Trans aktívistarnir Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Alda Villiljós sögðu hlæjandi frá því að þau hötuðu karlmenn í hlaðvarpsþættinum Hvað er svona merkilegt, í desember síðastliðnum. Í kynningu þáttarins sagði Alda, sem er formaður réttindasamtakanna Trans-Ísland, það vera „fáránlega hugmynd“ að femínistar vildu útrýma karlmönnum.
Þátturinn vakti litla athygli, en í dag birtist hins vegar frétt á DV.is með fyrirsögninni: „Alda og Sæborg segja karlmenn eiga skilið að deyja: „Lítum frekar á þá eins og kakkalakka““. Undir fréttinni er skorað á þau að svipta sig lífi, þau kölluð „fígúrur“ og „trukkalessur“ og andlega veikar. Þá segir einn lesandinn að Alda sé „glæsilegt kvikindi“ með yfirvararskegg.
Í frétt DV, sem er sú mest lesna í dag, er ekki rætt við Sæborgu Ninju eða Öldu Villiljós, en í samtali við Stundina segjast þau sár og leið vegna málsins.
Haft er eftir Sæborgu úr hlaðvarpinu frá því í desember á DV.is: „Við hötum karlmenn líklega meira en þú heldur,“ segir Sæborg við hlustendur. „Þú vanmetur það hatur sem við höfum. Þú heldur kannski að ég vilji skjóta þig í haglabyssu í andlitið, en það er ekki rétt, ég vil binda þig upp í litlu orkuveitunni niðri í Elliðaárdal og láta þig síga ofan í sýrubað, tærnar fyrst, annars deyrðu um leið og sýran fer í heilann þinn. Ó nei, þú ert ekki nógu góður fyrir það“.
Ekki sagt frá kynningu
Ekki er tekið fram í fréttinni að bæði Sæborg og Alda hlæja þegar ummælin eru látin falla, enda segjast þau hafa látið þau út úr sér í kaldhæðni til að vekja fólk til umhugsunar. Ekki er heldur tekið fram, í fréttinni sem segir efnislega að þau hati karlmenn og vilji þá almennt feiga, að orðin komu fram í hlaðvarpi undir formerkjum þess að þar ætti að taka umræðu út frá þeim fordómum gegn femínistum að þeir hati karlmenn.
Í upphafi hlaðvarpsþáttarins sem DV vitnar til kynnir Alda Villiljós þá fyrirætlun þáttarstjórnenda að „hlaupa með“ fordómafulla og „fáránlega“ hugmynd um að femínistar hati karlmenn: „Já, eins og Sæborg er búin að segja, þetta kom svona upp frá femínískum hugmyndum um mæðraveldið, og þessi hugmynd sko, að femínismi snúist um það að við viljum útrýma öllum karlmönnum, sem er svo fáránleg hugmynd, þannig að við erum bara svona að taka þá hugmynd og bara hlaupa með hana.“
Ekki er greint frá þessari kynningu í frétt DV.
Í þættinum ræða þau kerfislægt misrétti sem felst í samfélaginu, og getur verið illgreinanlegt og undirliggjandi í gildismati fólks.
Hlusta má á þáttinn í fullu samhengi hér.
„Augljós kaldhæðni“
„Ég hélt ekki að það sem ég hélt að væri augljós kaldhæðni yrði tekið alvarlega,“ segir Sæborg Stundinni. „Leið líka, þar sem þetta setur annað fólk í lélega stöðu, fólk sem er að gera mikilvæga vinnu af heilindum. Sár þar sem hin nafnlausa ritstjórn gerði ekki einu sinni tilraun til að hafa samband.“
Alda bætir við: „Já, við höfum sagt í djóki að við og femínistar almennt vilji í raun taka yfir heiminn, útrýma karlkyninu eins og það leggur sig, halda nokkrum karlmönnum eftir sem „breeding machines“ og þrælum, og svo framvegis. Þessi frétt er rosa mikið að koma höggi á femínista sem þora að tala og taka pláss.“
Hlaðvarpið andsvar við karlhatri femínista
Þau segja að „Hvað er svona merkilegt við það“ sé byggt á hlaðvarpinu „Misandry with Marcia and Rae“. „Pointið með þessu er að taka þessa fáránlegu hugmynd og láta eins og okkur sé alvara með það,“ segir Alda. „Ég get lofað því að það eru ekki til femínistar sem hugsa svona í alvörunni—annaðhvort er það þá djók eins og hjá okkur eða þeim hefur verið komið fyrir af antí-femínistum. Það er eins og þessi frétt sé unnin beint upp úr Lord Pepe myndbandinu.“
Í gær birti íslenski myndbandsbloggarinn Lord Pepe myndbandið „Non-Binary Lunacy“ þar sem hann klippti til ummæli Öldu og Sæborgar í sundur úr hlaðvarpi þeirra. Lord Pepe segist sjálfur vera þjóðernissinnaður og samsama sig við hægri væng stjórnmála.
„Hlaðvarpið fæddist sem andsvar við orðræðunni um að femínistir hati karla og vilji bara taka af þeim réttindi,“ segir Sæborg. „Við vildum líka snerta á einhverjum flötum mannréttindabaráttu, svo sem valdajafnvægi og fjölþættri jaðarsetningu.“
Athugasemdir