Ríkislögreglustjóri fjallaði um „The Nordic Resistance Movement“ í skýrslu sinni um mat á hættu af hryðjuverkum á síðasta ári. Hreyfingin virðist nú hafa skotið rótum á Íslandi en aðilar sem segjast tengdir henni hafa dreift áróðri í Hlíðahverfi í Reykjavík í nafni „Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar“.
Samtökin eru samansett af hópum í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Danmörku, og nú Íslandi, sem vilja mynda nýtt sameinað ríki Norðurlandanna. Hóparnir á Norðurlöndum beita orðræðu nýnasista og hafa verið bendlaðir við ofbeldisverk. Voru þrír menn tengdir samtökunum í Svíþjóð dæmdir í fangelsi í fyrra fyrir sprengjuárás í Gautaborg.
„Evrópulögreglan segir að ógnin geti lýst sér í ofbeldisverkum einstaklinga og hópa“
Í skýrslu sinni „Mat ríkislögreglustjóra á hættu af hryðjuverkum“ frá janúar 2017, er fjallað sérstaklega á samtökin og sagt að Evrópulögreglan (Europol) bendi á að slíkir pólitískir öfgahópar geri málefni flóttafólks og hælisleitenda að deiluefni, stuðli að sundrungu og beiti sér á samfélagsmiðlum af gífuryrðum og hatursorðræðu. „Vakin er athygli á að í sumum aðildarríkjum ESB hafi þess orðið vart að borgarar hafi myndað eftirlitshópa sem fara um götur og hverfi,“ segir í skýrslunni. „Stjórnvöld í Finnlandi hafi upplýst að í sumum bæjum haldi „Finnska andspyrnuhreyfingin“ uppi slíku eftirliti og segja hana vera hluta af „Norrænu andspyrnuhreyfingunni“ en svo nefnist samtök skandinavískra þjóðernissósíalista sem starfræki deildir í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.“
Virðast ekki hafa vitað af íslenskri starfsemi
Embættið virðist ekki hafa vitað af starfsemi Íslandsdeildarinnar undir nafninu Norðurvígi þegar skýrslan kom út, en lén þessara aðila var skráð hjá ISNIC í maí 2016. Samkvæmt vefsíðunni héldu samtökin vikulega fundi árið 2017 og söfnuðu fjárstuðningi frá meðlimum sínum. Þá segir að tveir hafi farið til Svíþjóðar til að funda með skoðanabræðrum.
Evrópulögreglan bendir á að einstaklingar, stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar og mannréttindasamtök sem andmæla málflutningnum kunni að verða fórnarlömb hatursáróðurs og hvatningar til ofbeldisverka. „Evrópulögreglan segir að ógnin geti lýst sér í ofbeldisverkum einstaklinga og hópa og nefnir að í framtíðinni kunni líkamsárásum, íkveikjum og alvarlegri verknuðum þ.m.t. morðum að fjölga,“ segir í skýrslunni.
Athugasemdir