Ég var nýskriðin úr menntaskóla, komin með alvarlegan skólaleiða og klæjaði í fingurna að sjá meira af heiminum áður en ég hlammaði mér niður á skólabekk eina ferðina enn. Það flippaðasta sem ég hafði á ævinni gert fram að þessu var að fara illa klædd á metaltónleika í Finnlandi að vetri til og óþreyjan fyrir því að lifa þessu lífi magnaðist. Ég þráði að skipta um umhverfi, upplifa eitthvað nýtt og byrja að haka af bucket-listanum. Eins og svo margar stelpur ákvað ég að svarið við bænum mínum væri að fara sem au pair, og því lá leið mín til Parísar. Eins og það var áhugaverð lífsreynsla út af fyrir sig mæli ég frekar með því að fólk ferðist með öðrum hætti.
Ævintýraþráin
Ég man hvað ég var ógeðslega stressuð þegar þáverandi kærasti minn kvaddi mig við hliðið. Ég hafði aldrei farið ein til útlanda, ein í flugvél, verið ein á flugvelli. Ég var skíthrædd um að villast á flugvellinum, hafandi aldrei þurft að pæla í neinu í fylgd með öðrum, og var nánast sannfærð um að ég myndi missa af vélinni eða enda í allt öðru landi. Við höfðum fundið fyrir mig ódýrt millilandaflug, þannig að ofan á
kvíðakastið yfir öllu sem gæti aflaga farið á Leifsstöð leyfði ég svartsýnu ímyndunarafli mínu að fylla upp í eyðurnar á því sem gæti mögulega komið fyrir mig í fimm tíma stoppinu í Manchester. Anda djúpt, ekki fríka út, ekki fara að gráta yfir því að vera að yfirgefa fjölskyldu þína til að uppfylla þinn æðri tilgang – frelsi.
Mín hugmynd til að uppfylla það markmið var að gerast au pair. Ég hafði takmarkaða reynslu af börnum og var takmörkuð barnagæla í þokkabót, en í mínum 19 ára huga var þetta besta leiðin til að ferðast og kynnast nýju fólki. Hafandi djúpa þrá um að komast í burtu og upplifa frelsið en þorandi engan veginn að skipuleggja ferðalag sjálf, fara ein í interrail eða hvað það nú var sem fólk var að gera eftir útskrift, valdi ég að fara út sem au pair. Þannig gæti ég farið til spennandi lands, lært nýtt tungumál og fengið borgað fyrir það að sinna krökkum eitthvað smávegis. Ég vissi að margar stelpur fóru sem au pair og ég, ég vildi verða ein af þeim.
Ég hafði aldrei farið til neitt sérstaklega framandi landa, en París bergmálaði alltaf í huga mér sem stór, fræg og merkileg borg og ákvað ég því að reyna að komast þangað. Ég segi „reyna“, því ég hafði ekki betra sjálfsálit en það að ég bjóst hálfpartinn ekki við að neinn myndi vilja mig þar sem ég var með tattú, göt og frönskukunnáttu sem takmarkaðist eiginlega við „Je m’appelle Diljá“. Ég fyllti þó út umsóknina með bestu getu, sagðist tala bærilega frönsku og vonaði að ég virkaði jafnfrábær og fullkomin og au pair stelpur virtust almennt vera. Ég var reyndar furðufljót að finna fjölskyldu og því fór það svo að þennan örlagaríka septemberdag var ég mætt í Leifsstöð með ferðatösku á stærð við hest á leiðinni til lands sem ég hafði aldrei komið til. Þar myndi ég búa næstu ellefu mánuðina og hugsa um tvo stráka.
Óveraldarvön í stórborg
Ég fann hvað ég var óveraldarvön þar sem ég stóð á CDG-flugvellinum, gapandi stóreygð á hermennina sem þrömmuðu vopnaðir um flugvöllinn. Einhvern veginn tókst mér að komast í gegnum flugvöllinn, kaupa rútumiða og koma mér til borgarinnar án þess að fá hjartaáfall. Rútan stoppaði síðan rétt hjá Sigurboganum og þar kom au pair-mamman að mér, standandi eins og áttavilltur jólasveinn í lopapeysu í 20 stiga hita. Fjölskyldan mín bjó í 16. hverfinu og ég fékk lítið herbergi með eldhúsi
og sturtu sem var aðskilið frá íbúðinni þeirra. Ég vissi eiginlega ekkert um hverfaskiptinguna í París áður en ég fór, fannst bara kúl hvað ég bjó nálægt Eiffel-turninum og McDonalds. Það kom þó á daginn að hverfið mitt var eitt ríkasta, ef ekki það ríkasta, í borginni. Þrátt fyrir það var fjölskyldan mín óvenju jarðbundið fólk sem ég fann síðar út að væri vegna þess að þau voru að leigja íbúðina á góðum prís af foreldrum pabbans. Að því sögðu þá átti ég eftir að eignast vinkonur í hverfinu sem bjuggu við allt annan veruleika en minn, sem var alveg þokkalega eðlilegur fyrir utan þær sakir að fjölskyldan var alltaf að kaupa fyrir mig skrítinn mat á borð við gervikrabba, geitaost og óeðlilegt magn af jógúrti þar til ég loksins þorði að biðja um að fá að kaupa inn sjálf.
„Hins vegar var nágranni minn handan við vegginn brjálaður helgarpabbi sem öskraði á börnin sín og horfði á klám á hæsta hljóðstyrk“
Herbergið mitt var pínulítið með stórum frönskum gluggum svo að allar pöddur í hverfinu söfnuðust í loftinu hjá mér þegar ég gerðist svo kræf að opna út á heitum sumarkvöldum. Veggirnir voru þunnir svo ég var heppin að vera við enda gangsins, svo það var bara herbergi öðrum megin við mitt. Hins vegar var nágranni minn handan við vegginn brjálaður helgarpabbi sem öskraði á börnin sín og horfði á klám á hæsta hljóðstyrk þegar hann var ekki með krakkana. Hann átti svangan kött sem var sívælandi og einu sinni laumaði ég harðfisk sem ég fékk sendan frá ömmu og afa undir hurðina hjá honum svo hann fengi eitthvað að éta. Ég keypti mér gítar á franska Craigslist fyrst og fremst svo ég gæti pirrað nágranna minn til baka. Slæmir nágrannar og næfurþunnir veggir voru svo sem ekkert einsdæmi en vinkona mín átti einmitt sálarbróður þessa manns sem nágranna, en sá var alltaf að öskra í símann og horfa á sjónvarpið í botni.
París var stærsta borg sem ég hafði komið til og fyrstu dagana komst ekkert að í hausnum á mér nema „Ég trúi ekki að ég sé í París”. Ég labbaði um eins og í leiðslu og tók myndir af bókstaflega öllu sem ég sá, bakaríum, ávöxtum, dúfum, kirkjum, blómum, kennileitum og sniðugum frosnum mat. Það jaðraði við geðveiki hvað smávægilegustu hlutir voru merkilegir í mínum barnslegu íslensku augum. Ég átti þó eftir að kynnast bæði jákvæðum og neikvæðum hliðum bæði þess að búa í borginni og að vinna sem au pair.
Það góða
París er frábær borg, ekki misskilja. Illa lyktandi, troðin, full af svindlum og með skrautlega metro-menningu, en frábær engu að síður. Ég var ekki búin að vera í París nema í viku eða svo þegar ég upplifði tilfinninguna sem ég fór út til að finna, frelsið. Mamma strákanna hafði fylgt mér í strætó því ég átti að mæta á fund á au pair-skrifstofunni í 6. hverfi. Hún skildi mig eftir rétt hjá Notre Dame, rauk sjálf á fund og ég varð eftir ein. Ég hafði smá tíma til stefnu, labbaði að kirkjunni og starði á hana. Torgið var pakkað af fólki en ég var ein í heiminum, enginn vissi hver ég var og enginn vissi hvar ég var. Einhvern veginn lít ég alltaf til baka á þetta augnablik sem eina bestu og sterkustu tilfinningu sem ég hef fundið. Ég var ekkert að flýta mér að eignast vini fyrstu vikurnar, ætli ég hafi ekki verið of upptekin við að taka myndir af hverju laufblaði sem ég sá til að pæla í öðru fólki. Ég fór svo á au pair-fundi og -hittinga og eignaðist vinkonur frá alls konar löndum, Bandaríkjunum, Kanada, Skotlandi, Svíþjóð og víðar. Þær voru dansarar og ljóðskáld og tónlistarmenn og jógakennarar og alls konar. Mér fannst magnað að eiga svona fjölbreyttan vinkvennahóp og þeim fannst svakalega exótískt að þekkja Íslending, spurðu mig út í veðrið og snjóhúsin og eldgosin.
„Ég var ekki búin að vera í París nema í viku eða svo þegar ég upplifði tilfinninguna sem ég fór út til að finna, frelsið“
Það sem mér fannst best við París var að sitja við Signu og drekka vín af stút. Við fórum oft í lautarferðir í almenningsgarða eða við árbakkann, hvort sem var að degi til eða kvöldi. Þetta var eitthvað sem var svo fjarri því sem maður gerir á Íslandi, að sitja við skítuga á í miðri borg með baguette í annarri og rauðvínsflösku í hinni, en kannski þess vegna eru þetta svo góðar minningar. Við hittumst líka oft vinkonurnar í hverfinu mínu og spjölluðum yfir hinu daglega croissanti eftir að við fylgdum börnunum í skólann. Góðar stundir.
Miðvikudagar voru almennt slæmir dagar fyrir au pair-stéttina, en í stað þess að fylgja börnunum í skólann og vera frjáls ferða okkar til hálf 5 líkt og vanalega, var skólinn búinn í hádeginu, sem þýddi að vinnudagurinn var mun lengri hjá okkur. Við fórum því að hittast á miðvikudagskvöldum, sem hlutu nafnið „winesday“. Við söfnuðumst saman á stöðum með vafasömum tilboðum á borð við „ódýrir drykkir fyrir konur“ eða „tits for shot“ og drukkum til að gleyma deginum sem var að líða. Við fórum oft á burlesque-kvöld á bar nálægt Barbés-Rochechouart metro-stoppinu. Barbés var frekar óhugnanlegt stopp þar sem hver einasti karlmaður horfði á mann eins og maður væri pain au chocolate og „Ça va, chérie?“ ómaði í eyrunum á manni. Fimmtudagar voru síðan tileinkaðir þynnku og einkenndust af því að drattast með börnin í strætó á náttbuxunum og fara síðan beint aftur heim að sofa.
Flestar au pair reyndu að ferðast eitthvað á meðan au pair-árinu stóð. Ég var ákveðin í að fara ekkert heim eins og margir gerðu, heldur vera eins lengi í Frakklandi og ég gæti. Ég hefði viljað ferðast meira, en mér tókst þó að fara til Berlínar um áramótin og svo Couchsurfaði ég um páskana og eyddi þar nokkrum dögum með tveimur 18 ára gaurum frá Hollandi og Sviss án þess að eiga krónu. Margar au pair fylgdu fjölskyldunum í ferðalög um Frakkland eða jafnvel til annarra landa. Fjölskyldan mín tók mig einu sinni með sér í ferðalag í franska sveit og svo fékk ég að sjá Avignon þegar ég fékk það verkefni í hendurnar að fylgja strákunum til ömmu sinnar og afa þar í grenndinni og hanga með þeim í viku. Það var reyndar ekkert sérstaklega skemmtileg ferð því amman og afinn voru ekkert sérstaklega skemmtilegt fólk. Ég fór síðan á tónleikahátíðina Hellfest um sumarið einhvers staðar í Suðvestur-Frakklandi. Ég kom því alveg þokkalega miklu í verk túristalega séð.
Það slæma
Þegar ég flutti út bjóst ég einhvern veginn við því að au pair-lífið yrði eins og eitt stórt sumarfrí með smá barnapössun á hliðarlínunni. En þetta var vinna, maður vaknaði á hverjum morgni, fylgdi krökkunum í skólann, straujaði fötin þeirra, sótti þá seinni partinn, hjálpaði þeim að læra heima, eldaði kvöldmat og græjaði þá í háttinn. Það gafst ekkert alltaf tími til þess að gera eitthvað skemmtilegt eða menningarlegt, og stundum hitti ég vinkonur mínar ekki í marga daga því við vorum að vinna mismikið og á misjöfnum tímum eða þá að þær voru með fólk í heimsókn. Manni er svolítið seld þessi hugmynd að maður fari út og verði „partur“ af annarri fjölskyldu, en engin okkar upplifði það, sama hversu gott fólkið var sem við unnum fyrir, við vorum fyrst og
fremst starfsmenn. Það gat verið skrítið að heyra fréttir af sorgum og sigrum fjölskyldunnar minnar, því ég hitti þau á nánast hverjum einasta degi. Ég bjó ekki hjá þeim, ég borðaði ekki með þeim og ég vissi ekkert hvað var í gangi í þeirra lífi, fyrir utan það sem sneri að mínu starfi.
Þetta starf á sínar slæmu hliðar, sérstaklega ef þú lendir á skrítnum foreldrum. Það lentu þó nokkrar stelpur í mun meira vinnuálagi en um var samið og fengu ekkert aukalega fyrir það og sumir foreldrar voru strangir, leiðinlegir og/eða snargeggjaðir. Í sumum tilfellum skyggði starfið gjörsamlega á þessa lífsreynslu að búa í öðru landi og þá var fólk hálffegið þegar árinu lauk. Flestar vinkonur mínar þraukuðu nú, sem og ég sjálf, en þær skiptu hins vegar flestar um fjölskyldu á einhverjum tímapunkti.
„Mamman sagði henni að passa sérstaklega upp á að sú tveggja ára væri ekki að borða of mikið, hún væri svo feit“
Ein vinkvenna minna hét Nathalie, en hún var skoskur burlesque-dansari og sá um tvær stelpur, 2 og 4 ára. Þær voru alltaf mjög snyrtilega til fara og í stíl í þokkabót, ég man sérstaklega eftir þeim í hvítum jökkum og leðurbuxum. Þær máttu alls ekki skíta út fötin sín, Nathalie ranghvolfdi augunum og sagði að þær væru í fötum frá Louis Vuitton eða einhverju álíka dýru fatamerki sem kom mér á óvart að framleiddi barnaföt. Hún sagði að hún mætti bara elda fyrir þær eintómt spagettí og að þær fengju nammi í morgunmat. Hún hafi stolist til að gefa þeim epli og kjúkling og verið
húðskömmuð fyrir það. Mamman sagði henni að passa sérstaklega upp á að sú tveggja ára væri ekki að borða of mikið, hún væri „svo feit“. Við grettum okkur yfir þessu, ég pældi í því hvort það væri ekki til einhver frönsk barnaverndarnefnd. Nathalie gafst á endanum upp og skipti um fjölskyldu. Hún sá þá um börn frægrar söngkonu sem ferðaðist mikið og bauð henni að reykja jónur með sér og kallinum. Nathalie fékk heila tveggja herbergja íbúð í 20. hverfinu fyrir sig sem okkur fannst ótrúlegt miðað við að það þótti gott að vera með stúdíóherbergi á stærð við skókassa með sturtu og sameiginlegu óhugnanlegu klósetti á ganginum, eins og hjá mér. Eftir að hún flutti sá ég ekki mikið af henni, hún fékk vel borgað en var líka sífellt vinnandi og ferðaðist með fjölskyldunni til Sviss, New York og fleiri staða sem hún reyndar sá ekkert af því hún var allan tímann með börnin.
Rachel hét önnur vinkona mína sem var óheppin með fjölskyldu og endaði með að skipta. Hún bjó mjög nálægt mér og þess vegna fórum við oft saman út að skokka í bois de Boulogne þar sem ýmist biðu okkar brjálaður svanur, notaðir smokkar eða holdristar kanínur. Ekki djók. Fjölskyldan hennar var moldrík, en samt reyndu þau alltaf að borga henni minna og skömmuðu hana ef hún fékk sér ávöxt meðan hún passaði krakkana. Hún fengi matarpeninga og ætti bara að koma með sinn eigin mat. Hún var reyndar sannfærð um að þau væru með myndavélar úti um alla íbúð því þau vissu alltaf hvað hún var að gera. Rachel var reyndar ein af tveimur au pair sem fjölskyldan var með til að hugsa um þessi tvö blessuðu börn, en svo vildi til að hin stelpan hataði gyðinga og þar af leiðandi hataði hún Rachel.
Ég átti reyndar aðra vinkonu sem hét líka Rachel. Hún sá um litla stelpu sem gekk í sama skóla og strákarnir mínir og átti fjarska stranga foreldra, þar af móður sem minnti okkur alltaf smá á Gene Simmons. Sú Rachel dýrkaði barnið sem hún sá um og var frábær au pair en Gene Simmons þoldi hana ekki og rak hana á endanum upp úr þurru. Ég kynntist nýju stelpunni aðeins sem kom í staðinn fyrir hana, en hún hætti mjög fljótlega. Annars voru ekkert allar au pair-stelpurnar frábærir starfskraftar, ef marka má það að sumar þeirra stóðu upp á borði og öskruðu „I hate children!“ eitt miðvikudagskvöldið. Bresk vinkona mín var rekin meðal annars fyrir að vera óábyrgur starfsmaður, en kornið sem fyllti mælinn var þó þegar hún mætti um miðja nótt fyrir utan hús fjölskyldunnar í fylgd fimm lögreglumanna sem höfðu fundið hana ráfandi um í blakkáti í úthverfunum.
Og allt þar á milli
Parísarlífið kenndi mér að meta hluti við Ísland sem ég áður tók sem gefnum. Það voru alls konar smávægilegir hlutir sem ég pældi ekkert í að ég kæmi til með að sakna þegar ég með æluna í kokinu kvaddi Ísland á vit ævintýranna. Af einhverjum ástæðum saknaði ég þess alltaf að keyra bíl þegar ég fékk heimþrá, og ég sá sjálfa mig alltaf í anda keyra Miklubrautina á litla gamla Yarisnum mínum, eins furðulega og það hljómar. Ekki að ég hafi þó saknað þeirrar tilteknu götu sérstaklega. Hárið á mér var ógeðslegt meðan ég bjó í París því vatnið þar er svo hart og stundum var svo mikil mengun að ferskt loft féll í gleymskunnar dá. Kaffið í frönskuskólanum var instant og kaffið á veitingastöðum var eins og tjara, sem reyndar vandist. Ég saknaði líka pítusósu.
„Ég skrifaði aldrei um þegar ég var þunglynd, kvíðin, einmana eða brjálæðislega blönk.“
Eins og ég sagði í upphafi er ég eiginlega á báðum áttum með hvort ég geti mælt með þessu starfi eða ekki. Það er ekki eintóm gleði að vera au pair, þó svo að fólk sé duglegt að láta svo út líta. Ég hélt sjálf úti ferðabloggi þar sem ég skrifaði hamingjusamlega um allt það sniðuga sem ég gerði og klíndi upphrópunarmerkjum við lok hverrar setningar til að undirstrika hvað allt var geggjað!! Ég skrifaði aldrei um þegar ég var þunglynd, kvíðin, einmana eða brjálæðislega blönk. Hvernig ég var stundum veik af heimþrá og hvernig ég varð ekki glæný manneskja þó ég byggi í öðru landi. Lífið í París var enn þá bara lífið.
Ég er glöð að hafa gert þetta á sínum tíma og ég er enn þá í ágætu sambandi við fjölskylduna sem ég var hjá. Ég myndi samt aldrei fara út sem au pair í dag. Þetta starf er ekki fyrir alla og það er bara í góðu lagi. Kannski fannst mér eins og ég væri að gera eitthvað göfugt með því að fara út til að hugsa um börn, en svo vorum við flestar bara þarna til að kynnast heiminum og drekka of mikið. Það er gríðarlega vinsælt meðal ungra kvenna að fara út sem au pair til að kynnast heiminum, og ég tel það ekki svarið við ferðaþránni. Það eru til ótal aðrar leiðir til þess að ferðast og eyða tíma erlendis, og það þarf ekki að vera neinn annar tilgangur með því heldur en „af því bara“. Næst þegar ég fer til útlanda ætla ég ein, líkt og ég gerði þegar ég fór til Parísar. En bara fyrir mig og algjörlega á eigin forsendum.
10 ráð ef þú ætlar sem au pair til Parísar:
-
Safnaðu pening áður en þú ferð. Ég sló þessu persónulega upp í „þetta reddast“ og mæli ekki með því. Vikukaupið dugar manni svo sem alveg, en ef mann langar að geta keypt sér föt og bækur, farið út að borða og ferðast í fríunum er gott að búa yfir einhverjum varasjóð – eða kunna að taka yfirdrátt.
-
Veldu fjölskylduna þína. Ég var heppin að lenda hjá góðu fólki, því ég hefði örugglega samþykkt hvaða fjölskyldu sem er ef það þýddi að ég fengi að búa í sjálfri París en ekki í úthverfunum. Það komast allir að og langflestir í borginni sjálfri.
-
Farðu út í gegnum viðurkenndan aðila. Ég held það sé sniðugast. Ef þú lendir hjá ömurlegri fjölskyldu eða í öðrum vandræðum ertu með bakland.
-
Lærðu einhverja frönsku áður en þú ferð út. Hangtu á Duolingo. Ég var alveg vandræðalega slæm í frönsku í fyrstu og grét næstum yfir pirruðu Frökkunum sem skildu mig ekki því ég kunni ekki einu sinni að panta kaffibolla á tungumálinu.
-
Mættu á viðburði. Það hjálpar manni að kynnast fólki og víkka sjóndeildarhringinn að mæta á au pair-viðburði, tungumálahittinga og jafnvel couchsurfing-hittinga, bara svona upp á það að hitta áhugavert fólk úr ólíkum áttum.
-
Ekki týna Navigo-passanum þínum. Passinn gerir þér kleift að nota allar samgöngur rosalega mikið og þar sem fjölskyldan borgar hann yfirleitt verða þau hundfúl ef þú týnir honum. Einu sinni var jakkanum mínum stolið en manneskjan var svo frábær að skilja Navigo-passann minn eftir.
-
Notaðu fríin til að ferðast. Þú ert á meginlandinu! Taktu lest eða fljúgðu ódýrt til Rómar, London, Amsterdam, Suður-Frakklands eða hvert sem er. Kostar ekkert að couchsurfa og þú kynnist fólki í leiðinni.
-
Passaðu vasana þína. Símanum mínum var stolið þrisvar og flestar vinkonur mínar lentu í því. Það var líka mikið af vasaþjófum þegar ég var þarna, sérstaklega í metro-inu.
-
Farðu heim á svipuðum tíma og vinir þínir. Allir vinir mínir fóru heim viku á undan mér þannig að síðustu vikuna gerði ég ekkert nema horfa á Game of Thrones og andvarpa. Líka sniðugt að halda bara áfram að ferðast eða fá vin í heimsókn síðustu dagana og vera samferða heim.
-
Búðu þig undir sjokkið við að koma aftur heim. Það er mjög skrítið að koma heim eftir ár í burtu. Það er eins og maður hafi hálfpartinn verið í fríi en ískaldur raunveruleikinn taki síðan við með ábyrgð, skyldum og ömurlegu veðri. Þú munt mögulega standa sjálfa þig að því að knúsa rauðvínsflösku sem kostaði 2 evrur í París en kostar 2000 kall hérna og tárast yfir Paris Je T'aime.
Athugasemdir