Vigdís Hauksdóttir, sem sækist eftir því að verða kjörinn borgarfulltrúi í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík fyrir Miðflokkinn, hefur tekið upp víkingaþema í kosningamyndböndum sínum.
Myndbandið sýnir meðal annars Vigdísi láta víkinga bera sig á malarvegi samsíða Vesturlandsvegi. „Víkingar, niður hér,“ fyrirskipar Vigdís á áfangastað, þar sem hún vill byggja nýjan Landspítala.
Þá hefur lógó Miðflokksins verið stílfært, en flokkurinn á landsvísu skreytir sig með hvítu, prjónandi hrossi undir glitrandi norðurljósum, á meðan Miðflokkurinn í Reykjavík skartar skuggamynd af hrossi framan við teiknað sjúkrahús.
„Miðflokkurinn í Reykjavík ÆTLAR að leggja Sundabraut. Við getum ekki endalaust treyst á víkinga að koma okkar á milli staða innan borgarmarkanna,“ segir Vigdís í myndbandinu.
Tilætlunin virðist vera að koma á framfæri stefnu Miðflokksins, sem er að standa gegn uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut, og mæla fyrir uppbyggingu fjær miðborginni, við Vífilsstaði eða Keldur.
Um helgina var haldið fyrsta landsþing Miðflokksins, en þar var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kjörinn formaður með 100 prósent atkvæða. Vigdís var áður þingmaður í Framsóknarflokknum undir formennsku Sigmundar.
Athugasemdir