Þingmenn telja mögulegt að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hafi brotið lög með því að leggja ekki fram upplýsingar þess efnis að Bragi Guðbrandsson hefði farið út fyrir valdsvið sitt með afskiptum af barnaverndarmáli í Hafnarfirði. Jafnframt upplýsti Ásmundur Einar velferðarnefnd Alþingis ekki um að tilmælum um að halda sig innan síns valdssviðs í framtíðinni hefði verið beint til Braga.
Þingmenn sem Stundin hefur rætt við hafa velt því fyrir sér hvort að Ásmundur Einar hafi, með því að leggja ekki fram tilteknar upplýsingar um aðkomu Braga að barnaverndarmáli því sem Stundin fjallaði um í forsíðufrétt síðastliðinn föstudag, hugsanlega brotið gegn þingskapalögum. Þannig sagði Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, í viðtali við Stundina síðastliðinn mánudag, eftir opinn fund nefndarinnar með Ásmundi Einari að hún teldi að ráðherra hefði ekki fært fram öll þau gögn sem lágu fyrir í málinu á fundi með velferðarnefnd 28. febrúar.
Frumkvæðisskylda á herðum ráðherra
Í 50. gr. þingskaparlaga segir að „við umfjöllun um þingmál, við sérstakar umræður, í svörum við fyrirspurnum þingmanna og í skýrslum, hvort sem er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingmanna, svo og við athugun mála að frumkvæði fastanefnda þingsins, skal ráðherra leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á málinu.“ Hafa þingmenn sérstaklega bent á orðalagið „hvort sem er að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni þingsins“ í þessum efnum.
Líkt og Stundin greindi frá á föstudag hafði Bragi afskipti af barnaverndarmáli í Hafnarfirði þar sem meint kynferðisbrot föður gegn dætrum sínum voru til skoðunar. Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar kvartaði undan afskiptum Braga til velferðarráðuneytisins sem kannaði gildi þeirrar kvörtunar, sem og kvartana tveggja annarra barnaverndarnefnda á hendur Braga og starfsfólki Barnaverndarstofu. Niðurstaða þeirra könnunar var sú að Bragi hefði farið út fyrir valdsvið sitt sem forstjóri Barnaverndarstofu þegar hann hafði afskipti af umræddu máli. Kemur þetta fram í minnisblaði frá skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneytinu og jafnframt var í því minnisblaði lagt til að Braga yrðu send tilmæli um að halda sig innan síns valdsviðs eftirleiðis.
Greindi ekki frá því að Bragi hefði farið út fyrir valdsvið sitt
Ásmundur Einar var þýfgaður um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi 26. febrúar síðastliðinn. Í svörum sínum sagði Ásmundur Einar meðal annars: „niðurstaða könnunar ráðuneytisins er sú að forstjóri Barnaverndarstofu, eða Barnaverndarstofa, hafi ekki brotið af sér í starfi.“ Þá mætti Ásmundur Einar á fund velferðarnefndar 28. febrúar síðastliðinn vegna málsins. Þar greindi hann nefndarmönnum ekki frá því að niðurstaða könnunar ráðuneytisins hefði verið sú Bragi hefði farið út fyrir valdsvið sitt eða beina hefði átt tilmælum til Braga.
„Ráðherra situr í skjóli þingsins
þannig að þingmenn hafa öll ráð
til að láta hann sæta ábyrgð“
Ásmundur Einar viðurkenndi svo loks í Kastljósi Ríkisútvarpsins síðastliðið mánudagskvöld að niðurstaða rannsóknar ráðuneytisins hefði verið sú sem að framan greinir. Hann sagði jafnframt að tilmæli hefðu verið send út vegna málsins og hefðu þau verið í takt við minnisblöð sem samin hefðu verið í ráðuneytinu
50. greinin kjarni málsins
Stundin hafði samband við Ragnhildi Helgadóttur, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík og sérfræðing í stjórnskipunar- og stjórnsýslurétti, og innti hana eftir því hvort hún teldi að Ásmundur Einar hefði brotið gegn þingskaparlögum með því að upplýsa ekki þingið um að niðurstaða könnunar ráðuneytisins hefði verið að Bragi hefði farið út fyrir valdsvið sitt, hvorki í óundirbúnum fyrirspurnartíma 26. febrúar eða á fundi velferðarnefndar 28. febrúar.
Ragnhildur segir að það hljóti að ráðast af því hvort niðurstaðan verði sú að þessar upplýsingar hefðu haft verulega þýðingu fyrir mat velferðarnefndar í málinu, eða þingsins.
„Ég get í sjálfu sér bara talað almennt um þetta, þar sem ég hef ekki frekar en aðrir séð þau gögn sem þarna liggja að baki. En þetta er hins vegar kjarni málsins, þetta ákvæði þingskaparlaga. Var þarna þagað yfir upplýsingum gagnvart þinginu sem ekki átti að þegja yfir? Sé það tilfellið, eða öllu heldur ef þingmenn komast að því að svo hafi verið, er síðan spurningin hvernig þingið bregðist við en þingið sjálft hefur verið mjög tregt til að láta brot sem þessi koma í hausinn á ráðherrum með öðrum hætti en opinberri umræðu.“
Nefndarmenn í velferðarnefnd hafa kallað eftir því að trúnaði yfir umræddum gögnum verði aflétt svo hægt verði að fjalla opinskátt um málið. Ragnhildur bendir hins vegar á að það sé í raun ekki nauðsynlegt til að þingmenn geti tekið afstöðu til þess hvort ráðherra hafi farið gegn lögum.
„Það má leggja trúnaðargögn fyrir þingið, og það hefur verið gert, og þingmenn hafa allt í hendi sér til að framfylgja þessu. Ráðherra situr í skjóli þingsins þannig að þingmenn hafa öll ráð til að láta hann sæta ábyrgð, verði niðurstaðan sú að hann hafi ekki lagt fram upplýsingar sem honum bar að leggja fram.“
Athugasemdir