„Í meira en hálft ár hef ég setið undir dylgjum og falsfréttum sem óþarft er að tíunda hér. Það er mér mikill léttir að þessu máli sé nú lokið.“
Þannig kemst Bragi Guðbrandsson, frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, að orði í stöðuuppfærslu á Facebook.
Fjöldi fólks sendir honum hamingjuóskir og virðist líta svo á að úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents hreinsi Braga af ávirðingum barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu sem kvörtuðu undan síendurteknum óformlegum afskiptum hans af einstökum málum.
Í úttektinni sem kynnt var í gær kemur fram að velferðarráðuneytið hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína við meðferð á kvörtunum barnaverndarnefnda og láðst að leiða í ljós hvað hæft væri í þeim ásökunum sem bornar voru á Braga Guðbrandsson. Þá kemur fram að andmælaréttar hafi ekki verið gætt gagnvart Braga.
Úttektarnefndin lagði ekki heildarmat á vinnubrögð og embættisfærslur Braga. Ekki var tekin afstaða til þeirra að öðru leyti en því að bent er á að ráðuneytið hafði ekki fullnægjandi grundvöll til að staðhæfa að Bragi hefði farið út fyrir starfssvið sitt eða brotið þagnarskyldu sinni með samskiptum sínum við föður málsaðila í Hafnarfjarðarmálinu.
Ráðuneytið er gagnrýnt harðlega fyrir að hafa ekki kannað betur afskipti Braga af því máli og óskað skýringa á þeim, en samkvæmt einu skráðu samtímagögnunum um afskiptin sem til eru beitti Bragi sér fyrir því að stúlkur yrðu látnar umgangast föður sinn þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um kynferðisbrot. Þetta gerði Bragi í kjölfar þess að föðurafi stúlknanna hafði leitað til hans.
„Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði Bragi þegar Stundin fjallaði um málið þann 27. apríl. Skjöl sem birt eru í úttekt Kjartans Bjarna og Kristínar eru hin sömu og umfjöllun Stundarinnar byggði á, en um er að ræða einu skráðu samtímagögnin um afskipti Braga af umræddu máli.
Bragi segist þó hafa orðið fyrir dylgjum og að fluttar hafi verið falsfréttir. Þar vísar hann líklega annars vegar til fréttar RÚV um kvörtun barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar frá 23. nóvember 2017 og hins vegar til fréttaflutnings Stundarinnar í lok apríl þar sem fjallað var ítarlega um afskiptin. Úttekt Kjartans Bjarna og Kristínar staðfestir þær atvikalýsingar á afskiptum Braga sem birtast í fréttum RÚV og Stundarinnar.
Í stöðuuppfærslu sinni segir Bragi að nú sé málinu lokið. Hins vegar greindi velferðarráðuneytið frá því í gær að kvörtunarefni barnaverndarnefndanna yrðu tekin til athugunar að nýju í samræmi við beiðni Braga sjálfs um endurupptöku.
Þannig er ljóst að framundan er enn frekari athugun ráðuneytisins á þeim vinnubrögðum sem barnaverndarnefndir gerðu athugasemdir við.
Athugasemdir