Stærstu leigufélög landsins Heimavellir og Almenna leigufélagið gera þá kröfu til umsækjenda að þeir skili inn sakavottorði með umsókn en annars sé hún ekki tekin gild. Skilyrðið stenst ekki persónuverndarlög eins og lesa má úr áliti Persónuverndar þar sem fjallað var um heimildir leigusala til að krefjast persónuupplýsingar.
Þá áskilur leigufélag Búseta sér rétt til að kalla eftir sakavottorði umsækjenda og reynist það ekki hreint fellur fólk af umsóknarlistanum. Þannig geta þeir sem teknir hafa verið með neysluskammta fíkniefna ekki sóst eftir íbúð hjá Búseta í þrjú ár frá dómi eða viðurlagaákvörðun.
Uppfært: Búseti hefur staðið í endurskoðun skilmála varðandi leiguíbúðir sínar í samræmi við nýju persónuverndarlöggjöfina og í kjölfar fréttarinnar fjarlægt af vefsíðu sinni áskilnaðinn um rétt til að kalla eftir sakavottorði umsækjenda.
Í áliti Persónuverndar, sem kveðið var upp í kjölfar beiðni Samtaka leigutaka, um heimildir leigusala til að fara fram á viðkvæmar persónuupplýsingar kemur fram að leigusala sé almennt heimilt að óska eftir persónuuupplýsingum um væntanlegan leigutaka, í öryggis og eignarvörslutilgangi. Áður en hann kallar hins vegar eftir viðkvæmum persónuupplýsingum þarf hann haft lagt mat á hvaða upplýsingar séu honum nauðsynlegar til að hann geti lagt mat á áreiðanleika leigutaka. „Í slíkum tilvikum mætti ímynda sér að leigusala væri í ákveðnum tilvikum heimilt að óska eftir umsögn fyrrverandi leigusala sem einstaklingur var áður leigutaki hjá. Á grundvelli þeirra upplýsinga gæti hann síðan tekið ákvörðun um hvort nauðsynlegt sé að óska frekari upplýsinga, t.a.m. með framlagningu sakavottorðs,“ segir í úrskurðinum.
„Miðað við þetta álit er gert ráð fyrir því að áður en beðið sé um sakavottorð þá hafi eitthvað gefið tilefni til þess í tengslum við samskiptin við viðkomandi leigutaka. Það að biðja um sakavottoð í öllum tilvikum, án undanfarandi mats á því hvort að einhver þörf sé á því, myndi væntanlega ekki teljast vera innan ramma meðalhófs samkvæmt þessu áliti,“ segir Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs Persónuverndar.
Heimavellir er annað af tveimur stærstu leigufélögum landsins ásamt Almenna leigufélaginu, sem er á vegum GAMMA. Félögin eiga samtals rúmlega 3.000 íbúðir sem eru leigðar út víðsvegar um landið. Þá á Búseti rúmlega 900 íbúðir.
Athugasemdir