Gamlir brottfluttir Akureyringar eins og ég telja, sem kunnugt er, að bærinn fagri fyrir norðan sé nafli alheimsins og allt gott sem orðið hafi hamingju Íslands að vopni sé komið þaðan. Í þessum pistli flétta ég saman ljúfar æskuminningar að norðan við hugleiðingar um nútímavæðingu Íslands. Ég ætla mér ekki þá dul að endurskrifa stjórnmála- eða hugmyndasögu Íslands en ég vona að pistillinn veki hughrif og hugleiðingar hjá þeim sem muna tímana í kringum 1970.
Ég fyllist hrolli þegar ég sé fólk tala um að „Nýja Ísland“ hafi orðið til á árunum fyrir hrunið. Nær er að kenna þau ár við nútímaeyðingu Íslands en nútímavæðingu. Þeir fáu sem enn muna stríðsárin af eigin raun munu ugglaust halda því fram, með góðum rökum, að þau – og ekki síður óverðskuldaða Marshall-hjálpin í kjölfar þeirra – marki innreið nútímans á Íslandi. Það er satt í efnahagslegu tilliti. En ef við skiljum „nútímavæðingu“ skilningi félagsfræðinga á borð við Giddens og Beck sem samheiti vitundarbreytinga á borð við hefðarrof og einstaklingsvæðingu þá var Ísland eftirstríðsáranna mjög gamaldags lengi vel. Þegar ég hugsa um Akureyri bernsku minnar á 7. áratugnum minnir staðblærinn þar mest á sjónvarpsþætti frá smábæjum á 5.-6. áratugnum á Englandi. Séntilmenn í enskum stíl, svo sem Friðrik Þorvaldsson menntaskólakennari, Jón Sólnes bankastjóri, Beggi Lár skókaupmaður og Gísli Konráðsson hjá ÚA, gengu um með hatta í Hafnarstræti og tóku ofan fyrir verðugum – jafnvel börnum ef þeir þekktu foreldrana! Gísli sá svo til þess að faðir minn, bláfátækt skáldið Kristján frá Djúpalæk, var gerður að endurskoðanda hjá Útgerðarfélaginu þar sem starfið fólst í því að skrifa nafnið sitt undir rekstrarreikninginn einu sinni á ári (þó að pabbi væri fullkomlega reikningsblindur) og fá fúlgu fjár í staðinn sem hélt fjölskyldunni og skáldskapnum uppi mánuðum saman. Þetta var að sögn Gísla framlag Útgerðarfélagsins til menningarinnar á Akureyri. Það er eitthvað dásamlega Laxnesskt og gamla-Íslands-legt (í óhrungjörnum skilningi) við þetta viðhorf.
Hin stóru skil sem ég man í lífinu milli veraldar sem var á Akureyri og nútímans urðu með alþingiskosningunum 1971 þegar „viðreisnar“-hafta-tíma 7. áratugarins linnti og ný vinnubrögð voru kynnt til sögu. Þessi kosningaúrslit hefðu ekki orðið reyndin þá nema vegna tilkomu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, Hannibals og félaga, sem brutu sér leið út úr Alþýðubandalaginu – sem sálrænt séð var viðreisnarflokkur líka og þekkti ekki vitjunartíma nútímans. Það má þess vegna halda því fram með vissum rétti að Samtök frjálslyndra og vinstri manna hafi verið fyrsti nútímalegi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Hann skapaði einnig fordæmi fyrir alla smáflokkana sem hafa sprottið upp reglulega síðan, frá Bandalagi jafnaðarmanna til Bjartrar framtíðar. Þegar ég les sagnfræði um þessa tíma er tilkoma Samtakanna einatt skýrð með átökum innan verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og hins vegar með persónulegu uppgjöri innan Alþýðubandalagsins. Það er örugglega eitthvað til í þessu, en mig langar til að flækja söguna ögn með nokkrum bernskuminningum.
Akureyrarskáldin og uppgjörið mikla
Þegar ég var á barnsaldri, um og fyrir 1970, var húsið okkar í Skarðshlíð 19 á Akureyri fullt frá morgni til kvölds af gestum: sérstaklega listamönnum og stjórnmálamönnum. Foreldrar mínir læstu aldrei útidyrunum og fólk gekk inn og út eins og á brautarstöð. Mamma stóð svo í eldhúsinu, hitaði kaffi og bakaði pönnukökur fyrir þennan gestaskara. Ég ólst upp við það að umræður um bókmenntir, heimspeki og stjórnmál væru óaðskiljanlegur þáttur mannlífsins og ég man að það varð mér talsvert áfall þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ekki plagsiður á öllum heimilum.
Eftirminnilegastir voru reglulegir kaffifundir Akureyrarskáldanna heima: pabba, Heiðreks Guðmundssonar frá Sandi, Einars Kristjánssonar frá Hermundarfelli og Rósbergs G. Snædal; Guðmundur Frímann sótti þessa fundi sjaldan af persónulegum ástæðum. Þarna var allt rætt, en þó einkum pólitík og listir, vísur kveðnar og sterk vináttubönd treyst. Öll þessi Akureyrarskáld voru alþýðuskáld í þeim ómóderníska skilningi að þau höfðu engan áhuga á fagurkerahætti fegurðarinnar og formsins vegna heldur vildu skapa list fyrir fólkið og sérílagi pólitíska list. Þekkt ljóð föður míns, „Slysaskot í Palestínu“, er gott dæmi um þessa pólitísku slagsíðu. Þetta olli því að Akureyrarskáldin nutu engrar virðingar hjá módernísku listaelítunni „fyrir sunnan“, jafnvel þótt hún væri vinstrisinnuð. Það bætti ekki heldur úr skák að þau ríghéldu í hefðbundna bragarhætti. Heiðrekur hafði minnstan áhuga þeirra á beinni pólitík. Hann orti djúpar sálfræðistúdíur fyrir þjóð sem hefur aldrei haft áhuga á sálfræðikveðskap. Þögnin hefur verið allkaldranaleg um nafn Heiðreks síðustu áratuga, en ég tel hann hiklaust eitt merkasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld og skora á lesendur að lesa verk hans, a.m.k. ef þeir hafa áhuga á sálfræði í listum.
Það breyttist allt í Skarðshlíð 19 með tilurð Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna. Allaballarnir Rósberg og Einar gátu ekki fyrirgefið „flokkssvik“ pabba og annarra. Rósberg orti um pabba:
Vini alla einskis mat,
yfir fjallið strekkti.
Meira gallað mannrassgat
maður varla þekkti.
„Fjallið“ var hugsanlega heiðin frá Alþýðubandalaginu til Samtakanna. Þótt vísan væri ort með kersknisbros á vör, eins og Rósbergs var vandi, þá fylgdi gamninu nokkur alvara. Akureyrarskáldin héldu áfram að hittast eftir 1971 en heilindi vináttunnar voru horfin. Það greri aldrei um heilt.
Þetta er bara lítil ljúfsár míkró-minning, en makró-lærdómurinn er stærri. Mig grunar, eftir samtöl við marga samtíðarmenn, að sjaldan eða aldrei hafi orðið jafnskýr vinslit í íslenskri pólitík á vinstri vængnum og með stofnun Samtakanna. Áratugavinskap svo margs góðs fólks lauk. Hvað olli þessum geðsmunafaraldri?
Skarðshlíð 19, Brekkugata 5, Björn og Dubcek
Það voru ekki bara Akureyrarskáldin sem hittust á kaffifundum í Skarðshlíð 19. Þarna voru haldnir sellufundir um pólitík undir forsæti pabba. Stundum færðust þeir yfir á skrifstofu vikublaðsins Verkamannsins í Brekkugötu 5, með Þorstein Jónatansson ritstjóra í forsæti: blaðsins sem skyndilega umhverfðist úr málgagni Alþýðubandalagsins í „snepil“ Samtakanna, eins og Allaballar orðuðu það. Ég, barnið, sat úti í horni á þessum fundum og drakk í mig hvert orð eins og svampur. Sumt er eins og gerst hafi í gær. Á sellufundunum heima voru harðkjarnamennirnir að baki Samtakanna fyrir norðan: Þorsteinn, pabbi, Ingólfur Árnason bæjarfulltrúi, Jón B. Rögnvaldsson (fulltrúi alþýðunnar!) og svo auðvitað sjálf vonarstjarnan: Björn Jónsson, forseti ASÍ og síðar ráðherra Samtakanna um skamma hríð.
Björn var stórmerkilegur maður og synd að enginn skuli hafa ritað ævisögu hans. Hann er líklega, ásamt Guðmundi Jaka, síðasti forystumaður verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi sem enginn hefur sakað um að bera ekki hagsmuni alþýðunnar (sem Jakinn kallaði „þetta fólk“) fyrir brjósti. Hannibal var vitaskuld andlit Samtakanna út á við. En með fullri virðingu fyrir Vestfjarðatröllinu, sem hafði ævintýranlegan kjörþokka og persónutörfra, þá var hann enginn hugsuður. Hugmyndafræðilegur grunnur Samtakanna var lagður á fundum Björns fyrir norðan í Skarðshlíð 19 og Brekkugötu 5, 1969-71, og að mér skilst á svipuðum fundum fyrir sunnan í stofum Magnúsar Torfa (síðar menntamálaráðherra sem lagði niður z-una sællar minningar) og Bjarna Guðnasonar prófessors. Ég segi því stundum í bríaríi að Samtök frjálslyndra og vinstri manna hafi að stórum hluta orðið til í stofunni heima.
Um hvað snerust þessir fundir fyrir stofnun Samtakanna? Hér verð ég að valda íslenskum stjórnmálafræðingum vonbrigðum. Þeir voru ekki um vondu karlana Ragnar Arnalds og Lúðvík Jósepsson eða átök innan ASÍ. Það voru aðrir „vondir karlar“ sem voru aðalumræðuefnið (alveg eins og á fundum Akureyrarskáldanna). Pabbi og margir í þessum hópu urðu fyrir geigvænlegu existentíalísku áfalli við yfirtöku Sovétríkjanna á Tékkóslóvakíu 1968-69. Innrásin gamla í Ungverjaland hafði verið nógu slæm en það var haldið í vonina um að „Eyjólfur hresstist“. Það sem einkenndi brotthlaupsfólkið úr Alþýðubandalaginu 1968-71 var í mínum skilningi, sem barns, uppgjör við átökin fyrir austan járntjaldið fremur en við séríslensk deiluefni. Meirihlutinn í Alþýðubandalaginu hætti að vísu að gjalda Sovétinu varaþjónustu eftir 1968, og jafnvel fyrr, en innst inni bjó vonin um að alheimssósíalismanum væri samt viðbjargandi. Samtakafólkið sagði nei og vildi bjóða upp á nýja vinstrimennsku með frjálslyndi og húmanisma sem rauða þræði. Það nafn sem oftast bar a góma í Skarðshlíð 19 var frelsishetjan Alexander Dubcek. Pabbi og Björn dýrkuðu hann; pabbi klippti myndir af honum út úr blöðum en tók að henda „Fréttum frá Soveríkjunum“, sem barst frá Menningarfélagi Íslands og Ráðstjórnarríkjanna mánaðarlega, í körfuna. Ég, barnið, skynjaði Alexander þennan sem einhvers konar fjarverandi heimilisvin er hlyti að mæta sjálfur á sellufundinn einn góðan veðurdag. Hann var persónugervingur Samtakanna í djúpum hugmyndafræðilegum skilningi.
Barnalegur Hegelismi?
Einhver lesandi kann að álykta að „söguskýringin“ sem ég hef gefið hér að ofan sé ekki aðeins barnsleg heldur barnaleg: hughyggja Hegels á sterum. Kaffifundir í stofu á Akureyri vinna ekki kosningar. Marxískar söguskýringar drottna enn, jafnvel eftir fall marxismans, og Bill Clinton dró þær vel saman í spakmælinu fræga: „It’s the economy, stupid.“ Vitaskuld er það rétt að haftatímanum á Íslandi hefði lokið fyrr en síðar, án tilkomu Samtakanna. Þetta efnahagslíkan var einfaldlega ekki sjálfbært. Nútíminn hefði haldið innreið sína – jafnvel á Akureyri – ef ekki 1971 þá örlítið síðar.
„Það er afar sjaldgæft að stjórnmálaheimspeki móti umræðu um átök í íslensku stjórnmálalífi.“
Það er samt gaman að leyfa huganum að reika og rifja upp hvað persónur sem höfðu áhrif á gang Íslandssögunnar voru að hugsa. Ef til vill hefur einhver þegar skrifað doktorsritgerð um sögu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, án minnar vitundar. Ef ekki þá þarf að tala við fólk sem enn man þessa tíma og þá tilfinningaóreiðu sem þeir sköpuðu. Það er afar sjaldgæft að stjórnmálaheimspeki móti umræðu um átök í íslensku stjórnmálalífi. Laxness sagði að Íslendingar væru ekki mjög „hjálplegir í samræðum“ þegar talið bærist að heimspeki. En árin 1968-71 voru sér á báti að þessu leyti. Það má vel vera að rökræðurnar sem þá fóru fram á heimilum norðan og sunnan heiða séu bara „yfirborðsfyrirbæri“ í díalektískum söguskilningi Marx, „grunnurinn“ hafi verið annar. En þær eru samt spennandi umhugsunarefni.
Ég spyr: Er einhver viðlíka heimspeki iðkuð í pólitískri umræðu samtímans á Íslandi?
Athugasemdir