Enn er margt á huldu um vinnubrögð Braga Guðbrandssonar, frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, í Hafnarfjarðarmálinu svokallaða, sem fyrst var fjallað um í fjölmiðlum í nóvember 2017 og aftur í apríl síðastliðnum. Þrjú mikilvæg atriði liggja þó fyrir:
1. Bragi hafði afskipti af viðkvæmu barnaverndarmáli og beitti sér fyrir því að börn yrðu látin umgangast föður sinn þrátt fyrir viðvörunarorð og áhyggjur barnaverndarnefndar og meðferðaraðila af meintum kynferðisbrotum. Þetta sýna einu skráðu samtímagögnin sem til eru um afskipti Braga af málinu, gögn sem Stundin hefur birt og vitnað er til í úttekt héraðsdómara og dósents um málsmeðferð og athugun ráðuneytisins.
2. Þegar barnaverndarnefndir kvörtuðu undan ítrekuðum óformlegum afskiptum Braga af umræddu máli og fleirum vanrækti velferðarráðuneytið rannsóknarskyldu sína, lét undir höfuð leggjast að afla gagna og leiða málsatvik nægilega í ljós. Fyrir vikið hafði ráðuneytið ekki fullnægjandi grundvöll til að leggja mat á embættisfærslur Braga, hvað þá senda honum tilmæli. Þetta staðfestir úttektin um málsmeðferð og athugun ráðuneytisins.
3. Bragi hefur sjálfur viðurkennt að þegar hann kom að barnaverndarmálinu í Hafnarfirði vildi hann ekki vita hvort faðirinn hefði hugsanlega brotið gegn börnum sínum. „Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði Bragi í hljóðrituðu viðtali þann 28. apríl síðastliðinn.
Ríkisstjórn Íslands hefur haldið framboði Braga Guðbrandssonar til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til streitu. Kosið verður í nefndina í dag en einungis hefur verið fjallað um Hafnarfjarðarmálið í íslenskum fjölmiðlum. Eftir standa spurningar eins og þessar:
1. Telur ríkisstjórn Íslands og meirihluti þingmanna að það samræmist starfsskyldum forstjóra Barnaverndarstofu og ákvæðum og anda barnalaga að forstjórinn hafi afskipti af barnaverndarmáli án þess að búa yfir upplýsingum um og án þess að hafa „áhuga á að vita“ hvort foreldri kunni að hafa framið kynferðisbrot gegn viðkomandi barni?
2. Telur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að slík vinnubrögð séu til eftirbreytni og í anda skuldbindinga Íslands á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld taka ákvarðarnir um málefni barna?
3. Geta önnur börn sem reiða sig á íslenska barnaverndarkerfið átt von á sams konar afskiptum af hálfu forstjóra Barnaverndarstofu í framtíðinni, þ.e. að háttsettur embættismaður reyni að hafa áhrif á gang barnaverndarmáls en loki augunum fyrir hugsanlegu kynferðisofbeldi?
Athugasemdir