„Það verður örugglega farið yfir þetta hjá deildinni,“ segir Helgi Gestsson, lektor við Háskólann á Akureyri og leiðbeinandi Jóhanns Magnúsar Elíassonar, nýútskrifaðs viðskiptafræðings sem fram kom í fréttum Stöðvar 2 um helgina og hélt því ranglega fram, með vísan til eigin rannsókna, að virðisaukaskattur skilaði nær engum tekjum í ríkissjóð.
Í lokaritgerð Jóhanns er fullyrt að tekjur ríkisins af virðisaukaskatti hafi einungis numið tæpum 19 milljörðum árið 2012. Með uppflettingu í ríkisreikningi má hins vegar sjá að tekjur af virðisaukaskatti námu samtals 142,4 milljörðum árið 2012 og voru 27,1 prósent af heildartekjum ríkissjóðs. Í ritgerðinni er einvörðungu byggt á Excel-skjali frá ríkisskattstjóra sem sýnir innskatt og útskatt hjá ýmsum atvinnugreinum en ekki þann virðisaukaskatt sem almennir neytendur greiða vegna kaupa á vöru og þjónustu. Fékk ritgerðin sérstaka vigt í fréttatíma Stöðvar 2 þar sem rætt var við Jóhann og niðurstöður hans kynntar með myndrænum hætti.
Jóhann þakkar Helga Gestssyni leiðbeinanda sínum sérstaklega fyrir gott samstarf fremst í ritgerðinni. „Leiðbeinanda mínum Helga Kristínarsyni Gestssyni þakka ég alveg sérstaklega fyrir að hafa aðstoðað mig og leitt mig áfram við þetta verkefni og þegar ég fór aðeins af réttri leið leiðrétti hann stefnuna jafnóðum,“ skrifar Jóhann Magnús.
Stundin hafði samband við leiðbeinandann. „Í ritgerðinni koma fram fyrirvarar og í niðurstöðukaflanum segir að þarna sé notað gagnasafn frá ríkisskattstjóra um skattskylda veltu og undanþegna veltu. Það er út frá því sem ályktanirnar eru dregnar,“ segir Helgi Gestsson. „Því miður þá er ekki inn í þeim gögnum það sem innheimt er hjá tollstjóra, en allt annað er þarna. Ég reyndar hljóp inn í þetta á miðju tímabili og þá var hann búinn að vinna töluvert í þessari sundurliðun sem hann er með. Þá kemur í ljós að tölurnar eru dálítið skrítnar. Þess vegna eru settir þessir fyrirvarar, sú forsenda að niðurstöðurnar miðist við það gagnasafn sem hann notaði. Hann dregur svo ályktanir út frá þessu, en í viðtalinu alhæfir hann um virðisaukaskatt almennt.“
Helgi segist hafa haft samband við ríkisskattstjóra til að fá gögnin staðfest. „Því þetta leit sérkennilega út og þess vegna komu fyrirvararnir og út frá þeim forsendum vinnur hann verkefnið. Ekki skal ég þó sleppa því að viðurkenna að best hefði verið ef mér hefði tekist að benda honum á að sækja til tollstjóra það sem þar er.“
Athugasemdir