Einar Sveinsson, fjárfestir og föðurbróðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, tók nýlega við stjórnarformennsku í Hval hf.
Fyrirtækið hóf nýlega veiðar á langreyðum eftir tveggja ára hlé, en um er að ræða einu útgerðina sem stundar slíkar veiðar við Íslandsstrendur.
Reglugerð frá 2014 sem heimilar hvalveiðar við Íslandsstrendur rennur út á næsta ári og mun þannig ríkisstjórnin þurfa að taka afstöðu til áframhaldandi veiða.
Veiðarnar eru umdeildar, hafa bakað Íslandi vandræði á alþjóðavettvangi og um árabil verið einn helsti ásteytingarsteininn í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.
Svo virðist sem ekki ríki einhugur um veiðarnar innan ríkisstjórnarinnar.
Þannig sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nýlega í svari við fyrirspurn Stundarinnar að hún hefði miklar efasemdir um að hvalveiðar væru réttlætanlegar út frá umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum sjónarmiðum.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og flokksfélagi Bjarna Benediktssonar, hefur hins vegar lagst gegn því í svari við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á Alþingi að hvalveiðistefna Íslands verði endurmetin. Þá telur hann ekki unnt að takmarka veiðar á langreyði með þeim hætti að þær verði óheimilar á yfirstandandi ári.
Aðeins örfá fyrirtæki stunda hvalveiðar við Íslandsstrendur.
Hvalur hf. er eina útgerðin sem veiðir langreyðar. P 126 ehf., félag í eigu Lúxemborgarfélags Einars Sveinssonar, á 2,24 prósent í Hval samkvæmt gildandi skráningu sem í gagnagrunni Credit info og félagið Eldhrímnir ehf, í eigu Ingimundar Sveinssonar bróður Einars, á 1,53 prósent.
Á meðal fyrirtækja sem stundað hafa hrefnuveiðar eru Hrefnuveiðimenn ehf., Hrafnreyður ehf. og IP Útgerð ehf, félög sem ýmist tengjast náið eða eru í eigu Gunnars Bergmanns Jónssonar, sonar Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrsta varaformanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Athugasemdir