Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, telur að öfundsjúkt fólk hafi vegið að Braga Guðbrandssyni, nýkjörnum fulltrúa Íslands í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, undanfarna mánuði.
Gagnrýni á vinnubrögð Braga megi rekja til þess að Bragi þori að „taka hagsmuni barna fram yfir eiginhagsmuni ýmissa meðferðaraðila og framapotara í barnaverndargeiranum“. Þetta skrifar Ólafur á Facebook þar sem hann óskar Braga til hamingju með afburðakosningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Athygli vekur að einn þeirra sem læka færsluna er Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra en kvartanir barnaverndarnefnda undan vinnubrögðum Braga eru nú í rannsóknarfarvegi innan ráðuneytis sem lýtur yfirstjórn Ásmundar.
Nærtækast er að túlka orð Ólafs, sem Ásmundur Einar tekur undir, sem harða ádeilu á þá aðila innan barnaverndarkerfisins sem leituðu til ráðuneytis Ásmundar vegna ítrekaðra óformlegra afskipta Braga Guðbrandssonar af einstökum barnaverndarmálum. Í færslunni sem ráðherra lækar eru jafnframt ónafngreindum aðilum gerðar upp hvatir, þ.e. öfundsýki og eiginhagsmunasemi.
Nýleg úttekt héraðsdómara og dósents sýndi að velferðarráðuneytið vanrækti rannsóknarskyldu sína og mistókst að leiða fram staðreyndir þegar barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu kvörtuðu undan vinnubrögðum Braga Guðbrandssonar.
Í úttektinni er ekki lagt heildarmat á stjórnsýslu Barnaverndarstofu og Braga Guðbrandssonar í einstökum barnaverndarmálum, en úttektin staðfestir að sú frásögn af afskiptum Braga af svokölluðu Hafnarfjarðarmáli sem birtist í Stundinni þann 27. apríl síðastliðinn byggði á einu skráðu samtímagögnunum sem til eru um afskiptin.
Eins og Stundin greindi frá beitti Bragi sér fyrir því að faðir fengi að umgangast dætur sínar þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að faðirinn hefði misnotað þær kynferðislega. „Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði Bragi í viðtali við Stundina um umrætt mál.
„Þessi kosning er mikið afrek og sýnir að útlendingar kunna að meta frábær störf Braga fyrir börnin í veröldinni um áratugaskeið,“ skrifar Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor á Facebook. „Enda eru útlendingarnir ekki partur af íslensku kunningjasamfélagi, þar sem öfundsjúkir hælbítar hafa gjammað að Braga síðustu mánuði fyrir það eitt að hann þorir að taka hagsmuni barna fram yfir eiginhagsmuni ýmissa meðferðaraðila og framapotara í barnaverndargeiranum. Stundum nær réttlætið fram að ganga ... :) Til hamingju, Bragi Guðbrandsson!“
Auk Ásmundar Einars eru Heiða Björg Pálmadóttir, núverandi forstjóri Barnaverndarstofu og Bragi Guðbrandsson sjálfur í hópi þeirra sem læka færsluna. Þannig virðist sú skoðun ríkjandi hjá þeim aðilum sem fara með æðstu stjórn og eftirlit barnaverndarmála á Íslandi að annarlegar hvatir meðferðaraðila og barnaverndarstarfsmanna hafi legið að baki athugasemdum sem gerðar hafa verið við störf Braga.
Athugasemdir