Stundin hefur nú birt kosningapróf sitt fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 og er það aðgengilegt fyrir almenning. Prófið er hugsað sem hjálpartæki fyrir kjósendur í ellefu stærstu sveitarfélögum landsins og á að auðvelda fólki að kynna sér hversu nærri það stendur framboðum og einstaka frambjóðendum í áherslum.
Þetta er í þriðja sinn sem Stundin býður lesendum sínum upp á að taka kosningapróf en fyrir síðustu tvennar Alþingiskosningar var það einnig gert. Prófið samanstendur af á fjórða tug spurninga. Þá er kosningapróf Stundarinnar það eina sem býður svarendum tækifæri til að ákvarða aukið eða minnkað vægi málefna í svörum sínum.
Niðurstöður prófsins birtast sem listi þeirra stjórnmálaflokka og frambjóðenda sem standa næst áherslum þeirra sem prófið taka. Efstu frambjóðendum allra framboða í sveitarfélögunum ellefu var boðið að taka þátt í prófinu og brugðust flestir við því með þökkum. Þó hafa ekki allir flokkar eða frambjóðendur enn svarað prófinu.
Í Reykjavík hafa frambjóðendur úr öllum framboðum nema Frelsisflokknum og Sjálfstæðisflokknum svarað spurningunum, en boð til þeirra hefur verið ítrekað.
Þá er enn beðið svara flestra framboða í Fjarðabyggð.
Stundin er í dreifðri eignaraðild og hefur engin tengsl við stjórnmálaöfl. Rannsóknarfyrirtækið Maskína veitti ráðgjöf við gerð kosningaprófsins, yfirfór spurningar og aðferðafræði þess. Athugasemdir og ábendingar berist á netfangið kosningaprof@stundin.is.
Athugasemdir