Vinir og vandamenn Hauks Hilmarssonar, sem týndur er í Sýrlandi, gagnrýna íslensk stjórnvöld harðlega fyrir aðgerðarleysi þegar kemur að leitinni að Hauki. Síðastliðið miðvikudagskvöld dreifði hópur þeirra límmiðum um miðbæ Reykjavíkur þar sem minnt var á mál Hauks. Á límmiðunum var mynd af Hauki og áletranirnar „Þögnin er ærandi“ og „Hvar er Haukur?“. Miðarnir voru meðal annars límdir á Alþingishúsið, Stjórnarráðið og á Utanríkisráðuneytið.
Með aðgerðinni vildi hópurinn minna yfirvöld á að Haukur er enn týndur eftir að hafa farið til Sýrlands að berjast með Kúrdum gegn ISIS. Fyrstu fréttir af hvarfi Hauks bárust 6. mars síðastliðinn en hann var þá sagður hafa fallið í bardögum Kúrda við tyrkneska herinn 24. febrúar, í norðurhluta Sýrlands. Hópurinn sem um ræðir sendi frá sér tilkynningu þar sem segir að þau telji stjórnvöld hafa brugðist í málinu. „Enn hafa stjórnvöld ekki séð sóma sinn í að fordæma árásir Natóríkisins Tyrklands gegn Kúrdum í Sýrlandi, og/eða svarað Tyrkneskum stjórnvöldum sem kallað hafa Hauk hryðjuverkamann. Er Katrín Jakobs sammála Erdogan? Fannst henni árásir Tyrkja í Afrin viðbúnar?“ sagði enn fremur í tilkynningunni.
Vinir Hauks fjölmenntu á þingpalla 10. apríl síðastliðinn þar sem þau óskuðu liðsinnis þingmanna við leitina að Hauki. Í viðtali sem Stundin átti við Lárus Pál Birgisson, vin Hauks, þann sama dag kom fram að vinir Hauks hyggðust fara til Sýrlands og leita hans. Óskuðu þau eftir því að íslensk stjórnvöld tryggðu þeim örugga för á svæðinu, sem er á valdi tyrkneska hersins, með samningum við tyrknesk stjórnvöld. Enn hefur slík ferðaheimild ekki fengist, að því er segir í fyrrnefndri yfirlýsingu. „Enga hjálp varðandi það virðist vera að fá frá VG og co. Ekkert heyrist frá þeim um málið. Þögnin er ærandi,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.
Athugasemdir