Ljósmæður samþykktu í atkvæðagreiðslu miðlunartillögu ríkissáttasemjar í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins. Tillagan var samþykkt með 95,1 prósenti greiddra atkvæða. Á kjörskrá voru 247 og 224 greiddu atkvæði, sem jafngildir 91 prósent þátttöku.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þá einnig samþykkt miðlunartillöguna fyrir hönd ríkisins og er því nýr kjarasamningur kominn á en hann gildir til 31. mars á næsta ári.
Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í deilunni 21. júlí síðastliðinn en í henni fólust í meginatriðum sambærilegar hækkanir og voru í samningi sem gerður var milli samninganefndar ljósmæðra og ríkisins 29. maí síðastliðinn. Sá samningur var hins vegar gjörfelldur í almennri atkvæðagreiðslu meðal ljósmæðra. Tillagan nú gerir ráð fyrir að skipaður verði þriggja manna gerðardómur sem kveða skuli upp úr um með hvaða hætti álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra skuli hafa áhrif á launasetningu innan stéttarinnar. Gerðardómnum er ætlað að ljúka störfum eigi síðar en 1. september næstkomandi.
Kjaradeila ljósmæðra við ríkið er orðin löng og ströng en kjarasamningar ljósmæðra hafa verið lausir frá því í september á síðasta ári. Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjar 5. febrúar síðastliðinn. Yfirvinnubann sem ljósmæður samþykktu tók gildi 18. júlí síðastliðinn á Landspítala og skapaði verulega erfiðleika á spítalanum. Meðal annars sagði Páll Matthíason, forstjóri Landspítala, að hættuástand hefði skapast á spítalanum og var þrautaráðið að loka meðgöngu- og sængurkvennadeild og sameina þjónustu á kvenlækningadeild. Þá var 12 vikna ómskoðunum aflýst og nokkur fjöldi barnshafandi kvenna var sendur á önnur sjúkrahús, meðal annars norður á Akureyri.
Fjöldi ljósmæðra um land allt hefur sagt upp störfum, flestar á Landspítala eða 30 talsins. 10 uppsagnir hafa þegar tekið gildi þar og fleiri bætast við um komandi mánaðarmót, að óbreyttu. Páll Matthíasson hefur lýst því að fæðingarþjónusta Landspítala muni ekki komast í eðlilegt horf fyrr en þær ljósmæður sem sagt hafa upp störfum ráði sig til vinnu að nýju.
Athugasemdir