafðist lífefnafræði af einhverjum ástæðum mjög fyrir honum. Hann tók BA-próf í alþjóðasamskiptum en stefndi því næst í lögfræði.
Býður sig fram í stríð
Árið 1967 var Mueller 23 ára og beinn og breiður vegur virtist blasa við. Hann fengi á endanum starf á fínni lögfræðistofu, tímakaupið svimandi hátt og hann gæti farið að spila golf öllum stundum. En þá tók hann hina fyrstu af nokkrum óvæntum ákvörðunum sem hafa einkennt líf hans. Hann skráði sig í landgöngulið flotans, sérstaklega með það í huga að fara til Víetnam að berjast.
Hann þurfti ekkert að gera það. Ríkir yfirstéttarstrákar á borð við hann gátu leikandi létt komist hjá því að fara til Víetnam. Donald Trump var til dæmis einn þeirra. Í það eina skipti sem kom til mála að hann yrði kallaður til Víetnam var hann skráður með smávægilegt fótarmein sem hann mundi ekki einu sinni seinna hvort hefði átt að vera á hægra eða vinstri fæti.
En Mueller sóttist beinlínis eftir því að komast í bardagasveitir. Hann hefur sjálfur sagt að fordæmi skólabróður hans hafi ráðið þar mestu. Sá var einu ári eldri en Mueller, dáður og virtur og fór til Víetnam af því honum fannst það skylda sín að berjast fyrir föðurlandið. Þessi ungi maður var fljótlega skotinn til bana og Mueller vildi taka upp merki hans. Hann undirbjó sig vandlega, gekk í gegnum sérstaka „Rangers“ þjálfun sem tryggði að hann yrði ævinlega í fremstu víglínu, fór í liðsforingjanám og lærði að stökkva í fallhlíf. Í júlí 1968 var Mueller kominn til Víetnam þar sem hann varð flokksdeildarforingi og stýrði um 40 manna deild (platoon).
Baráttan gegn kommúnismanum
Víetnam-stríðið hefur ekki gott orð á sér, ef svo má að orði komast. Einmitt um þetta leyti var að renna upp fyrir mörgum Bandaríkjamönnum að ekki aðeins væri stríðsreksturinn sjálfur að líkindum vonlaus, heldur var sjálfur tilgangurinn með þátttökunni vafasamur, óskiljanlegur eða rangur – kannski allt í senn. En þegar Mueller bauð sig fram til baráttu í Víetnam trúði samt stór hluti Bandaríkjamanna því að stríðið væri þáttur í heiðarlegri baráttu gegn hinum illa kommúnisma sem ógnaði frelsi og lýðræði um víða veröld.
Hér er á það að líta að kynslóð föður Muellers hafði barist í seinni heimsstyrjöldinni þegar enginn vafi lék á því að Bandaríkjamenn höfðu siðferðilega rétt fyrir sér er þeir svöruðu árásargrimmd Japana og kváðu niður djöfulára Hitlers. Hermennirnir voru stoltir af þátttöku sinni í stríðinu og það fundu synir þeirra og arftakar. Á heimili Muellers hafði ekki verið alið á efasemdum um að ameríski herinn væri réttsýnn og rogginn og hann leit í rauninni svo á að hann væri að þjóna föðurlandinu og þeim amerísku gildum sem hann trúði á með því að mæta í stríðið.
Hlaut virðingu hermanna sinna

Mjög fljótlega eftir að Mueller kom til Víetnam lenti flokksdeild hans í hörðum bardögum. Á því gekk síðan í rúmt ár. Mueller var á endanum orðinn höfuðsmaður og hann þótti frábær leiðtogi á vígvellinum. Sjálfur gekk hann fram af hugrekki og hlífði sér hvergi. Hann var að minnsta kosti einu sinni særður skotsári en það var ekki lífshættulegt og hann hélt áfram að stýra mönnum sínum þar til tóm gafst til að gera að sárum hans. Vel að merkja hefur aldrei vaknað grunur um að Mueller eða menn hans hafi átt þátt í nokkrum þeim stríðsglæpum sem sumir Bandaríkjamenn gerðust sannanlega sekir um í Víetnam.
Hermenn sem börðust með Mueller í Víetnam minnast hans undantekningarlaust með hlýju og virðingu. Flestir voru lítt menntaðir alþýðustrákar af allt öðru sauðahúsi en Mueller, en þeir treystu honum og fundu að hann bar velferð þeirra og öryggi fyrir brjósti. Þegar blaðamaðurinn Garrett M. Graff leitaði nokkra þeirra uppi nýlega og spurði þá um reynslu þeirra af Mueller hlógu þeir bara þegar spurt var hvort hann myndi kikna undir álaginu sem hinn sérstaki saksóknari.
Eftir að Mueller var gróinn sára sinna var honum ætlaður staður bak við skrifborð, hann þótti efnilegur stjórnandi og skipuleggjandi. Þá sagði hann sig frá hermennsku og hélt áfram laganámi.
Ekki í tísku að tala um hetjuskap
Lengi eftir að Bandaríkjamenn hrökkluðust frá Víetnam var ekki í tísku að tala um hetjuskap þeirra sem þar börðust eða hreinar hvatir. Það má heldur ekki gleyma því að þótt nokkrir tugir þúsunda Bandaríkjamanna hafi fallið í stríðinu, þá drápu þeir sömu Bandaríkjamenn tvær milljónir Víetnama. En lengi eftir að stríðinu lauk voru hermennirnir orðnir hálfgerðir vandræðamenn í amerísku samfélagi, óhreinu börnin hennar Evu. Þótt Mueller hafi aldrei viljað tala um einstaka atburði þetta rúma ár sem hann barðist í Víetnam hefur hann aldrei farið í felur með þátttöku sína. Það má líka alveg kalla hann stríðshetju. Hann hefur frá því sagt að hann sé stoltastur af því á ævi sinni að landgönguliðarnir hafi treyst honum til að leiða þá í bardaga og sagði líka að hann teldi sig einstaklega heppinn að hafa sloppið lífs frá Víetnam.
„Og kannski af því að ég lifði Víetnam af hefur mér alltaf fundist skylda mín að leggja mitt af mörkum“
„Þeir eru margir, margir sem gerðu það ekki,“ sagði Mueller. „Og kannski af því að ég lifði Víetnam af hefur mér alltaf fundist skylda mín að leggja mitt af mörkum.“
Mueller lauk meistaranámi í lögfræði 1973. Hann gifti sig, konan hans heitir Ann Standish og það segir sig næstum sjálft að hún getur rakið ættir sínar aftur til „pílagrímanna“ sem komu yfir hafið og settust að á Nýja Englandi á 17. öld. Þau eignuðust tvær dætur.
Mafían, einræðisherra og hryðjuverk
Eftir útskrift starfaði Mueller fyrst við lögfræðifirma í San Francisco til 1976. Hann virtist kominn á hinn breiða og greiða veg sem við honum hafði blasað. En honum leiddist og brátt réði hann sig á skrifstofu saksóknara í San Francisco og vann þar í sex ár. Þar með var framtíð hans ráðin. Allar götur síðan og fram á þennan dag hefur Robert Mueller unað sér best við að undirbúa og sækja mál gegn lögbrjótum, háum sem lágum. Árið 1982 flutti hann sig nær heimaslóðum, eða til Boston, þar sem hann starfaði einnig sem saksóknari. Til Boston fór hann ekki síst til að geta verið nærri annarri dóttur sinni sem var til meðferðar í Boston en hún fæddist með klofinn hrygg. Í Boston sótti Mueller enn til saka alls konar illþýði. Hann var farinn að vekja athygli fyrir frábært starf, hann þótti á þessum vettvangi sem öðrum vandvirkur, nákvæmur og þrautseigur.
Árið 1988 gekk Mueller til liðs við prívatlögfræðifirma í Boston en entist þó aðeins þar í eitt ár en gekk þá til liðs við saksóknara dómsmálaráðuneytisins í Washington. Honum var treyst fyrir ýmsum mjög áberandi málum næstu árin. Til dæmis stýrði hann starfshópum sem sóttu til saka Manuel Noriega, einræðisherra Panama, sem var sakaður um peningaþvætti, eiturlyfjasmygl og fleira. Mueller gekk líka á hólm við mafíuforingja Gambinó-fjölskyldunnar í New York og hann undirbjó mál gegn tveimur Líbýumönnum sem sakaðir voru um að hafa sprengt farþegaþotu yfir Lockerbie í Skotlandi 1988 og var þá eitt mannskæðasta hryðjuverk sögunnar.
Enn snúið við blaðinu
Árið 1993 gerði Mueller svo aðra tilraun til að láta af opinberri þjónustu. Hann var vissulega farinn að spila golf og varð nú meðeigandi á höfuðborgarskrifstofu einnar af fínustu lögfræðistofum Boston sem sérhæfði sig í að verja hvítflibbaglæpamenn. Hann var kominn um fimmtugt og launin voru sannarlega svimandi. En eftir fáein misseri var hann enn farinn að ókyrrast. Vinur hans segir að honum hafi þótt óbærileg tilhugsunin um að taka þátt í að koma undan refsingu mönnum sem kannski væru sekir. Auðvitað vissi hann að jafnvel misindismenn eiga rétt á hinni bestu hugsanlegu vörn en hann persónulega hafði ekki áhuga á að taka þátt í að verja þá. Því var það sem Mueller hringdi árið 1995 í Eric Holder, yfirsaksóknara í Washington DC, og bað um vinnu. Hann var ekki að sækjast eftir yfirmannsstöðu og vildi ekki einu sinni titil. Hann bað bara um að verða óbreyttur saksóknari við morðdeildina í höfuðborginni en mikill ófriður ríkti á götunum þar um þær mundir í kjölfar krakkfaraldurs.
Morðin á kaffihúsinu
Holder þáði náttúrlega starfskrafta hans og næstu árin lét Mueller heldur betur að sér kveða.
„Hann vann bara á götunum,“ sagði Holder seinna. „Hann vann í þeim hverfum Washington sem verst höfðu orðið úti vegna ofbeldisins … Hann yfirheyrði fólk á vettvangi glæpsins, fór sjálfur heim til fólks að undirbyggja málin, vann náið með götulöggunni.“
„Hann vann bara á götunum“
Öllum ber saman um að þarna hafi Mueller notið sín út í ystu æsar. Hann er auðvitað ekki laus við hégómaskap og dramatík frekar en aðrir og hafði gaman af að svara í símann eins og lögga í sjónvarpsþætti:
„Mueller, morðdeildinni.“
Sérstaklega vann Mueller sér orð fyrir þrautseigju þegar hann átti mikinn þátt í að koma upp um morð á þremur starfsmönnum á Starbucks-kaffihúsi í Washington 1997. Maður að nafni Carl Cooper játaði á sig morðin tveim árum síðar. En eftir nokkur ár við að koma upp um morðingja í Washington varð Mueller aðalsaksóknari í San Francisco í Kaliforníu. Orðstír hans var þá orðinn slíkur að þegar George W. Bush skipaði hann yfir Alríkislögregluna FBI árið 2001 staðfestu bæði Repúblikanar og Demókratar á þingi skipan hans umyrðalaust. Skipunin var til tíu ára. Mueller var reyndar skráður Repúblikani en hafði lítt eða ekki skipt sér af stjórnmálum.
Forstjóri FBI hótaði að segja af sér
Mueller tók við sem forstjóri FBI 4. september 2001. Allir vita hvað gerðist viku síðar. Hryðjuverkin í New York og Washington urðu til þess að auka mjög áherslu FBI á varnir gegn hryðjuverkum og í það fór mest starfsorka Muellers á næstunni. Til þess var tekið að þótt leyniþjónustan CIA, herinn og ýmsar fleiri stofnanir í Bandaríkjunum hafi næstu misserin og árin talið rúmlega réttlætanlegt að brjóta margvíslegar mannréttindareglur í nafni „stríðsins gegn hryðjuverkum“ þá var Alríkislögreglan undir stjórn Muellers mjög treg til að taka þátt í slíku. Sem dæmi má nefna að árið 2004 hótuðu bæði Mueller og tiltekinn háttsettur starfsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins að segja af sér ef dómsmálaráðuneytið gengi ekki vandlega úr skugga um að farið yrði að öllum formreglum í sambandi við leyfi til símhlerana. Þessi starfsmaður dómsmálaráðuneytisins var James Comey, síðar eftirmaður Muellers hjá FBI.
Síðar hótaði Mueller einnig að segja af sér þegar honum fannst þingið draga lappirnar og ekki veita FBI tilhlýðilegan stuðning þegar rannsókn á mútuþægum þingmanni stóð yfir.
Mueller sýnir staðfestu sína reyndar á fleiri sviðum en þessum hinum stærri. Hann gengur til dæmis alltaf í hvítum skyrtum, aldrei bláum, vegna þess að hann telur að hvíta skyrtan sé tákn um þá íhaldssemi og staðfestu í vinnubrögðum og starfsanda sem hann hljóti að sýna. Jafnvel ljósblá skyrta sé merki um of mikla lausung!

Obama framlengdi ráðningu hans
Árið 2011 rann út skipunartími Muellers hjá FBI en Barack Obama fékk hann þá til að gegna forstjórastöðunni í tvö ár enn. Það sýndi hve mikið traust menn báru til Muellers, hvar í flokki sem menn stóðu. Árið 2013 lét hann svo af störfum. Hann var sjötugur en starfsþrekið ekkert að minnka. Hann fór að vinna hjá lögfræðistofunni WilmerHale og hafði til dæmis umsjón með greiðslu skaðabóta til viðskiptavina Volkswagen eftir að upp komst að fyrirtækið hafði brotið reglur um mengun í útblæstri.
Þann 16. maí 2017 var hann svo boðaður á fund í Hvíta húsinu. Donald Trump forseti hafði nokkrum dögum áður rekið James Comey úr embætti forstjóra FBI af því hann taldi Comey ekki sýna sér næga hollustu. Einhverjir höfðu nefnt Mueller sem hugsanlegan eftirmann hans, að minnsta kosti til bráðabirgða. Mueller gaf strax til kynna að hann hefði lítinn áhuga á að taka aftur við sínu gamla starfi en féllst þó á að koma og hitta Trump. Þetta var eftir því sem best er vitað í fyrsta sinn sem þeir hittust. Þeir töluðust við í hálftíma, samræðurnar voru á kurteislegum nótum og Trump lét þess getið eftir á að þessi Mueller hefði virst bæði „klár og töff“. En vegna þess að áhugi Muellers á starfinu var í raun ekki fyrir hendi kom aldrei til þess að framhald yrði á viðræðum.
Mueller kvaddi forsetann og yfirgaf Hvíta húsið.
„Er þetta ekki náunginn …?“
Daginn eftir eða jafnvel þennan sama dag fékk Mueller annað atvinnutilboð sem honum fannst ólíkt meira spennandi og líklega falla betur að þeirri löngun hans að „leggja sitt af mörkum“ til samfélagsins. Þann 17. maí var tilkynnt að Rod Rosenstein, nýr aðstoðardómsmálaráðherra, hefði ráðið Mueller sem sérstakan saksóknara með víðtækt vald til að rannsaka afskipti Rússa af forsetakosningunum í nóvember 2016. Í leiðinni mátti hann rannsaka alla hugsanlega glæpi sem hann kynni að rekast á við rannsókn sína og sækja meinta glæpamenn til saka. Sama dag hreinsaði Robert Mueller út af skrifstofu sinni hjá WilmerHale. Hann tók með sér til hins nýja embættis tvo nánustu samstarfsmenn sína hjá lögfræðistofunni. Annar þeirra hafði starfað með honum allt frá því hann var hjá FBI.
Í Hvíta húsinu var Trump eins og venjulega að horfa á sjónvarpið. Hann sá mynd af hinum nýja saksóknara og kallaði þá til aðstoðarmanns síns:
„Hei, er þetta ekki náunginn sem var hérna í viðtali hjá okkur út af FBI?“
Athugasemdir