Til er sú tegund stjórnmálafólks sem telur bann við umskurði drengja vera hið versta mál sem bitni á viðskiptahagsmunum landsins en að hvalveiðar séu val og réttur íslendinga. Þeir vilja bakka í málefnum er varða börn svo samdráttur verði ekki í túrisma en mæta með steyttan hnefa og tilbúnir til orustu í stríði fyrir því að fá að drepa dýr í útrýmingarhættu sem ekki er hægt að nýta hvorki til dýrafóðurs og hvað þá manneldis.
Árum saman hefur fjöldinn allur af samtökum, einstaklingum og jafnvel þjóðríki fordæmt hvalveiðar íslendinga. Allt kemur fyrir ekki. Hvalveiðar skulu halda áfram. Þegar markaðurinn finnst ekki skal samt halda áfram. Þrátt fyrir að lifandi hvalir hali margfallt inn miðað við dauða skal samt áfram haldið. Þótt það kosti að viðhalda tækjum fyrir iðnað sem er barn síns tíma skal enn haldið áfram. Við vitum að hingað kemur ekki fólk vegna veiðanna en þó skal áfram haldið. Í stuttu máli sagt: þetta er fullkomnlega galið.
Kalt mat. Til eru menn sem réttlæta kvalarfullar og ónauðsynlegar aðgerðir á ómálga börnum af hræðslu við einhver viðskiptatengsl en á sama tíma heimta að fá að veiða hvali í andstöðu við alþjóðasamfélagið. Að drepa hvali er spurning um sjálfstæði og fullveldi Íslendinga. Að standa með börnum er eitthvað pjatt í fólki sem skilur ekki hjól atvinnulífsins.
Finnst ykkur þetta ruglingslegt? Hræsni er það nú oftast.
Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. hætti veiði á hval 2016 vegna þess að hann sat uppi með fryst hvalkjöt að verðmæti 3,6 milljarða. Hversu marga hvali drap hann með kvalarfullum hætti sem hann gat svo ekki selt? Kristján breytti hvalkjötinu í hvalmjöl og óskaði eftir leyfi frá Matvælastofnun að fá að selja það til dýrafóðurs en fékk synjun, hann kærði synjunina og fékk svo aftur endanlega synjun því hvalmjölið þótti ekki hæft í dýrafóður.
Kristján Loftsson dó þó ekki ráðalaus heldur fékk hann undanþágu hjá Sigurði Inga Jóhannssyni þáverandi umhverfis- og auðlindamálaráðherra til að brugga bjór úr hvalmjölinu. Mjöl sem áður var hafnað sem dýrafóður. Verði ykkur að góðu sem fenguð ykkur hvalbjór óafvitandi. Í hvaða öðru landi myndi ráðherra taka fram fyrir hendurnar á Matvælastofnun með þessum hætti?
Kristján Loftsson og velvild í hans garð heldur áfram því honum tókst að fá Nýsköpunarsjóð og Háskóla Íslands til liðs við sig og saman hófu þau vöruþróun á fæðubótarefni með þeim tilgangi að bjarga fólki sem þjáist af blóðleysi.
Sigursteinn Másson fulltrúi Alþjóða dýravelferðarsjóðsins segir þetta fásinnu í viðtali við DV:
„Þetta minnir mig á umræðu fyrir nokkrum árum sem ég tók þátt í, sem snerist um að hvalkjöt gæti verið lausn á öllum hungurvandamálum heimsins til framtíðar. Núna er þessi hugmynd um fæðubótaefni viðruð í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð og Háskóla Íslands, sem er fyrirfram vonlaus og sem vekur upp spurningar hver borgi brúsann. Því staðreyndin eftir sem áður er sú, að allar afurðir sem koma frá þessum dýrum eru bannaðar samkvæmt Cites-samningnum, sem Ísland er aðili að og varðar okkur miklu að farið sé eftir. Aðeins Japan og Noregur leyfa sölu á þessum afurðum, háð skilyrðum. En nú er kvótinn stærri en oft áður, hátt í 200 dýr, sem eru um 1500 tonn. Það tæki áratugi, jafnvel árhundruð að koma 1500 tonnum af hvalkjöti ofan í þessar þjóðir,“ segir Sigursteinn.
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins kynnir Kristján Loftsson til leiks eins og einhvern bjargvætt sem ætlar að leysa mest aðkallandi vanda þriðja heimsins í dag, eins og hann sé allt í einu að veiða hval í góðgerðaskyni. Ætlar Kristján Loftsson semsagt að gefa þróunarlöndum þetta fæðubótarefni? Og hvernig ætlar hann þá að flytja það til þeirra þegar ekki má sigla með hráefni úr hval um lögsögu fjölmargra ríkja og þegar afurðirnar eru í ofanálag bannaðar allstaðar nema í Noregi og Japan? Ekki einu sinni þriðja heims ríki vilja þiggja þetta fæðubótarefni.
Fyrsta regla þess að ætla að hjálpa öðrum er að spyrja þau sem þú vilt aðstoða hvað þau vantar og hvernig þú getur hjálpað, annað er mjög “Marie Antoinette vill gefa fátækum köku”- viðhorf.
Þessi farsi er svo absúrd að ég á erfitt með að trúa því að HÍ, Nýsköpunarsjóður, Morgunblaðið og Ríkisstjórn Íslands séu að taka þátt í honum.
Höfundur er í framboði fyrir Pírata í Reykjavík.
Athugasemdir