Áætlaður heildarlaunakostnaður vegna aðstoðarmanna ráðherra og ríkisstjórnar er 427 milljónir króna í ár.
Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Launakostnaðurinn aðstoðarmanna árið 2013 nam 175 milljónum króna sem runnu til 14 aðstoðarmanna.
Alls hafa 24 aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar verið ráðnir af ríkisstjórn Katrínar en í dag eru 22 starfandi. Það er jafnframt mesti fjöldi aðstoðarmanna sem starfað hefur í einu fyrir ríkisstjórn en fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar voru 20 aðstoðarmenn að störfum.
Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna aðstoðarmanna ráðherra nemur því um 1,7 milljörðum króna á kjörtímabilinu en mánaðarlaun aðstoðarmanna eru tæpar 1,2 milljónir króna.
Meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra samkvæmt lögum Stjórnarráð Íslands. Stöður aðstoðarmanna eru ekki auglýstar enda eru þeir pólítískt skipaðir.
Launakostnaður aðstoðarmanna aukist gríðarlega
Samkvæmt núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands hefur hver ráðherra heimild til þess að ráða tvo aðstoðarmenn án auglýsingar. Þá getur ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar en slík ákvörðun hefur ekki verið tekin enn. „Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort sú heimild verði nýtt,“ segir í svari Katrínar.
Kostnaður vegna rekstur ríkisstjórnarinnar hefur aukist um rúmar 200 milljónir króna frá árinu 2012 og er áætlað, samkvæmt fjárlögum 2018, að hann nemi 461 milljón króna í ár. Fjárheimildin dugir því rétt rúmlega fyrir launum aðstoðarmannanna en þá á eftir að greiða ráðherrunum laun. Þannig er ljóst að kostnaðurinn við rekstur ríkisstjórnarinnar mun fara langt fram úr fjárheimildum samkvæmt fjárlögum.
Athugasemdir