Tekjur af Airbnb gistingu á Íslandi voru 14,7 milljarðar króna árið 2017. Tæpar tvær milljónir gistinátta voru seldar, en auk þess áttu erlendir ferðamenn um 850 þúsund gistinætur sem ekki var greitt sérstaklega fyrir. Þetta kemur fram í gögnum sem Hagstofan birti í dag.
Árið 2014 var velta Airbnb gistingar á Íslandi 2,5 milljarðar króna og hefur því veltan sexfaldast á þremur árum. Velta hótela á gistiheimila nær tvöfaldaðist á sama tímabili, úr 51,9 milljörðum króna í 94,3 milljarða. Helmingur gistinátta árið 2017 var á hótelum og gistiheimilum, 19% í gegnum Airbnb og sambærilegar síður og 8,5% í bílum utan tjaldstæða, í húsaskiptum eða með öðrum slíkum hætti.
Virðisaukaskyld velta í gististarfsemi, í milljónum kr. | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 |
Velta hótela og gistiheimila | 51.890 | 62.516 | 85.242 | 94.345 |
Velta leigusala sem nota Airbnb¹ | 2.503 | 5.524 | 11.803 | 14.697 |
307 þúsund gistinætur á þessu ári
Tölur Hagstofunnar byggjast á virðisaukaskattskilum, en samkvæmt lögum ber aðilum sem kaupa rafræna þjónustu hérlendis að greiða virðisaukaskatt af henni. Airbnb og aðrar slíkar þjónustur innheimta og standa skil á þeim virðisaukaskatti. Telur Hagstofan því gögnin vera með þeim áreiðanlegri þegar kemur að því að fylgjast með virkni skammtímaleigumarkaðarins.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 voru gistinætur ferðamanna í gegnum Airbnb og sambærilegar síður 307 þúsund. Tölur Hagstofunar eru enn ekki aðgreindar eftir landsvæðum.
Athugasemdir