Skortur er á upplýsingaöflun og sérstökum verkferlum innan heilbrigðiskerfisins varðandi áverka af völdum hunds, af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurnar Björns Levís Gunnarssonar að dæma. Á seinasta ári rötuðu um það bil 160 inn á borð heilbrigðisstofnana á landsvísu þar sem áverkar eftir hund áttu í hlut. Fyrr á árinu slasaðist barn alvarlega eftir að hafa verið bitið í andlitið af hundi af gerðinni alaskan malamute.
Í fyrirspurninni spyr Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, hversu margir hafi leitað til læknis seinastliðin fimm ár vegna áverka eftir hund, hverjir verkferlarnir séu leiti einstaklingur læknisaðstoðar vegna áverka eftir hund og hvaða upplýsinga sé aflað í slíkum tilvikum. Þá spyr hann einnig hvort að áverkarnir séu flokkaðir eftir alvarleika.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir engar heildstæðar upplýsingar til um fjölda einstaklinga sem leita til læknis árlega vegna áverka eftir hund. Hún segir heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús ekki heldur vera með sérstaka verkferla vegna áverka af völdum hunds en skjólstæðingur sé spurður hvort atvikið hafi verið tilkynnt til lögreglu og slíkt ráðlagt sé viðkomandi ekki eigandi hundsins. Hún segir áverkum lýst í sjúkraskrá en ekki sé viðhöfð sérstök flokkun á áverkum eftir hund.
Svandís segir þó öll slys vera flokkuð eftir alvarleikastigi á Landspítalanum, en skorin séu sjö talsins; enginn, lítill, meðal, mikill, alvarlegur, lífshættulegur, deyr. Á seinastliðnum fimm árum hafa flestir áverkar eftir hund verið skráðir undir alvarleikastiginu “enginn” eða “lítill”. Sjö tilfelli voru skáð undir “meðalalvarleika”. Samkvæmt töflu sem fylgdi svari heilbrigðisráðherra hafa allt að 743 áverkar eftir hund verið skráðir innan heilbrigðiskerfisins en þess má þó geta að ekki er tilgreint sérstaklega hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands af völdum hvaða dýrategundar bitin eru. Heilbrigðisstofnum Vestfjarða gat einungis áætlað fjölda áverka af völdum hunds sem 3-4 á hverju ári, og þá fengust ekki svör frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í tæka tíð og er fjöldi tilfella því líkast til meiri.
Athugasemdir