Kjörnefnd sem skipuð var af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað kæru Pírata á framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna frá.
Ásta Guðrún Beck, formaður kjörnefndarinnar, staðfestir þetta í samtali við Stundina en úrskurðurinn var kveðinn upp rétt í þessu.
Málinu var vísað frá á þeim grundvelli að í lögum um kosningar til sveitarstjórna er hvergi að finna heimild til að kæra kosningu áður en hún fer fram, heldur miðast kæruheimildin við að úrslit kosninga liggi fyrir. Þannig er kveðið á um að kæra skuli afhent hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
Kæra Pírata laut að úthlutun listabókstafsins Þ til Frelsisflokksins, en Píratar hafa notað bókstafinn í fyrri kosningum. Eins og Stundin fjallaði um í dag hefur yfirkjörstjórn Reykjavíkur gagnrýnt meðferð sýslumanns á kærunni harðlega og í því samhengi talað um ólögmæt afskipti og óeðlileg inngrip framkvæmdavalds í kosningar sveitarfélaga.
Athugasemdir